Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 14:34:59 (2463)

1996-12-19 14:34:59# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[14:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spurði áðan hvort það væri rétt sem við hefðum heyrt úr stjórnkerfinu að virkilega standi til að frysta persónuafsláttinn vegna þess að það þýðir í raun að skattleysismörkin verða lækkuð. Og hvort virkilega standi til að frysta barnabæturnar og hvort virkilega standi til að frysta barnabótaaukann sem þýðir í raun skerðingu á ráðstöfunartekjum hjá almennu launafólki og skerðingu sérstaklega hjá launafólki sem býr við barnaómegð. Því ef þetta er rétt þá er ríkissjóður að seilast ofan í vasa hjá almenningi um 800 millj. kr. Og ég heyrði ekki betur en hæstv. fjmrh. væri að staðfesta að síðan ætti að semja um þessa hluti sem þeir eru að taka frá launafólki. Að til standi að setjast að samningaborði til að semja um það sem ríkisstjórnin er að hafa af almennu launafólki núna.