Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 17:57:42 (2492)

1996-12-19 17:57:42# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[17:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að of mikil áhersla sé lögð á nauðsyn þess að veiða refi. Menn telja að það þurfi að gera til að uppræta dýrbít. Ég vek athygli á að verstu dæmin sem hafa komið upp um sauðadráp, sem talið var af völdum refa á síðustu árum, hafa þegar skyggnst hefur verið dýpra reynst vera af völdum hunda. Eigum við þá að fara að takmarka hundahald í dreifbýlinu? Ég held ekki, herra forseti.

Ég held líka að nákvæmar rannsóknir skorti á því hvert umfang þess tjóns er, sem talið er að refir valdi. Ég held að það sé mjög orðum aukið og það gildir ekki bara um Ísland heldur líka um nágrannalönd þar sem svipuð og skyld vandamál hafa verið uppi.

Ég komst að þeirri niðurstöðu á meðan ég sat í stóli umhvrh. á síðasta kjörtímabili að þetta mál snerist að verulegu leyti um að skapa atvinnu í fámennum sveitarfélögum. Og ég hef fullan skilning á nauðsyn þess. En ég er ekki sammála því að við höldum uppi refaveiðum sem einhverri sérstakri atvinnubótavinnu. Ég held að það vandamál eigi að leysa á annan hátt. Ég lýsi eftir svari. Liggja fyrir nákvæmar skýrslur um það tjón sem er af völdum refa?

Að því er varðar umræður um skýrsluhald þá vek ég athygli á að með þeim lögum sem samþykkt voru um veiðar á villtum dýrum liggur fyrir að enginn má skjóta refi fremur en önnur dýr án þess að hafa veiðikort og veiðikort fæst ekki endurnýjað nema gefin verði skýrsla um umfang veiðanna þannig að því leyti til á að vera ljóst að hið opinbera mun hafa gögn um magn veiða og veiðiátak alveg burt séð frá því hvort umhvrn. komi að kostnaði við veiðarnar eða ekki. Ég held líka að veiðikortin og það gjald sem menn þurfa að greiða fyrir sé tekjustofn sem upphaflega átti að fara til þess að stunda refarannsóknir og það var gerður reki að því a.m.k. undir lok síðasta kjörtímabils.