Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:24:34 (2483)

1996-12-19 17:24:34# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:24]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ummæli hæstv. menntmrh. um orsakir þess að hann hefur kosið að skera niður Endurbótasjóðinn --- hann skýrir það með því að það sé til þess að draga úr þenslu á höfuðborgarsvæðinu --- sanni það sem ég hef lengi vitað en fáir aðrir hafa gert sér grein fyrir að hann er sennilega langbesti og e.t.v. eini húmoristinn í ríkisstjórn Íslands.

Hér hafa spunnist umræður, herra forseti, einmitt um þennan Endurbótasjóð og það hafa spunnist umræður líka um tiltölulega erfiða stöðu verðmætra handrita í Þjóðarbókhlöðunni. Ég saknaði þess að hæstv. ráðherra nefndi ekki þá tillögu sem ég varpaði fram í dag. Þess vegna ætla ég að reifa hana aftur í þessu stutta andsvari. Hún er um það hvort ekki sé rétt að nota þetta tækifæri hér til þess að breyta lögunum frá 1989 þannig að fjármagnið sem rennur til endurbóta menningarbygginga renni líka til þess að endurbæta menningararfleifðina. Mér finnst að það sé í sjálfu sér rökrétt að þessi tekjustofn verði ekki bara nýttur til þess að búa til hús í kringum arfleifðina heldur til þess að varðveita hana.

Það hefur komið fram að í fjárlögum er veitt 221 millj. kr. til rekstrar Þjóðarbókhlöðunnar og þar er hækkun um 27 millj. sem er lofsvert. Það er annars vegar 15 millj. kr. hækkun á rekstrarlið og hins vegar er 12 millj. kr. hækkun til ritakaupa. Þetta er mjög gott. En það liggur líka fyrir að dýrmæt handrit liggja þarna undir skemmdum. Það þarf að forverja þau. Hins vegar er til staðar í húsinu fullkomin vinnustofa en það vantar mannaflann til þess að sinna þessu þjóðþrifaverki. Ég spyr þess vegna hæstv. menntmrh.: Telur hann ekki koma til greina, þó ekki væri við þessa afgreiðslu málsins en e.t.v. einhvern tíma í framtíðinni, að velta því aðeins fyrir sér hvort ekki megi nýta eitthvað af þessu fjármagni til að verja handritin skemmdum sem tíminn kann að fella á þau?