Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 16:33:29 (2469)

1996-12-19 16:33:29# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[16:33]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er væntanlega komið að lokum þessarar umræðu sem búin er að standa nokkurn tíma og þar sem farið hefur verið yfir málin á venjulegan hátt þar sem spurt hefur verið spurninga og komið á framfæri pólitískum skilaboðum. Og það er alveg rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði fyrr í dag að þetta er pólitísk umræða. Þetta er ekki umræða sem snýst um bókhald, hún snýst um pólitík, snýst um stefnu. Spurningin er um hvernig peningarnir eru eða verða notaðir.

Ég ætla að víkja mjög lauslega að tveimur, þremur málum en síðan aðallega að einu atriði. Ég hefði viljað kanna hvort hæstv. ráðherrar heilbrigðismála og fjármála væru í húsinu þannig að ég gæti lagt fyrir þá spurningar.

(Forseti (GÁ): Forseti upplýsir að þeir eru í húsinu og hefur þegar gert ráðstafanir til að þeir komi í þingsal.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir viðbrögð hans. Ég vil fyrst aðeins víkja örfáum orðum að þeirri grein sem lýtur að menningarmálum og ég segi alveg eins og er að mér sýnist að sá sjóður um endurbætur á menningarbyggingum verði eiginlega ónýtur með þessu. Ég mundi vilja spyrja hæstv. menntmrh., af því hann er hér, hvernig hann sér fyrir sér að þessum sjóði um endurbætur menningarbygginga verði háttað á næstu árum. Það eru gríðarleg verkefni sem blasa við þeim sjóði. Það er í fyrsta lagi t.d. Þjóðskjalasafnið, Þjóðleikhúsið --- frekari endurbætur á því, og það eru fleiri stórar og dýrar byggingar sem kalla á miklar endurbætur. Já, og svo er það Þjóðminjasafnið. Ég hygg að um sé að ræða verkefni sem eru upp á gríðarlega háar fjárhæðir. Ég mundi giska á að þær væru á bilinu 1,5--2 milljarðar kr. Og það er greinilegt að ef þessi sjóður verður leikinn með þeim hætti áfram sem gert er í 1. gr. þá munu þessi verkefni taka allt of langan tíma. Og ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. menntmrh. hvernig hann hugsar sér að koma þessum málum fyrir miðað við það hvernig sjóðurinn er samkvæmt þessari tillögu.

Í öðru lagi mundi ég vilja spyrja hæstv. menntmrh. um fallskattinn. Það atriði hefur verið gagnrýnt bæði af mér og fleirum. Ég hef engu þar við að bæta í sjálfu sér en ég vil spyrja hann um tæknilegt atriði. Það er þetta: Er ætlunin að fallskatturinn verði færður hjá hverjum skóla fyrir sig? Með öðrum orðum: Bætir það tekjustöðu viðkomandi skóla ef margir nemendur falla eða ef margir nemendur þurfa að endurtaka próf? Það er mjög sérkennilegt kerfi ef það yrði til þess að styrkja stöðu skólanna ef margir nemendur þyrftu að endurtaka próf. Það er mjög öfugt í hlutina farið. Ég og við alþýðubandalagsmenn erum á móti þessum skatti. Við höfum lýst því yfir að við munum við fyrsta tækifæri sem við fáum einhverju ráðið í landinu beita okkur fyrir því að þessi skólagjöld verði strikuð út. En ég segi hins vegar að meðan þau eru lögð á, sérstaklega þessi endurtekningarprófaskattur sem virðist eiga að fara að leggja á núna, þá er auðvitað langrökréttast að þau fari í almennan sjóð en ekki í hvern skóla fyrir sig. Um þetta vil ég spyrja hæstv. menntmrh., líka í framhaldi af athugasemdum sem komu fram um þessi mál frá Ríkisendurskoðun fyrir nokkru, ég hygg í skýrslunni um ríkisreikninginn á árinu 1995 þar sem var ítarlega farið yfir þessi mál af Ríkisendurskoðun.

