Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 14:09:06 (2461)

1996-12-19 14:09:06# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[14:09]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1997. Heiti frv. gefur tilefni til að ætla að hér fari fyrst og fremst fram umræða um bókhald ríkisins. Það er rangt. Við erum að ræða um pólitík. Þetta frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum er í rauninni eins konar pólitísk stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar um hvernig hún vilji skipta sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar. Reyndar hefur frést úr fjmrn., og það er nauðsynlegt að fá staðfestingu á því hér í þingsal, að til standi að lækka skattleysismörk á næsta ári að raungildi. Það hefur frést að til standi að lækka barnabætur að raungildi á næsta ári. Það hefur frést að til standi að lækka barnabótaauka á næsta ári að raungildi. Ef þetta er rétt þá þýðir þetta það að náð verður í 800--1.000 millj. kr. ofan í vasa launafólks á næsta ári. Þetta eru svo alvarleg tíðindi, ekki aðeins fyrir launafólk og allan almenning í landinu, heldur er þetta sprengja inn á samningaborð kjaraviðræðna sem nú standa fyrir dyrum og menn spyrja sig núna hvað það sé sem raunverulega vaki fyrir ríkisstjórninni.

Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð var því lýst yfir í stjórnarsáttmálanum að til stæði að lækka jaðarskatta. Fljótlega kom í ljós að þetta hygðist ríkisstjórnin gera í tengslum við kjarasamninga. Ríkisstjórnin ætlar að semja við launafólk um sín eigin kosningaloforð og nú er að koma á daginn hvernig á að fjármagna þessi sömu kosningaloforð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Það á að seilast ofan í vasa launafólks eftir 800--1.000 millj. kr., væntanlega til að semja um í komandi kjarasamningum. Ef þetta er rétt, og um þetta verður að fá upplýsingar hér í þingsal, þá er þetta reginhneyksli. Í rauninni erum við að tala um miklu hærri upphæðir en þetta. Við erum að tala um hærri upphæðir en þessu nemur vegna þess að gera má ráð fyrir því að í komandi kjarasamningum verði samið um launahækkanir og þá munu breytingar á þessum stærðum, á persónuafslætti og þessum bótum, vega miklu þyngra en þessu nemur.

Þetta eru hlutir sem við verðum að fá upplýsingar um. Alþingi og þjóðin öll á kröfu á því að þetta verði upplýst. Stendur til að lækka að raungildi skattleysismörkin? Stendur það virkilega til að halda frystum persónuafslætti sem jafngildir því að skattleysismörk hjá launafólki verði lækkuð? Og ekki nóg með þetta. Það á að auki að seilast ofan í vasann hjá barnafólki og hjá því barnafólki sem er tekjulægst því það á einnig að skerða barnabótaaukann að raungildi. Upplýsingar um þetta verðum við að fá í þingsal og við þessa umræðu.

Það er umhugsunarefni að á sama tíma og fréttir berast af metafla hjá Íslendingum, það hefur aldrei nokkurn tíma í sögu þjóðarinnar fiskast eins vel og á þessu ári, og þetta er nokkuð sem við skulum ekki hafa í flimtingum, á sama tíma og þetta gerist berast fréttir frá hjálparstofnunum um að aldrei hafi verið eins mikið leitað til þeirra af fólki sem er í nauðum statt. Í öllu góðærinu berast þessar fréttir af misskiptingunni. Það er í þessu samhengi sem við erum að ræða þessa pólitísku stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna þess að í því plaggi sem hér er til umfjöllunar, í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, kemur fram að þeir hópar sem sérstaklega er ráðist á eru þeir hópar sem einkum eiga undir högg að sækja í íslensku þjóðfélagi. Það eru fatlaðir. Það er sérstaklega ráðist á fatlað fólk í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

[14:15]

