Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 18:42:49 (2502)

1996-12-19 18:42:49# 121. lþ. 51.6 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv. 160/1996, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[18:42]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur umræðuna. Eins ætla ég að nefna þrjú efnisatriði sem eru á verksviði annarra ráðherra ef þeir vildu vera svo vinsamlegir að vera til staðar. Mér er kunnugt um að a.m.k. var hæstv. menntmrh. hér rétt áðan. Ég ætla lítillega að nefna málefni lánasjóðsins sem hér falla undir, sömuleiðis málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar heitins þannig að ef hæstv. samgrh. væri nærri, þá væri ekki úr lagi að hann yrði viðstaddur og að síðustu málefni sem varða iðnrn. og viðskrn., þ.e. áformaðar stóriðjuframkvæmdir og lántökuheimildir vegna þeirra. Þessi þrjú efnisatriði af mörgum ætla ég að nefna sérstaklega, herra forseti, og til hægðarauka læt ég forseta vita af því nú í byrjun ræðu minnar.

(Forseti (GÁS): Þannig að forseti hafi rétt eftir hv. þm., vildi hann fá menntmrh., samgrh. og viðskrh.?)

Rétt, auk hæstv. fjmrh. Þó að af ýmsu fleiru sé að taka, hæstv. forseti, ætla ég tímans vegna að láta nægja að staldra við þessi þrjú atriði, enda má segja að öllum tengist þeim stærri pólitísk álitamál.

(Forseti (GÁS): Ef forseti má trufla ræðu hv. þm. andartak, þá er það þannig að hæstv. viðskrh. er ekki í húsinu né heldur hæstv. samgrh. Er það ósk þingmannsins að þeir verði kallaðir hingað til fundar?)

Ég hefði gjarnan viljað það já, að þeim væri a.m.k. gerð grein fyrir því að þeirra nærveru væri óskað. Það verður svo að ráðast hvernig það stendur af sér. Ég tel nú til að mynda að hæstv. viðskrh., sem á hér undir stærstu töluna af öllum, ætti að reyna að greiða fyrir framgangi mála og hæstv. ráðherra almennt með því að vera tiltækir þegar þeirra mál koma á dagskrá. Við höfum orðið nauman tíma eins og kunnugt er, herra forseti, til að ljúka störfum fyrir jólaleyfi og hér eru stórmál á ferð þannig að ég mælist a.m.k. til þess að hæstv. viðskrh. mæti. Staðreyndin er sú að málefni flugstöðvarinnar heyra stjórnskipulega undir utanrrh. þó að það sé samgöngumál þannig að út af fyrir sig er það ekki síður hann en samgrh. sem ætti að koma þar til sögunnar þó að vísu sé hér verið að tala um þann þátt málsins að taka fjárveitingar af flugmálaáætlun og setja inn í þessa hít og þetta tengist því máli.

[18:45]

Herra forseti. Því er út af fyrir sig ekki á móti mælt að efnahagshorfur eru að ýmsu leyti um margt jákvæðar á yfirstandandi ári og hinu næsta. Þess sér t.d. stað í umtalsverðum tekjuauka ríkissjóðs á þessu ári sem ég ætla að koma lítillega að á grundvelli upplýsinga sem við í efh.- og viðskn. höfum fengið frá fjmrn. við yfirferð á tekjuhlið fjárlagafrv. en nú hefur farið fram endurskoðun á tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir næsta ár. Sömuleiðis endurmat á væntanlegri útkomu ríkissjóðs á þessu ári en þar eru á ferðinni umtalsverðar breytingar sem setja fjárlaga- og lánsfjárlagadæmið í þó nokkuð annað samhengi en það hefur verið áður.

En þrátt fyrir þetta, herra forseti, og þrátt fyrir góðærið, sem mikið er talað um, eru líka miklar skuggahliðar á ferðinni. Þetta sést t.d. hvað tilfinnanlegast í því að skuldaaukning heimilanna heldur áfram á þessu ári og talið er að heimilin muni auka skuldir sínar um nálægt 30 milljarða kr. Þetta er á öðru ári eftir kosningar þegar Framsfl. komst til valda sem hafði lofað því alveg sérstaklega í kosningabaráttunni að endurreisa fjárhag heimilanna. Heill kafli í kosningastefnuskrá Framsfl. um fólkið í fyrirrúmi var helgaður verkefninu að endurreisa fjárhag heimilanna. Ríkissjóður heldur sömuleiðis áfram að auka skuldir sínar þó nokkuð dragi úr skuldaaukningunni en það ánægjulega er að sveitarfélögin ná að snúa þróuninni við og þeim virðist vera að takast að komast fyrir hallarekstur ef meðaltalið er tekið og skuldir þeirra eru hættar að aukast jafnvel heldur á niðurleið.

