Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 18:10:54 (2498)

1996-12-19 18:10:54# 121. lþ. 51.5 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[18:10]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla þá að halda áfram þar sem ég lét staðar numið áðan. Ég tel að það sé með algjörum ólíkindum að hæstv. heilbrrh. ætli ekki að svara einni einustu spurningu þeirra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað, einir þrír eða fjórir í dag, og allir drepið niður í þeim kafla sem lýtur að heilbrigðisþættinum. Ég get ekki dregið aðra ályktun af því að hæstv. ráðherra var ekki í salnum og hafði ekki kvatt sér hljóðs þegar hæstv. forseti taldi að umræðunni væri að ljúka. Og ég get þess vegna ekki annað, herra forseti, en farið aftur yfir þessar spurningar sem ég hef varpað til hæstv. heilbrrh.

Ég spurði í fyrsta lagi: Hvað þýðir 15. greinin? Þar er greint frá því að þar sem aðstæður leyfa skuli heilsugæslustöð og sjúkrahús rekin sem ein stofnun undir einni stjórn. Það var gengið eftir því í heilbr.- og trn. hvað þetta þýddi. Við því fengust ekki óyggjandi svör. Hv. þm. Ingibjörg Sigmundsdóttir, sem sat í nefndinni þá um tíma í fjarveru hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, gekk sérstaklega eftir þessu vegna þess að hún taldi að í krafti þessara ósamþykktu breytinga væru í bígerð ákveðnar breytingar í hennar byggðarlagi og nálægum byggðarlögum sem hún bar vissan kvíðboga fyrir. Hún vildi þess vegna fá úr því skorið hvað þessi grein þýddi. Þess vegna var það að hennar ósk að spurt var sérstaklega um þetta og í nál. minni hluta heilbr.- og trn. er sérstaklega bent á að ekki sé ljóst hvað felist í þessu. Er fyrst og fremst og einungis átt við heilsugæslustöð og sjúkrahús sem eru í starfstengslum eða er gert ráð fyrir því að hægt sé reka saman fleiri en eina heilsugæslustöð í tengslum við sjúkrahús? Getur jafnvel farið svo að stjórn heilsugæslustöðvar verði tekin út úr byggðarlagi og flutt til nálægs byggðarlags en þó ótengds? Það er nauðsynlegt að fá úr þessu skorið vegna þess að þetta liggur ekki fyrir og þetta skiptir máli og það kemur líka fram í nefndaráliti meiri hlutans að ekki liggur fyrir klár skýring á því hvað í þessu felst. Það þarf að fá svar við þessu. Er átt við það að hægt sé að reka saman margar heilsugæslustöðvar og sjúkrahús undir einni stjórn jafnvel þó heilsugæslustöðvarnar séu í mismunandi byggðarlögum?

Ég spurði líka hæstv. heilbrrh. hvort hún væri sammála eða ósammála þeirri skoðun hæstv. fjmrh. að 20. gr. og a-liður 18. gr. kæmu ekki við ríkisfjármálunum. Ég staðhæfi að þetta sé skoðun hæstv. fjmrh. vegna þess að hann ber ábyrgð á fjmrn. og þar af leiðandi fjárlagaskrifstofunni en hjá henni kemur einfaldlega fram, herra forseti, að þessi ákvæði hafi óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Það er með öðrum orðum alveg ljóst að ekki þarf að samþykkja þessi ákvæði til þess að hæstv. ríkisstjórn nái markmiðum sínum um ríkisfjármálin. Þessi ákvæði varða það að skipunartími formanns stjórna sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva skuli takmarkaður við embættistíma ráðherrans sem skipar. Nú hefur það komið fram, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur þrisvar sinnum og hér með í fjórða skiptið að ég er efnislega sammála þessu. Ég tel hins vegar að þetta eigi ekkert skylt við ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ég er þeirrar skoðunar.

[18:15]

Í fyrra var þetta líka inni í bandormi sem þá var lagður fyrir og þá féllst stjórnarliðið á þessa skoðun okkar og dró það út. Hvað hefur breyst síðan þá? Þá lýstum við í stjórnarandstöðunni því yfir að við værum reiðubúnir til þess að fjalla um þetta með faglegum hætti í þinginu ef lagt yrði fram sérstakt stjfrv. Menn áttu auðvitað von á því. Það stjfrv. hefur ekki komið í heilbrigðismálum frekar en önnur þau mál sem hæstv. heilbrrh. hefur boðað mánuðum saman. Frumvörpin koma ekki þó hæstv. heilbrrh. sé með munninn fullan af góðum fyrirætlunum. Það er einfaldlega þannig að þau koma ekki. Ég spyr: Telur hæstv. ráðherra að þetta tengist fjármálum með einhverjum hætti?