Ég ætla að gera nokkrar greinar frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum að umræðuefni hér. Ég ætla að byrja á því að nefna 2. gr. frv. sem gerir ráð fyrir því að innheimt verði sérstakt gjald, endurinnritunargjald, af nemanda sem endurinnritar sig í próf eða áfanga. Í hinu upprunalega frv. er kveðið á um að þetta skuli vera upphæð sem nemi 1.500 kr. Sú upphæð hefur nú í brtt. verið lækkuð niður í 500 kr. En eftir sem áður er verið að skattleggja unglinga. Það er verið að leggja álögur á unglinga sem eiga í erfiðleikum við námið og eins og hv. þm. Svavar Gestsson nefndi það, þá er þetta sérstakur skattur á námserfiðleika. Þetta er sérstakur skattur sem lagður er á námserfiðleika. Það er umhugsunarefni þegar reynt er að setja alla hluti upp á bókhaldsvísu og leysa alla hluti á bókhaldsvísu, þá fara menn inn á brautir sem þessa, en við skulum ekki gleyma því að það fólk sem hér á í hlut, ungt fólk, er iðulega, og sérstaklega þeir sem lenda í vandræðum í sínu námi, fólk sem er á því skeiði ævinnar sem það er kannski einna síst í jafnvægi og hefur þörf fyrir stuðning frá sínum fjölskyldum og sínu umhverfi og þar á meðal skólunum. Þessi refsivöndur sem er reiddur á loft í frv. verður ekki til að bæta úr því sem segir í greinargerð með frv. þar sem talað er um að endurtekning prófa sé óeðlilega mikil og hugsunin með því gjaldi sem þarna á að leggja á nemendur sem þurfa að endurinnrita sig sé sú að með þessu verði nemandinn látinn standa straum af kostnaði sem óhjákvæmilega hlýst af því að halda endurtekningarpróf en hugsunin er einnig sú að með þessu móti sé hægt að aga unga fólkið.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé afskaplega misráðið að gera þetta. Það sem skólayfirvöldum og löggjafanum ber að gera er að leita leiða til þess að veita þessu unga fólki öryggi og finna leiðir sem styrkja sjálfsímynd þess í stað þess að finna upp refsingar af þessu tagi.

Samtök námsfólks hafa mótmælt þessum skatti mjög harðlega, kalla þetta fallskatt, og samtök skólafólks hafa mælt mjög eindregið gegn þessari lagabreytingu. Skólamenn eru almennt mjög andvígir þessari breytingu. En þeir sem hugsa samkvæmt þankagangi bókhaldarans og vilja leysa öll vandræði og allt sem á bjátar með refsingum og refsivöndum og sektum koma fram með tillögur af þessu tagi. Það er ekki nóg með þetta því að í frv. er líka verið að festa í sessi skólagjöld.

Hér hafa verið miklar deilur í þjóðfélaginu undanfarin ár um hvort yfirleitt eigi að leggja gjöld á nemendur. Það hefur verið deilt um þetta varðandi háskólastigið og skólagjöld á framhaldsskólastigi. Með þessu frv. er verið að festa skólagjöld í sessi. Við sjáum það gerast og erum búin að sjá það gerast á undanförnum árum hvernig menn hafa smám saman verið að færa sig upp á skaftið í þessum efnum, aukin gjaldtaka á öllum sviðum og þá einnig í skólakerfinu. Ég vil sérstaklega andmæla þessum lagabreytingum.

Varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra, þá er hann skertur verulega. Í lagafrv. er kveðið á um það að erfðafjárskattur umfram 165 millj. kr. skuli renna til ríkissjóðs en ekki til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Þær tölur sem nefndar hafa verið í þessu sambandi, ef fjármagnið allt hefði runnið til fatlaðra, eru 420--430 millj. kr. sem hefðu átt að renna óskiptar til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. En í frv. er kveðið á um það að einvörðungu 165 millj. kr. skuli renna til fatlaðra. Eins og fram hefur komið í umræðunni í dag er verið að skáka ýmsum kostnaðarliðum til í kerfinu en eftir því sem ég kemst næst er með þeim breytingum sem verið er að gera í þessu frv. og í fjárlagafrv. verið að skerða framlag til þessa málaflokks um 130--140 millj. kr. Mitt í góðærinu er verið að skerða framlag til fatlaðra um 130--140 millj. kr. þegar upp er staðið. Það eru þær ákvarðanir sem hér er verið að taka í þessari stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Annað sem hefur verið gagnrýnt mjög harðlega er sú ákvörðun að færa Starfsmenntasjóð undir Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég vil ítreka þau mótmæli sem hér hafa komið frá stjórnarandstöðu og eru að hluta til endurómur mótmæla sem borist hafa víða að úr þjóðfélaginu, frá verkalýðshreyfingunni t.d. og ekki síst, um þessa ráðstöfun.

Enn eitt atriði sem ég vil sérstaklega gera að umræðuefni er sú ákvörðun að ávísa auknu valdi til heilbrrh. Í nefndaráliti frá minni hluta efh.- og viðskn. er talað um ,,blankótékka`` handa heilbrrh. af þessu tilefni. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Sérstakur kafli er í frumvarpinu um heilbrigðisþjónustu. Þær greinar varða fjárlögin ekki nema að litlu leyti en eru settar inn í bandorminn til að fá auknar heimildir fyrir heilbrrh. til að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna að eigin geðþótta.

