Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 12:24:43 (2442)

1996-12-19 12:24:43# 121. lþ. 50.7 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:24]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst satt að segja að hér hafi orðið nokkuð mikil tíðindi. Það er spurning hvort ekki er nauðsynlegt að velta því fyrir sér að hv. heilbr.- og trn. taki þennan kafla til endurskoðunar. Hún fjallaði um málið í umboði eða að beiðni hv. efh.- og viðskn. á sínum tíma en núna sýnist mér að staðan sé þannig að hv. heilbr.- og trn. verði að skoða þetta mál aðeins betur. Það er auðvitað spurning hvort ekki væri hugsanlegt að hv. heilbr.- og trn. endurskrifaði þennan kafla vegna þess að ég tek undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að kaflinn er gallaður. Auk þess eru í honum atriði sem koma ríkisfjármálum ekkert við og á knöppum tíma þingsins núna fyrir jól ætti auðvitað að strika slíkar setningar út vegna þess að þær tefja bara og eiga ekki að vera með. Það er smyglgóss. Það er rétta orðið yfir það.

Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs, hæstv. forseti, voru önnur ummæli hv. þm. sem ég tel að sæti engu minni tíðindum og ég kom hér upp til að þakka sérstaklega fyrir og það eru yfirlýsingar hennar um það að elli- og örorkulífyrir, bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga og aðrar slíkar opinberar bætur, hljóti að fylgja launum á næsta ári. Ekki einasta hljóti þær að hækka um 2% eins og menn hafa verið að tala um að geti orðið og miðað er við í almennum forsendum ríkisfjármálanna 1997, heldur hljóti þær að hækka meira og nákvæmlega eins og kaupið á sínum tíma.

Það er okkar ákvörðun og ætlun í umræðunni að taka þau mál mjög rækilega fyrir. En það er nauðsynlegt að kvitta fyrir það, að ég tók eftir þeim ummælum hv. þm. og hvað sem öllu öðru líður, er algert úrslitaatriði að mínu mati að þinginu ljúki ekki núna fyrir jól nema fyrir liggi að ríkisstjórnin ætli að fara þá leið varðandi bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur sem hv. 6. þm. Reykv. lýsti áðan. Það er algert hneyksli ef þinginu lýkur fyrir jól án þess að niðurstaða liggi fyrir að því er varðar þennan stærsta hóp launamanna hjá ríkinu, sem eru aldraðir og öryrkjar, þannig að eftir því verður gengið mjög rækilega af okkar hálfu og ég þakka hv. þm. fyrir að vekja athygli á málinu.