Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 12:37:58 (2450)

1996-12-19 12:37:58# 121. lþ. 50.7 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:37]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðasta lið breytingartillagnanna um refaveiðar og fyrirkomulag þeirra get ég tekið undir með formanni efh.- og viðskn. að þar er fært til betri vegar en ég vil geta þess að það er grafalvarlegt mál hvernig staðið verður að refaveiðum og þátttöku ríkisins á því sviði og urðu um það mjög heitar umræður í efh.- og viðskn., enda fjölmargir sérfræðingar á því sviði í nefndinni.

Ég vona að þó að við tökum kannski ekki stóra umræðu um fyrirkomulagið núna, við gerðum það vel í nefndinni, þá eigi þetta mál e.t.v. eftir að koma aftur til umræðu í tengslum við fjárlagagerðina, þ.e. þær tölur sem er ráðstafað til þessa merka málaflokks. En ég legg áherslu á það, herra forseti, að refaveiðar og þátttaka ríkisins í þeim málaflokki er ekki útrætt mál.