Þannig er í frv. heimilað að sameina stofnanir og breyta skiptingu heilsugæsluumdæma og starfssvæða heilsugæslustöðva og ráðherra verður heimilt að setja með reglugerð ákvæði um flokkun sjúkrahúsa, starfssvið og verkaskiptingu, svo og ákveða sameiningu sjúkrastofnana. Það er ljóst af þessu að hér er um mjög víðtækar heimildir að ræða.``

Í þessu áliti er vitnað í minni hluta heilbr.- og trn. en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Vinnuaðferð ríkisstjórnarinnar endurspeglar því augljóslega að hún óttast umræðu um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Það segir sína sögu um eðli þeirra. Sérstök athygli er vakin á því að heilbrigðisþjónustukaflinn sker sig úr að því leyti að ekki er að finna annars staðar viðlíka efnisbreytingar á gildandi lögum í frv. Þá er hér er um víðtækt framsal að ræða til ráðherra.`` Svo mörg eru þau orð.

Um þetta vil ég segja þetta: Það hefur færst í vöxt á undanförnum árum að framkvæmdarvaldið leiti eftir því að Alþingi gefi heimildir til víðtækra skipulagsbreytinga í stjórnkerfinu. Það er ekki svo ýkjalangt síðan hæstv. fjmrh. reyndi að fá samþykkt á Alþingi víðtæka heimild fyrir svokölluðum þjónustusamningum, að ríkisvaldið fengi heimild til að gera þjónustusamninga við einstakar stofnanir. Þetta vakti mikil mótmæli á þingi þegar þetta kom til umræðu og menn bentu réttilega á að til þess væri löggjafinn að setja leikreglurnar og menn vildu fá að vita, hvað það væri sem framkvæmdarvaldið hefði í hyggju. Hið sama er upp á teningnum hér. Jafnvel þótt menn kunni að vera sammála því að það þurfi að ráðast í margvíslegar kerfisbreytingar í heilbrigðiskerfinu, þá vilja menn fá tækifæri til að ræða þetta í opinni og lýðræðislegri umræðu áður en ákvarðanir eru teknar. Það var merkilegt að fylgjast með því þegar frv. í þessa veru var rætt á þinginu sl. vor einmitt um skipulagsbreytingar í heilbrigðiskerfinu, heilbrigðisþjónustunni, þá kom fram í umsögnum víða að á landinu að menn væru reiðubúnir til að taka þar á margvíslegum skipulagsvanda, en vildu vita að hverju þeir væru að ganga, vildu fá tækifæri til að veita löggjafanum umsögn um málið áður en gengið væri frá, ég vil kalla það, valdaafsali að þessu leyti. Ég skrifa þess vegna algerlega upp á þessar efasemdir sem fram koma í minnihlutaáliti bæði heilbr.- og trn. og einnig af hálfu minni hluta efh.- og viðskn.

[14:30]

Hér hefur verið upplýst og er upplýst í nál. minni hluta efh.- og viðskn. að af hálfu meiri hlutans væri í undirbúningi frv. um breytingar á nokkrum lögum sem tengjast afgreiðslu fjárlaga og mun það ganga undir heitinu skröltormur. Minni hlutinn hyggst við afgreiðslu þessa svokallaða skröltorms leggja fram brtt. um að hækkun atvinnuleysisbóta, ellilífeyris og bóta úr almannatryggingakerfinu miðist við launabreytingar eins og áður. Þetta tel ég vera algjört grundvallaratriði. Við erum í rauninni ekki aðeins að fást við efnahagsstærðir, við erum að ræða um siðferði. Menn höfðu af því þungar áhyggjur við afgreiðslu fjárlaga síðastliðið vor þegar atvinnuleysisbæturnar og tryggingabæturnar almennt voru teknar úr tengslum við launaþróun í landinu, að það kynni að koma niður á þeim hópum, að það kynni að bitna á þeim, að það kynni að skerða kjör þessara hópa.

Það er mín skoðun að Alþingi eigi að sjá sóma sinn í því að þinghaldinu verði ekki lokið fyrir jólin nema að frágengnum þessum málum. Að því frágengnu að gulltryggt verði að lífeyrisþegarnir, atvinnulausa fólkið muni halda sínum hlut óskertum á næsta ári. Það þykir mér vera algjört grundvallaratriði. Það er athyglisvert, og menn skyldu hafa það í huga í tengslum við komandi kjarasamninga, að samtök launafólks hafa lagt á það mjög þunga áherslu að frá kjarasamningum verði ekki gengið nema þessi mál séu í höfn. Mér finnst að Alþingi eigi að sjá sóma sinn í því áður en þinginu er slitið og menn halda að jólaborðinu að frá þessum málum verði gengið.