Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:31:12 (2486)

1996-12-19 17:31:12# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:31]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það eru til óbrotgjarnari minnisvarðar eins og t.d. bækur um urriða sem menn geta reist sér. Og oft er það þannig með stjórnmálamenn að það eru frekar ritverk þeirra, ljóð eða skáldverk sem halda minningu þeirra á lofti heldur en það sem þeir segja hér í þingsölum eins og hv. þm. er ljóst. Við erum sammála um markmið í þessu, það er alveg ljóst. Við höfum hins vegar takmarkaða fjármuni. Og eins og ég sagði, þá eru sterk rök fyrir þeim tillögum sem gerðar eru með hliðsjón af almennu efnahagsástandi í landinu og þeirri þenslu sem menn óttast á þessum slóðum. Þessi rök eru skýr og klár og menn verða að taka mið af þeim einnig. Það var markmiðið með gerð fjárlaganna eins og við vitum að þau yrðu hallalaus og þetta er m.a. einn liðurinn í því, þótt vissulega hefði verið æskilegt að fá meira fé til þess að gera við menningarbyggingar reyndar. En við skulum sjá. Það eiga fleiri bækur eftir að koma út og menn eiga eftir að vinna fleiri verk hér og annars staðar og vonandi eigum við öll að lokum okkar minnisvarða.