Tryggingagjald

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 13:50:59 (2458)

1996-12-19 13:50:59# 121. lþ. 50.5 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, ÁE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:50]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þessi breytingartillaga meiri hluta efh.- og viðskn. er formlega mjög slæm. Hér er vísað til tryggingasjóðs einyrkja og sagt í lagatextanum: ,,Er sett hafa verið lög um tryggingasjóð einyrkja`` o.s.frv. Það er vísað í sjóð sem ekki er til. Það er getið um tryggingasjóð einyrkja í frv. sem bíður 1. umr. Það er óhæfa í lögum að vísa í lög sem ekki eru til þótt í ákvæði til bráðabirgða sé og þó svo fordæmi um slíka afgreiðslu séu til. Þetta er óvönduð lagasetning. Ég hef ekki á móti efni málsins og það hefur komið alveg skýrt fram af minni hálfu. Ég hef boðist til þess í efh.- og viðskn. að standa að því að nefndin flytti þessa tillögu þegar frv. um tryggingasjóð einyrkja var komið á það stig í þinginu að hægt væri að lögfesta þetta samtímis. Það ber enga brýna nauðsyn til þess að setja þetta ákvæði til bráðabirgða eins og lagt er til í tillögu meiri hlutans. Ég sit hjá við afgreiðslu þessarar breytingartillögu en varðandi tryggingagjaldið í heild hefur það komið fram að við þingmenn jafnaðarmanna styðjum það frv.