Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 16:59:33 (2477)

1996-12-19 16:59:33# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[16:59]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður er ég ekki miklu nær en ætla að segja að lokum að mér finnst dálítið um að fagráðherrarnir flýi af hólmi sem slíkir og breyti sér í hálfgerða fjármálaráðherra í þessum bandormum. Mér fyndist betra ef þetta væri tekið á faglegum grundvelli vegna þess að ég held að það sé líklegra að það verði meiri árangur í sparnaði ef það er gert á forsendum viðkomandi greinar, þ.e. heilbrigðismála í þessu tilviki, en að það sé gert í einhverjum heildarpakka sem kemur frá ríkisstjórninni á hverjum tíma. Ég skil út af fyrir sig vel að hæstv. heilbrrh. kjósi að fara þessa leið sem ég sé að allir aðrir ráðherrar fara en ég held að við getum verið sammála um að þetta séu ekki heppilegustu vinnubrögðin til að ná árangri í sparnaði m.a. Ég bendi á að gagnrýni okkar, mín og hæstv. heilbrrh., á síðasta kjörtímabili snerist m.a. um það að ekki var unnið að langtímastefnumótun til sparnaðar í heilbrigðismálum. Leiðin til að spara er örugglega langtímastefnumótun og langtímafjárlög á forsendum þeirrar þekkingar sem er til í hverju ráðuneyti fyrir sig. Í þessu tilviki í heilbrrn. þar sem er mikill fjöldi af góðu starfsfólki.