Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 16:48:49 (2470)

1996-12-19 16:48:49# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[16:48]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. ræðumanns var gerð lagabreyting á síðasta þingi og viðmiðun í almannatryggingum var breytt úr því að vera viðmiðun við launataxta í almennari viðmiðun sem átti að taka tillit til kjara á vinnumarkaði og til stöðu þjóðarbúsins og eitthvað fleira í þeim dúr sem ég man ekki nákvæmlega. Þrátt fyrir að engar launabreytingar hafi enn orðið vegna kjarasamninga á þessu ári og þess vegna ekki ástæða til að hækka af þeim sökum var sú ákvörðun tekin þegar fjárlagafrv. var lagt fram að hækka bætur til þeirra sem fá bætur samkvæmt almannatryggingalöggjöfinni um 2% sem eru verðlagsuppbætur, svara til breytinga á verðlagi á milli ára. (Gripið fram í.) Milli þessa árs og næsta árs eins og það er áætlað. Það eru 2% eða 2,1% eða eitthvað þar um bil.

Þegar kjarasamningar liggja fyrir verður að sjálfsögðu að líta til þessa máls sérstaklega en það er ómögulegt að segja hvernig kjarasamningarnir verða. Á undanförnum árum hefur verið gengið þannig frá þeim að um eingreiðslur hefur verið að ræða til að ná fyrst og fremst til þeirra sem hafa lægstu launin og þess vegna hafa bótaþegar almannatryggingakerfisins fengið eingreiðslu tvisvar á ári. Nú er óljóst hver niðurstaða verður í komandi kjarasamningum og þess vegna er ekki hægt að svara spurningunni fyrr en þá hvað verður um breytingar á lífeyri þessa fólks. Þó vil ég taka fram að það er gert ráð fyrir því útgjaldamegin í fjárlagafrv. að um einhverjar breytingar verði að ræða af þeim sökum. En það er ekki hægt að svara hvernig viðmiðunin verður fyrr en við sjáum hvort um eingreiðslu verður að ræða eða hvort eingöngu verður um almennar taxtabreytingar að ræða í kjarasamningunum. Það eina sem ég get sagt er að það verður litið á þessi mál þegar almennir kjarasamningar hafa verið gerðir.