Ýmislegt fleira mætti nefna, herra forseti, í þessu almenna samhengi sem hér hefur áhrif og þá vil ég sérstaklega nefna vextina. Minna á raunvaxtastigið sem nú geisar á Íslandi. Gífurlega háir raunvextir hljóta auðvitað að setja málin í alveg sérstakt samhengi og líka þetta sem ég nefndi, skuldastöðu heimilanna og fleiri aðila. Þá skiptir að sjálfsögðu raunvaxtastigið öllu fyrir möguleika heimilanna til að bera sínar skuldir. Það er ljóst að stór hluti af þeim skuldum eru lausaskuldir, skuldir sem eru næmar fyrir breytingum á vöxtum og hverra vextir fylgja upp tiltölulega fljótt þegar raunvaxtahækkun verður. Það er að mínu mati ekkert áhorfsmál þær andstæður sem við er að glíma í efnahagsstjórninni. Annars vegar viðleitni Seðlabankans til að slá á viðskiptahalla og verja gengi krónunnar fyrir þrýstingi með því að hleypa vöxtunum upp. Hins vegar skuldastaða heimilanna og áframhaldandi skuldaaukning. Þetta tvennt rekst á því það er auðvitað alveg ljóst að með vaxtahækkunum þarna er enn verið að íþyngja heimilunum að þessu leyti, skuldugari hluta þeirra.

Í heildina tekið, herra forseti, má segja að ekki fari mikið fyrir víðsýnni eða framsækinni efnahagsstjórnun eða samræmingu á henni. Það verður ekki séð að mjög góður taktur sé milli hæstv. ríkisstjórnar og Seðlabankans um þessar mundir. Ég hlýt að nefna að lokum sem undir þetta fellur, herra forseti, viðskiptahallann sem er mjög ískyggilegur og stefnir í eina 15 ef ekki 20 milljarða króna á næsta ári. Þar hafa orðið skörp og mjög hrikaleg umskipti og þau eru að sjálfsögðu ávísun á skuldasöfnun erlendis og gamalt ógæfufar sem við viljum mjög ógjarnan fara ofan í.

Herra forseti. Áður en ég kem að þeim þremur einstöku efnisatriðum sem ég ætla að gera sérstaklega að umtalsefni vil ég ræða aðeins um tekjuforsendurnar sem ríkisfjármálin hvíla á á þessu ári og hinu næsta og einnig um þá ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að frysta persónufrádrátt og þar með skattleysismörk á næsta ári og leggja upp í árið með þær stærðir, óbreyttar frá fyrra ári, sem eru auðvitað ein mestu tíðindin sem komið hafa fram nú við afgreiðslu þessara frv. eða mála undir lok vinnunnar á þingi.

