Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 16:54:35 (2473)

1996-12-19 16:54:35# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[16:54]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég skil vel að hæstv. fjmrh. sé varkár. Ég tel að það sé hans, við skulum segja, embættisskylda. En mér fannst svar hans tortryggilegt. Hann tók ekki af skarið í þessu efni eins og hann hefði þó getað gert. (Gripið fram í: Hann gerir það aldrei.) Jú, hæstv. fjmrh. á heiður skilinn fyrir að hann svarar yfirleitt skýrar heldur en flestir aðrir ráðherrar, bæði í jái og nei-i þegar þannig liggur á honum og aðstæður leyfa. En það sem ég á við er ósköp einfaldlega þetta: Setjum sem svo --- og nú geri ég ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi fullnýtt sinn andsvarsrétt, eða er það ekki? --- segjum að hækkunin á almenna launamarkaðnum yrði 5% yfir línuna. Setjum það sem dæmi. Mundi þá hæstv. fjmrh. telja eðlilegt að bætur almannatrygginga hækkuðu eins eða svipað? Ég geri mér grein fyrir að hann á ekki kost á að svara þessu núna í andsvari en það verður vafalaust kostur á því seinna í þessum umræðum.