Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 12:33:07 (2447)

1996-12-19 12:33:07# 121. lþ. 50.7 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:33]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frhnál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1997 á þskj. 416.

Eins og boðað var í nefndaráliti meiri hlutans á þskj. 328 hefur nefndin tekið málið til frekari umfjöllunar og leggur meiri hlutinn til nokkrar viðbótarbreytingar á frv. sem eru á þskj. 417. Þessar breytingartillögur eru í fjórum liðum.

Í 1. lið breytingartillagnanna er umorðun á breytingartillögu sem var áður lögð fram um starfsmenntun í atvinnulífinu. Meginatriði í því er að starfsmenntun í fiskvinnslu var tekin inn og verið er að fjalla nánar um hvernig stjórn þessarar starfsmenntunar skuli háttað.

Í 2. lið breytingartillagnanna er verið að fjalla um að framlengja bráðabirgðaákvæði í lögum sem fjallar um framtíðarhlutverk Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.

Í 3. lið breytingartillagnanna er verið að takmarka við árið 1997 hvernig verja skuli tekjum af flugvallagjaldi.

Og í 4. lið breytingartillagnanna er umorðun á 26. gr. frv. sem verður 27. gr. Hún orðist eins og segir á þskj. 417, með leyfi forseta:

,,2. málsl. 4. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Viðkomandi sveitarstjórnir skulu árlega gefa skýrslur til veiðistjóraembættis um refaveiðar og kostnað við þær, hver á sínu svæði, og endurgreiðir ríkissjóður þá hluta kostnaðar við veiðarnar m.a. með tilliti til fjárhagslegrar getu hlutaðeigandi sveitarfélaga eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.``

Hæstv. forseti. Þessi síðasti liður breytingartillagnanna er lagður fram með þeim hætti til þess að það sé skýrt tekið fram að ríkissjóður muni eins og ákveðið er í fjárlögum greiða með refaveiðunum og í annan stað að leggja áherslu á að hluti af þeim kostnaði sem ríkið leggur í af þessum sökum renni til lítilla sveitarfélaga sem ekki hafa fjárhagslega getu til þess að standa undir þessum kostnaði.

Það vill svo til, hæstv. forseti, að kostnaður við refaveiðar fer mjög hátt í fámennum sveitarfélögum og tekjustofnar þeirra eru alls ekki við það miðaðir að geta staðið undir þeim kostnaði.