Í tekjuhlið ríkissjóðs kemur ýmislegt athyglisvert í ljós, herra forseti, sem ástæða er til að hafa í huga þegar við erum að loka ríkisfjármála- og lánsfjárlagadæminu um áramótin. Þá er nauðsynlegt að staldra fyrst við breytingarnar sem orðið hafa á árinu 1996 og vekja ýmsar spurningar svo ekki sé meira sagt. Það er þannig, herra forseti, að tekjuskattur einstaklinga hefur haldið áfram að aukast umfram áætlun þannig að þar hafa orðið allmiklar breytingar jafnvel bara nú við endurskoðun í desember frá því sem talað var um í september. Fjárlögum var lokað þannig að tekjuskattur einstaklinga átti að gefa 17 milljarða og 250 milljónir. Í september sl. var þetta endurskoðað og talið að tekjuskatturinn mundi skila 20 milljörðum og 515 milljónum. Nú í desember hefur þetta enn verið endurskoðað og talan er komin upp í 21 milljarð og 305 milljónir. Ef þetta gengur eftir sem það væntanlega gerir í öllum aðalatriðum þar sem svo langt er liðið á árið og það nánast búið mun tekjuskattur einstaklinga skila ríkissjóði á árinu 1996 rúmum 4 milljörðum króna umfram það sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Það er talsverður búhnykkur svo ekki verði meira sagt. En það athyglisverða er að á sama tíma er tekjuskattur fyrirtækja lækkandi við hverja endurskoðun. Fjárlögin gerðu ráð fyrir 4.600 milljónum, septemberendurskoðunin 4.450 milljónum, desemberendurskoðunin aðeins 4.115 milljónum. Tekjufallið frá fjárlögunum eru tæpar 500 milljónir króna. Þannig að þetta er algjörlega sitt í hvora áttina. Á sama tíma og tekjuskattur einstaklinganna, sá skattur sem launamennirnir bera vex um rúma 4 milljarða þá lækkar tekjuskattur fyrirtækjanna í góðærinu í um tæplega hálfan milljarð. Og ég vænti þess, herra forseti, að fleirum en mér finnist þetta skrýtið, finnist þetta a.m.k. ekki sanngjarnt. Og þá er rétt að hafa í huga fréttir af uppgjöri fyrirtækja bæði ársreikningum fram eftir ári og fram yfir mitt ár og milliuppgjörum nú síðustu mánuðina þar sem tíundaður er ríkulegur gróði margra stöndugustu fyrirtækja landsins sem ættu auðvitað að vera að leggja í þann pott að greiða tekjuskatt af hagnaði sínum í ríkissjóð.

En það er fleira, herra forseti, sem vekur athygli og ég ætla aðeins að staldra við eitt. Það er sú staðreynd að virðisaukaskattur er að skila ríkissjóði verulega lægri tekjum, eða ég kalla það verulega lægri tekjum, en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins. Þannig var í fjárlögunum reiknað með að virðisaukaskattur gæfi 45 milljarða og 820 milljónir, í septemberendurskoðuninni var gert ráð fyrir að þetta mundi standast allvel, gæfi 46 milljarða, jafnvel ívíð meiri tekjur en í desember er þessi tala allt í einu komin niður í 45 milljarða og 500 milljónir. Og vöntunin, það sem virðisaukaskatturinn gefur þá minni tekjur en fjárlög gerðu ráð fyrir, er upp á 320 millj. kr. Og ég spyr, rétt eins og með tekjuskatt fyrirtækjanna: Hvernig má það vera í miðju góðærinu, í allri þenslunni, í allri veltuaukningunni í þjóðfélaginu að virðisaukaskatturinn sé að skila minni tekjum í ríkissjóð? Er það ekki nokkurt umhugsunarefni að skattbyrðin sé þá í þessum skilningi að flytjast yfir á launamenn í svona gífurlegum mæli að þeir borgi 4 milljarða í viðbót en bæði neysluskattarnir, virðisaukaskatturinn og tekjuskattar fyrirtækjanna lækki.

Nú má leita skýringa við þessu og að sjálfsögðu höfum við spurt eftir því í efh.- og viðskn. hverju það sæti að bæði fyrirtækin og virðisaukaskatturinn eru að gefa eftir og skila minni tekjum, öfugt við það sem mætti ætla. Skýringin gagnvart fyrirtækjunum er nú sisona, að það séu sveigjanlegar fyrningarreglur og það séu gamlir tapfrádrættir sem reynist þeim eina ferðina enn notadrjúgir þegar kemur að því að komast hjá því að gjalda keisaranum, þ.e. hæstv. fjmrh., sitt. Og einmitt þá eru menn að grípa til þess að gera þær reglur rýmri samanber brtt. meiri hlutans við tekjuskattsfrv. á dögunum.

