Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 16:57:30 (2475)

1996-12-19 16:57:30# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[16:57]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin sem ég verð nú að segja að ég varð fyrir vissum vonbrigðum með. Ég sé engin rök fyrir því að það að breyta stjórnum heilsugæslustöðva í Reykjavík t.d. með þeim hætti sem gert er ráð fyrir spari neitt sérstaklega mikið. Af hverju leggur hún þá ekki til að sameina rekstur heilsugæslustöðva t.d. á Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi og að þær verði settar undir eina stjórn? Það yrði auðvitað mikill sparnaður. Mér finnst satt að segja að þessi svör séu út í hött. Ég verð að segja það alveg eins og er. Mér þykir leiðinlegt að ráðherrann skuli ekki vilja svara mér efnislega. Því t.d. hvers vegna verið er að breyta skipunartíma formanns í þessum lögum. Af hverju flytur ráðherrann bara ekki heiðarlegt frv. um að spara í heilbrigðiskerfinu? Ég spyr. Af hverju er alltaf verið að hengja þetta inn í einhver mál frá hæstv. fjmrh.? Af hverju kemur heilbrrh. ekki fram og segir: Þetta vil ég gera? Svoleiðis heilbrrh. langar mig til að sjá, hæstv. forseti.