Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 16:52:32 (2472)

1996-12-19 16:52:32# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[16:52]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því miður get ég ekki svarað þessari spurningu beinlínis játandi eða neitandi. Það eina sem ég get sagt á þessari stundu er að þegar kjarasamningar hafa verið gerðir er efni til að endurskoða upphæð bótanna og taka þá tillit til m.a. útkomu úr þessum kjarasamningum. Ég get ekki hér og nú gefið loforð um að bæturnar hækki að jafnaði eins og almennt gerist í kjarasamningunum. Það kann líka að vera að við vildum beina hækkuninni, ef um hana verður að ræða, í sérstakan farveg, ekki láta allar bæturnar breytast eins. Í raun og veru er ekki hægt að svara spurningunni öðruvísi á þessari stundu. Það eina sem ég get sagt er að við erum við því búnir í fjárlagafrv., með því að leggja til hliðar ákveðna upphæð, að það verði um einhverjar launabreytingar að ræða sem hafi áhrif á bæturnar. Lengra er ekki hægt að komast einfaldlega vegna þess að við höfum ekki hugmynd um það á þessari stundu hvers konar launabreytingar verða.

Enn og aftur minni ég á að eingreiðslurnar. Þegar þær voru ákveðnar á sínum tíma, fyrst 1990 og síðan í tvennum samningum eftir það, höfðu þær kannski meiri fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð vegna bótaþeganna heldur en nokkurn tíma á vinnuveitendur á almennum vinnumarkaði vegna þess að allir bótaþegarnir voru með slíkar upphæðir í bótum að þeir fengu bætur en ekki nema örlítið brot af því fólki sem var á almenna vinnumarkaðnum. Þetta vildi ég að kæmi fram. Þannig er ljóst að um einhverja breytingu verður að ræða. Það er ekki hægt að svara neinu til um það hvernig þær verða fyrr en niðurstaða kjarasamninga liggur fyrir.