Hvað virðisaukaskattinn snertir er helst gripið til þeirrar skýringar að þar komi til stórauknar fjárfestingar og þar með aukinn innskattur til frádráttar við virðisaukaskattsuppgjör fyrirtækjanna. Það kann vel að vera og ekki ætla ég að neita því að á ferðinni sé í talsverðum mæli. En ég set spurningarmerki við að það geti dugað til að núlla algjörlega út alla veltuaukninguna sem ætti að fara yfir virðisaukaskattinn miðað við veltuaukninguna í þjóðfélaginu. Ég hvet menn til að fara út á göturnar og taka leigubíl eða fara á veitingahús eða gera eitthvað annað því um líkt, spyrja bara hvaða þjónustuaðila sem er í þjóðfélaginu um það hvort það stemmi við þeirra tilfinningu fyrir veltunni, fyrir peningum í umferð, að þeir séu að dragast saman. Ég hygg að svarið yrði nei. Þannig að það er afar erfitt að útskýra hvernig það getur gerst að virðisaukaskatturinn skuli ekki gefa meiri tekjur. Og við hljótum að hafa áhyggjur af því. Við hljótum að spyrja okkur: Eru einhverjir hlutir að gerast sem eiga eftir að koma í bakið á okkur? Er kerfið farið að leka meira en það hefur gert? Fer aukningin fram hjá kerfinu? Er veltuaukningin í þessum skilningi neðan jarðar? Erum við að fara inn í eitthvert ítalskt ástand að hagkerfið sé að vaxa fyrst og fremst í neðanjarðargeiranum? Eru breytingarnar, heimskulegu breytingarnar sem gerðar voru á endurgreiðslum virðisaukaskatts vegna fjárfestinga í íbúðarhúsnæði, bygginga og endurbóta íbúðarhúsnæðis og eru að hluta til komnar til framkvæmda, að hluta til fram undan, farnar að hafa áhrif á það að virðisaukaskattsskil vegna þeirrar starfsemi eru komin undir yfirborðið? Og eru jafnvel fælingaráhrif þar á ferð þ.e. að menn séu hættir að skila reikningum vegna þess að þeir hafa heyrt að þetta standi til?

Herra forseti. Þessar umhugsunarverðu staðreyndir um endurmat á tekjuforsendum ríkissjóðs á þessu ári endurspeglast að sjálfsögðu í áætlunum eins og þær liggja núna fyrir fjárlagaárið 1997, sem við erum að ganga frá í fjárlögum og lánsfjárlögum. Þannig er reiknað með því eðlilega að tekjuskattur einstaklinga skili meiri tekjum á næsta ári en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir í haust. Að sjálfsögðu framreikna menn það inn í næsta ár og launamönnunum er af sínum tekjum ætlað að greiða hærri skatt en áður upp á tæpan milljarð króna --- 975 millj., 16.775 millj. í staðinn fyrir 15.800 millj. Og fyrirtækjunum er ætlað að greiða minna. Þau eiga í stað 4.835 millj. samkvæmt áætlun nú, að greiða 4.550 eða 285 millj. krónum minna. Þannig að ef við leggjum saman minni tekjuskattsskil fyrirtækjanna á þessum tveimur árum sem nú eru undir árinu sem er að líða og því næsta, þá eru fyrirtækin að borga næstum 800 millj. kr. minna. Og í samræmi við nýjustu upplýsingar um minni tekjur af virðisaukaskatti á næsta ári reikna sérfræðingar með því að 450 millj. kr. minni tekjur komi út úr virðisaukaskattinum á árinu 1997 en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.

Þetta þýðir, herra forseti, að heildartekjur ríkissjóðs vaxa samkvæmt þessari desemberendurskoðun um 640 millj. kr., verða 126 milljarðar rétt rúmlega. Það þýðir að menn hafa rúmlega slátrað, með hækkun í meðferð fjárlaga við 2. umr., þessum tekjuauka þannig að útkoma ríkissjóðs verður sem því nemur. Ég held, herra forseti, að það sé fullkomin ástæða til að spyrja sig ákveðinna spurninga í sambandi við þessar tölur og fróðlegt væri að heyra mat hæstv. fjmrh. á nýjustu endurskoðun á tekjuhliðinni, hvort hann telji, hæstv. ráðherra, að þetta muni ganga eftir sem nú er reiknað með og hvort hæstv. ráðherra sé að fullu og öllu sáttur við þær skýringar sem menn hafa verið að reyna að finna á þessum breytingum.

[19:00]