Í þriðja lagi ætla ég, hæstv. forseti, að víkja fáeinum orðum að kaflanum um heilbrigðismálin og segja þetta: Um það var talað í gærkvöldi í viðræðum hæstv. forsrh. og formanna þingflokkanna, að reynt yrði að ljúka við þau mál sem væru óhjákvæmilegur hluti af fjárlagaafgreiðslunni og auðvitað segir enginn neitt við því. Þó menn hafi eitthvað á móti þeim málum getur stjórnarandstaða lítið gert annað en að gagnrýna í þeim efnum. Hitt er annað að þegar verið er að setja inn ákvæði sem koma fjárlögunum ekkert við þá hlýtur maður að spyrja eins og hv. 15. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, gerði aftur og aftur í dag: Er ekki skynsamlegt að fella þessar greinar út? Fella þessar greinar út sem eru ekki beinn partur af fjárlögunum? Og ég vil spyrja hæstv. heilbrrh. hvað hún segir um að þessar greinar séu með einhverjum hætti látnar liggja. Því það er algjörlega út í hött að vera að breyta stjórnkerfi sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva í skjóli ráðstafana í ríkisfjármálum. Það er mikið heiðarlegra að leggja málið fyrir þessa virðulega stofnun í frv. Og gallinn við vinnubrögðin í sambandi við meðferð ríkisfjármálanna er sá að efh.- og viðskn. er að verða aðalfagnefnd þingsins. Það er hún sem fjallar meira og meira um heilbrigðismál. Það eru brtt. sem aldrei koma fyrir heilbr.- og trn. sem koma í gegnum efh.- og viðskn. Eins er það í menntamálum. Breytingartillaga t.d. við fallskattinn kom ekki fyrst fram í gegnum menntmrn. heldur í gegnum efh.- og viðskn. Það er verið að snúa við öllu því sem heitir fagleg umfjöllun í þinginu. Ég vil þess vegna gagnrýna þetta sérstaklega og spyrja hæstv. heilbrrh. hvort hún getur ekki hugsað sér að beita sér fyrir því að þau ákvæði a.m.k. sem breyta engu um ráðstöfun ríkisfjármála verði felld út til að greiða fyrir því að störfum þingsins ljúki seinni partinn á morgun eða annað kvöld með skikkanlegum hætti.

Loks vil ég, hæstv. forseti, víkja að máli sem ég hefði kannski viljað nefna við hæstv. fjmrh. sem kom hér fyrir skömmu og vildi gjarnan að væri ekki langt undan. Ég get út af fyrir sig hafið mál mitt meðan kallað er á ráðherrann, ef það er unnt. En þannig er að á síðasta þingi ... Ætli það sé ekki í lagi að ýta við hæstv. fjmrh. þó hann stoppaði ekki nema í fimm mínútur, ég ætla nú ekki að tala í langan tíma.

(Forseti (GÁ): Hæstv. ráðherra er genginn í salinn.)

Það er stórkostlegt. Hæstv. fjmrh. er boðinn alveg hjartanlega velkominn í salinn. Það er alveg óskaplega gaman að sjá hann í salnum. (Fjmrh.: Og hlustar.) Og sérstaklega þegar hann segist hlusta, maður veit nú ekki hvort það er rétt en hann skynjar það sjálfsagt þannig sjálfur.

Ég ætla að bera undir hæstv. ráðherra eitt atriði. Þannig er að á síðasta þingi var ákveðið í nafni faglegra vinnubragða í ríkisfjármálum að fella út sem mest af sjálfvirkni í útgjöldum, m.a. elli- og örorkulífeyri svo dæmi séu tekin, þ.e. í öllum bótum almannatrygginga. Mér skilst að það sé í raun svipað sem er að einhverju leyti að gerast í sambandi við skattana sem bersýnilega er verið að hækka ef ekki verður brugðist við sérstaklega eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á í dag. Um leið og þetta var ákveðið á síðasta þingi var sett inn, ef ég man rétt, í almannatryggingalögin ákvæði til bráðabirgða um að bætur almannatrygginga taki ekki verðlagsbreytingum framvegis svo sem var áður. En bætur almannatrygginga, elli- og örorkulífeyrir, breyttust áður sjálfvirkt með launum. Það var lengi miðað við taxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar alveg frá því að almannatryggingalögin voru sett í upphafi 1935--1936. Og eftir að taxtar Verkamannafélagsins Dagsbrúnar urðu margir var miðað við 8. taxta A. Það var mjög lengi þannig og hann var skrifaður inn í lögin. Það er alveg ótrúlegt, hann stóð í lögbókinni, 8. taxti A Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Þetta var í lögum um almannatryggingar sem voru sett, að ég hygg, í tíð Eggerts G. Þorsteinssonar sem þá var tryggingamálaráðherra. Á síðasta þingi var þessu hent út. Og nú er verið að tala um að þetta fólk, sem eru þeir tekjulægstu í þjóðfélaginu, geti í mesta lagi búist við eins og 2% í hækkun á bótum sínum hvað sem líði launabreytingum á næsta ári. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. og heilbrrh. hvernig þau skilja þessa hluti. Segjum að launahækkanir verði meiri og verði aðrar. Er þá ekki alveg skýrt að þetta fólk fái hækkanir eins og aðrir launamenn? Er það ekki alveg skýrt? Er það ekki algjörlega skýr stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar að litið verði þannig á að sá fjölmenni hópur launamanna hjá ríkinu, aldraðir og öryrkjar, fái a.m.k. sömu prósentuhækkun og gengur og gerist út úr næstu kjarasamningum hver svo sem hún verður?

