1996-12-19 13:40:27# 121. lþ. 50.14 fundur 54. mál: #A fullgilding samnings um verndun víðförulla fiskstofna og stjórnun veiða úr þeim# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins fáein orð í tilefni af því að þessi merki samningur er hér að koma til lokaafgreiðslu. Sjútvn. fékk málið frá utanrmn. og fjallaði talsvert um það og mælir með staðfestingu samningsins eins og fram kom. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það sem kemur fram í umsögn okkar að við teljum mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld vinni mjög vel að undirbúningsvinnu á því tímabili sem nú fer í hönd, frá því að við fullgildum samninginn fyrir okkar leyti, einna fyrstir þjóða ef ekki fyrstir, ekki kannski fyrstir en þó í fremstu röð. Og vonandi verður þess ekki mjög langt að bíða, að tilskilinn fjöldi ríkja hafi fullgilt samninginn þannig að hann komist til framkvæmda sem bindandi gjörningur að þessu leyti. En á þeim tíma er að okkar dómi afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld undirbúi málin og búi í haginn eins og kostur er fyrir okkur til þess að nýta okkur réttindi samningsins til að byggja sem allra sterkasta stöðu gagnvart túlkun hans, gagnvart uppbyggingu þeirra stofnana sem samningurinn gerir ráð fyrir og þá sérstaklega úrskurðarfarveginn sem samningurinn leggur niður. Þar geta upphafsskrefin og fyrstu árin skipt mjög miklu máli eins og reynslan sýnir í öðrum sambærilegum tilvikum. Það er alveg ljóst að með þessu hefur þjóðarétturinn á úthöfunum verið samningsbundinn og honum markaður farvegur. Þessi samningur kemur til með að hafa gríðarleg áhrif og gríðarlega þýðingu fyrir þróun þjóðaréttarins um væntanlega langa framtíð líkt og hafréttarsamningurinn hefur haft, jafnvel þótt hann væri ekki kominn í gildi. Það skiptir því mjög miklu máli að við bregðumst þannig við að við reynum að túlka þá möguleika sem hann býður upp á okkur til handa með jákvæðum hætti og beita þeim í okkar þágu.

Ég held að það sé ótvírætt hægt að segja, herra forseti, að það er heilmikil vinna eftir í íslenska stjórnkerfinu einfaldlega að fara yfir þetta mál og undirbúa þátttöku okkar og framgöngu á þessu sviði. Það eru t.d. hlutir sem þarf að taka afstöðu til á næstu missirum. Ætla Íslendingar að móta þá stefnu að við viljum byggja upp sjálfstæðar svæðisstofnanir hér í okkar heimshluta til að fara með fiskveiðistjórnunina á aðliggjandi hafsvæðum? Viljum við nota þær heimildir sem samningurinn býður upp á t.d. til þess að til verði sjálfstæð svæðisstofnun í norðvestanverðu Atlantshafinu, þar sem við og nágrannar okkar, Færeyingar og Grænlendingar, gætum verið aðalgerendurnir? Álitamál af þessu tagi kalla á að hlutirnir séu skoðaðir og ég vil því enda með því, herra forseti, að undirstrika á nýjan leik mikilvægi þess að slík vinna fari fram.