Herra forseti. Þá er ég kominn að hinu aðalatriðinu sem ég ætlaði að ræða við hæstv. forseta og það er sú ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar sem varð heyrum kunn nú á síðustu sólarhringum; að það eigi að loka fjárlaga- og skattlagningardæmunum fyrir árið 1997 þannig að upphæðir, persónufrádráttar, sjómannafrádráttar og bótaliða eins og barnabóta, barnabótaauka og vaxtabóta eigi að standa í stað í krónutölu milli ára. Það þýðir á mannamáli að þessir liðir eiga ekki að taka verðlagsuppfærslum nú um áramótin eins og þeir hafa undantekningarlaust gert, þó með mismunandi hætti, í gegnum tíðina. En ég hygg að það hafi aldrei áður nokkur fjmrh. gengið svo langt að ætla að loka fjárlagafrv. án þess að hreyfa þessar stærðir. Að láta þær rýrna að fullu og öllu um verðlagshækkanir þótt litlar séu sem betur fer samanborið við það sem var stundum áður. Þetta mál þarf líka, herra forseti, að skoða og setja í samhengi við það sem hefur verið að gerast í tekjustreyminu í þjóðfélaginu og ekki síst hinum aukna tekjuskatti einstaklinga sem aftur stafar af því að það hefur sem betur fer orðið ákveðin launaþróun sem mælist í meiri tekjum og meiri skatti af þeim.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að eins og nú er farið að uppfæra þessa þætti, þá er ég sérstaklega að tala um skattleysismörk eða persónufrádráttinn, þá vinnur það kerfi ákaflega markvisst með ríkissjóði við þær aðstæður að það er uppsveifla í þjóðfélaginu. Hæstv. fjmrn. býr sem sagt við það skínandi góða fyrirkomulag að persónufrádrátturinn er ákvarðaður við afgreiðslu tekjuskattsfrv., yfirleitt við áramót. Hann er festur þar í krónutölu og hann tekur kannski mið af einhverri tiltekinni spá um launaþróun eða launahækkanir ef hann á að fylgja þeim. Ef þær verða hins vegar meiri þá þyngist skattbyrðin af þeim sökum sjálfvirkt eftir því sem launaþróunin verður innan ársins. Þegar upp er staðið hefur hæstv. fjmrh. náð sér þar í viðbótarprik. Þetta kerfi hefur greinilega þjónað hæstv. fjmrh. ákaflega vel á yfirstandandi ári. Það á sinn þátt í því að tekjuskattur einstaklinga skilar miklu hærri fjárhæðum í ríkissjóð á árinu 1996 en reiknað var með, því persónuafslátturinn hefur staðið óbreyttur í krónutölu allt árið.