Ég tel, hæstv. forseti, að þetta sé ákaflega mikilvægt atriði og mikilvægt að fá svar við því einmitt núna, nokkrum dögum fyrir jól, hvaða kjör verða búin þessu fólki í landinu á næsta ári og hver er vilji stjórnvalda í þeim efnum. Það hefur verið þannig, hæstv. forseti, á undanförnu árum að í nafni jafnvægis í ríkisfjármálum hafa menn aftur og aftur lent í að skera niður bætur almannatrygginga. Aftur og aftur á hverju einasta ári á undanförnum árum hefur gamalt fólk og öryrkjar fengið bréf frá Tryggingastofnun um að það væri verið að breyta reikningslegum forsendum heimilisuppbótar, sérstakrar heimilisuppbótar, tekjutryggingar eða hvað það nú er og hvað það heitir allt saman sem þetta blessaða fólk þarf að lifa af. Og ég hef stundum sagt, hæstv. forseti, að það þyrfti að setja ákvæði í stjórnarskrána um hversu oft á ári má breyta kjörum þessa fólks. Því það er enginn viðkvæmari fyrir því endalausa hringli með kjörin og bæturnar en einmitt gamalt fólk. Það þekkja t.d. þeir sem vinna hjá Tryggingastofnun ríkisins og það þekkja þeir sem þekkja gamalt fólk og vita hvað það er viðkvæmt fyrir breytingum af því tagi sem alltaf eru að koma á þessum endalausu eyðublöðum, bréfum og pappírum sem engin leið er að botna í, nema kannski fyrir hv. þm. Pétur Blöndal en engan annan í þessum sal. Það þarf að minnsta kosti tíu ára nám í tryggingastærðfræði til að komast í gegnum þessa bleðla sem stundum koma frá opinberum stofnunum um það hvernig á að skerða lífskjör þessa fólks. (ÖJ: Samt segist hann ekkert skilja.) Nú kemur það fyrir hann að skilja ekki neitt og þá tekur nú steininn úr.

[16:45]

Veruleikinn er sá, hæstv. forseti, að það er mikið umhugsunarefni fyrir okkur sem styðjum félagsleg sjónarmið, sem leggjum áherslu á að ríkið sinni tilteknum einstaklingum og tilteknum skyldum, hvernig á að setja reglur um hvernig á að verja þetta fólk fyrir endalausum inngripum ríkisins og breytingum á lífskjörum þess. Einhliða breytingum af því að þetta fólk hefur ekki samningsrétt eins og launamenn hafa yfirleitt. Þetta fólk er dæmt til að taka einhliða ákvörðunum stjórnvalda á hverjum tíma. Það eru ekki ákvarðanir, hæstv. forseti, sem eru bara teknar hér í þessum sal. Það eru ákvarðanir sem eru stundum teknar uppi í ráðuneyti með reglugerðum, oft algerlega óskiljanlegum reglugerðum, á grundvelli lagabreytinga sem smyglað er hér í gegnum alls konar bandorma og skröltorma sem verið er að afgreiða hér í skjóli náttmyrkurs í svartasta skammdeginu ár eftir ár. Það þyrfti, hæstv. forseti, að búa til varnarkerfi fyrir þetta gamla fólk vegna þess hvernig á þessum málum er haldið. Það hefur í rauninni verið illa á þessum málum haldið í seinni tíð vegna þess að menn hafa alltaf verið að skerða og skerða. Menn hafa aldrei mátt sjá neitt aumt án þess að skattleggja það eða skerða kjör þeirra á undanförnum árum af því að menn hafa ekki fundið neitt annað en einmitt þetta fólk.

Veruleikinn er hins vegar ekki sá í þessu efni, hæstv. forseti, að fjmrh. eða heilbrrh. eða öðrum ráðherrum sé í sjálfu sér sérstaklega uppsigað við þetta fólk. Það er langt frá því. Þau eru að nokkru leyti fangar pólitískrar umræðu sem þau hafa játað tiltekinn trúnað. En ég held að við þurfum að temja okkur að koma fram við þennan hóp einstaklinga með fullri virðingu og það tel ég að sé ekki gert með þessum endalausu skerðingarákvæðum sem renna í gegnum þingið og þjóðfélagið og hafa runnið í gegnum kontórana á undanförnum árum.

Af þessum ástæðum spyr ég, hæstv. forseti: Hvað verður gert með bætur almannatrygginga á næsta ári með hliðsjón af þeim launabreytingum sem verða?

Ég hef hér, hæstv. forseti, lagt fyrir ráðherrana þrjá fjórar spurningar og vænti þess að þeir svari þeim. Ég hef ekki hugsað mér að halda uppi löngu máli með hliðsjón af því hvernig aðstæður eru og vona að svörin verði einnig til að greiða fyrir umræðum og að þau verði skýr og ótvíræð.