Ég reifaði hér í dag að það væri einn ákveðinn möguleiki á því, sem sagt sá að einhvers staðar væri sjúkrahús eða heilsugæslustöðvar sem hefðu stjórnarformann sem stritaðist við að sitja og stritaðist við að vinna gegn vilja hæstv. ráðherra. Ég sagði jafnframt að það kynni vel að vera að það væri erfitt að ræða það í þingsölum og ég bauðst til þess, ef hún vildi frekar nota skjól trúnaðar heilbr.- og trn., að gera það innan nefndarinnar. Það er sjálfsagt að halda fund til þess. Ég bauð henni það. En ég tel að hæstv. ráðherra verði að skýra þá a.m.k. hvort svona liggur í málinu eða ekki og skýra fyrir okkur hvernig stendur á því að menn féllust á það að skipunartími formanns þessara stofnana tengdist ekki ríkisfjármálum í fyrra en hafa skipt um skoðun núna. Ég vildi gjarnan fá svör við þessu.

Ég spurði líka í fyllstu vinsemd hvort ekki væri mögulegt að ríkisstjórnin féllist á að íhuga að fresta gildistöku 19. gr. Þó að ekki komi fram í greinargerð sjálfs ráðuneytisins hvers vegna það er nauðsynlegt að samþykkja 19. gr., þá kemur það hins vegar skýrt fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. Það er talin nauðsynleg forsenda þess að það náist fram sparnaður sem nemur 160 millj. kr. á dreifbýlissjúkrahúsunum. Þessi sparnaður hefur aldrei verið skýrður fyrir heilbrn. og ekki skýrður fyrir nokkrum einasta manni vegna þess að enginn veit hvernig hann á að vera, vegna þess að það er ekki búið að vinna þessa vinnu. Það eitt er í sjálfu sér ámælisvert að það skuli lagt hér fram frv. án þess að búið sé að vinna þessa vinnu. Núna er komið að lokum haustþingsins og það er ekki enn búið að vinna vinnuna, enda er hæstv. ráðherra kominn á flótta frá málinu, sem er þakkarvert í sjálfu sér, og hefur lýst því yfir í fjölmiðlum en þó ekki í þinginu og allra síst gagnvart heilbr.- og trn. að það eigi að breyta þessu. Það á að dreifa þessum sparnaði á þrjú ár þannig að á næsta fjárlagaári á einungis að ná fram um 60 millj. kr. sparnaði. Það er enn ekki vitað hvernig eigi að gera það, en það liggur fyrir að nefnd sem vinnur að þessu á líklegast að skila af sér í mars. Þá hefði hún a.m.k. tímann fram í mars. Síðan tel ég afar líklegt að þær aðgerðir sem þarf að ráðast í, ef einhverjar verða, komi ekki til framkvæmda fyrr en á seinni helmingi ársins. Það þýðir, herra forseti, að við höfum allt þetta þing, vorþingið líka, til þess að vega og meta hvort þetta sé nauðsynlegt. Hérna nefnilega er hæstv. ráðherra að gefa sjálfum sér blankótékka til þess að breyta svo að segja öllu því sem hún vill um sameiningu sjúkastofnaana. Ég spurði í fyllstu vinsemd hvort ríkisstjórnin væri ekki reiðubúin til þess að íhuga það að breyta þessu ákvæði. Nú hefur hæstv. ráðherra knúið mig til að nota seinni ræðu mína til að ítreka spurningarnar vegna þess að hún sýndi þinginu ekki þann sóma að svara þeim spurningum sem til hennar var beint. En það þýðir einfaldlega að ég mun þurfa að ræða þetta mál afar ítarlega við 3. umr. Það er algerlega klárt þegar fyrir liggja úrslitin við þessu.

Þetta er einfaldlega spurning sem er sett fram af nokkurri þykkju en þó í fullri vinsemd enn þá. Í ljósi þess að aðstæður eru breyttar er þá ekki mögulegt að ríkisstjórnin fallist á, ekki endilega að hætta við málið, en að íhuga hvort ekki sé hægt að fresta því fram yfir áramót og það verði þá lagt fram almennilegt frv. með þessu? Það er einfaldlega þannig að það er mjög erfitt fyrir þingheim að fallast á það að ráðherra fái það mikla vald sem í þessu felst. Þarna er honum framselt vald til þess að ákveða sameiningu sjúkrastofnana sem eru reknar af ríkinu.

Ég vek eftirtekt af því að einn af þingmönnum stjórnarliðsins hefur efast um réttmæti þessa ákvæðis. Ég vek eftirtekt á því að sami þingmaður bar brigður á að það væri fullnægjandi upplýsingar að finna í minnisblaði frá ráðherra sem barst heilbr.- og trn. þar sem skýrt var út hvað væri átt við með hugtakinu sjúkrastofnanir sem eru reknar af ríkinu. Ég taldi það minnisblað fullnægjandi og er ekki að óska eftir frekari skýringu á því. En hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir gekk svo langt í morgun að lýsa því yfir að hún teldi að þetta gæti verið undanfari þess að stóru sjúkrahúsin í Reykjavík yrðu sameinuð án þess að það kæmi fyrir þingið. Ég tel það algerlega ómögulegt, enda hefur forsrh. lýst því yfir að það felist ekki í þessu. Eigi að síður liggur það fyrir að einn af fulltrúum ríkisstjórnarinnar í heilbr.- og trn. telur að þetta sé mögulegt. Þess vegna spyr ég: Er ekki mögulegt að fá þessu ákvæði frestað í ljósi þessarar breyttu stöðu?