Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 14:38:00 (2465)

1996-12-19 14:38:00# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[14:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að mjög mikilvægt sé að fólk láti ekki blekkjast í þessu efni. Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á staðreyndum þessa máls. Persónuafslátturinn hefur verið hækkaður í lok árs. Áður var þetta gert tvisvar á ári. Núna stendur hins vegar til að frysta persónuafsláttinn. Að færa hann ekki upp samkvæmt verðlagi. Þetta þýðir að skattleysismörkin eru lækkuð að raungildi sem þýðir það svo aftur að tekjur launafólks eru skertar. Sama er að gerast með barnabæturnar og barnabótaaukann. Við erum að tala um upphæðir sem nema hundruðum milljóna. Við erum að tala um 800--1.000 millj. kr. Og hæstv. ráðherra staðfesti áðan að við ættum að bíða eftir því sem gerðist hjá svokallaðri jaðarskattanefnd. Af hverju á að bíða eftir því? Vegna þess að um þetta á að semja við launafólk. Það sem verið er að hafa af fólki núna á að semja um á næstu vikum. Þetta er fullkomið siðleysi. Ríkisstjórnin lofaði því þegar hún tók við völdum að lækka jaðarskatta. Síðan sagði hún: Við ætlum að bíða með málið. Við ætlum að semja um það. Og núna er verið að hafa þessa peninga af almenningi, af launafólki, til að geta samið um það eftir fáeinar vikur. Auðvitað sjá allir í gegnum þennan loddaraleik. Það er mjög mikilvægt að íslenskt launafólk láti ekki blekkjast í þessu efni.