Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 12:27:56 (2443)

1996-12-19 12:27:56# 121. lþ. 50.7 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir hélt ágæta ræðu áðan en það gætti mikils misskilnings í máli hennar, sérstaklega varðandi heilsugæsluna á Reykjavíkursvæðinu. Gert er ráð fyrir einni stjórn í stað fjögurra stjórna í dag. Hún telur að þessi eina stjórn geti leitt af sér aukin útboð. Ég skildi það ekki almennilega í ræðu hennar en við skulum bara skoða hvernig þetta er í dag.

Það eru fjórar stjórnir yfir heilsugæslunni, en það er einn forstjóri yfir allri heilsugæslunni, það er ein stjórnsýsla, það er eitt starfsmannahald, þannig að þarna er ekki um mikla breytingu að ræða. Þetta er sparnaður. Það er verið að spara stjórnir og það er samkomulag um þetta. Ég hef haft samráð við borgina og mönnum þykir þetta eðlilegt. Það er sem sagt ekki í dag ein stjórn yfir hverja heilsugæslustöð heldur eru þær fjórar. Það er eðlilegt að það sé ein og þannig næst meiri samhæfing en er í dag.

Hitt atriðið sem hv. þm. gerði athugasemd við, þ.e. að hægt væri að sameina sjúkrastofnanir, þá er þetta í beinu framhaldi af þeirri vinnu sem verið er að vinna um samhæfingu sjúkrahúsa, bæði úti á landi og á Reykjavíkursvæðinu. Þessi samhæfing getur leitt af sér sameiningu sem er ekki óeðlilegt ef við erum með því að bæta þjónustuna og minnka kostnað við yfirstjórn.