Herra forseti. Ég held að það sé fróðlegt fyrir menn að fá þær tölur sem ég hef nú fengið frá fjmrn. um það hvað þetta þýðir í krónum talið fyrir hvern og einn. Bara sú staðreynd að persónufrádrátturinn eða skattleysismörkin eiga ekki að breytast nú um áramótin, þótt ekki væri nema um þau skitnu 2% sem t.d. tryggingabæturnar eiga að gera. Persónuafslátturinn er nú á mánaði 24.544 kr. Miðað við tæplega 42% skatt og að teknu tilliti til skattfrelsis 4% iðgjalda í lífeyrissjóð, verða þá skattleysismörkin 60.960 kr. Ef þessar fjárhæðir hefðu hækkað, þótt ekki væri nema um þessi 2%, þá hefði persónuafslátturinn átt að fara í rúmlega 25.000 kr., úr þessum 24.500 kr., og skattleysismörkin í 62.000 kr. eða liðlega það. Ef þetta væri látið hækka í samræmi við áætlaða launaþróun á næsta ári sem er 3,5% samkvæmt forsendum fjárlagafrv. --- það væri auðvitað hið eðlilega ef menn ætluðu að núllstilla skattleysismörkin gagnvart líklegri launaþróun á næsta ári --- þá hefðu menn auðvitað átt að vera sjálfum sér samkvæmir og taka prósentuna sem er í forsendum fjárlagafrv. um launaþróun á næsta ári, 3,5%, og hækka persónuafsláttinn um það. Þá ætti hann að fara í 25.403 kr. og skattleysismörkin í nálægt 63.000 kr. Þá þegar er þetta farið að skipta fólk umtalsverðu máli. Liðlega 2.000 kr. kæmu í hverjum einasta mánuði í vasa launamannsins í stað þess að lenda í kassanum hjá hæstv. fjmrh. ef menn hækkuðu persónuafsláttinn eins og eðlilegt væri miðað við forsendur ríkisstjórnarinnar sjálfrar um áætlaða launaþróun á næsta ári. Ég fullyrði að það eru þúsundir og aftur þúsundir og tugir þúsunda skattgreiðenda í landinu sem munar mikið um þessar rúmlega 2.000 kr. á mánuði, sem munar mikið um þessa 25.000 kr. tekjuskerðingu á ári með þyngri sköttum ef skattbyrðin verður á þessum grundvelli allt næsta ár. Þá er það eftir sem þó er kannski alvarlegast að fram undan eru kjarasamningar. Fram undan eru væntingar um launahækkanir sem nema miklu hærri prósentum en hér er verið að tala um, að minnsta kosti hjá lægst launaða fólkinu. Það vita allir. Verkalýðshreyfingin er að gera sér vonir um að sækja umtalsverðar kjarabætur í samningum nú á næstu vikum. Við skulum þess vegna skoða hvernig dæmið gæti litið út ef launahækkanirnar yrðu ekki 2% og ekki 3,5% heldur t.d. 5% eða 10%. (Samgrh.: Eða fimm sinnum fimm prósent.) Eða fimm sinnum fimm prósent eins og hæstv. samgrh. vill hafa þær. Hann veit að láglaunafólkinu veitir ekkert af 25% kauphækkun. Þá verða tölurnar stærri, bæði skerðingin hjá einstaklingunum en líka tekjuaukinn hjá hæstv. fjmrh. Nú er það að vísu svo að hinir ágætu reiknimeistarar í fjmrn. aðallega hafa ekki treyst sér til á svo skömmum tíma að fara að umreikna dæmið miðað við mun meiri launahækkanir á næsta ári. Þá þarf að sjálfsögðu að taka inn í samhengi þess heildaráhrifin vegna þess að ríkið er náttúrlega líka launagreiðandi og missir út tekjur ef kaup opinberra starfsmanna hækkar. En það er engu að síður alveg ljóst að þarna er verið að búa til hroðalegan gaffal á verkalýðshreyfinguna í komandi kjarasamningum. Hæstv. fjmrh., ríkisstjórnin, hefur ákveðið að láta verkalýðshreyfinguna fara í samninga við vinnuveitendur við þær aðstæður að persónuafslátturinn er frystur. Það þýðir að skattbyrðin verður þeim mun meiri eftir því sem launin hækka um fleiri krónur. Þetta er óþverragaffall sem hæstv. fjmrh. ætlar að færa verkalýðshreyfingunni í jólagjöf. Að láta hana fara í kjaraviðræður við þessar aðstæður. Margt er fleira mjög sérkennilegt í þessu máli, herra forseti. Miðað við það sem fjmrn. gefur okkur upp, þá sparar þessi ákvörðun um að frysta persónuafsláttinn, sjómannafrádráttinn, barnabæturnar, barnabótaaukann og vaxtabæturnar, allt fast í krónum eins og gengið var frá því í desember í fyrra og miðað við 2% verðlagshækkun og 3,5% launahækkun þá sparar þetta ríkissjóði eitthvað um 800 millj. kr. En þá kemur að því sérkennilega, herra forseti, að það á ekki að telja þessar 800 millj. kr. fram. Það á að loka fjárlögunum, lánsfjárlögunum og stilla dæmið af með þessar 800 millj. kr. útiliggjandi. Það er skrýtin aðferð, herra forseti. Það er merkilegt bókhald. Það heitir á máli almennings að telja ekki fram tekjur sem menn eiga í vændum. Af hverju á þetta að vera svona? Jú, vegna þess segir ríkisstjórnin að hún reiknar með að peningarnir verði notaðir í annað á árinu. Eiga þeir þá ekki að fara yfir ríkisbókhaldið, hæstv. fjmrh.? Jú, ætli það eigi nú ekki að skrá þá þegar þar að kemur. En það er stofnað til teknanna og því er svo vísað til framtíðarinnar hvernig þeim verður ráðstafað. Enn einu sinni er jaðarskatturinn dreginn fram og sagt, jú, þarna eru menn að skapa sér svigrúm til að gera ráðstafanir gagnvart jaðarskattinum. Höfum við ekki heyrt þetta einhvern tímann áður, herra forseti? Það er eins og mig minni það. Það voru nefnilega gerðar skattalagabreytingar í fyrra þar sem t.d. hlutabréfafrádráttur var lækkaður og það átti að fella hann niður. Hann verður þrepaður niður nú á næstunni. Hvað átti að gera við peningana? Það átti að nota þá í þetta sama. Í að mæta jaðarskattaaðgerðum. Það bólar hins vegar ekkert á þeim. Þannig að ríkisstjórnin er búin að selja okkur tvisvar að hún sé að ná sér í tekjur, sé að safna í sarpinn til að eiga þar forða þegar kemur að því að gera eitthvað í óréttlætinu vegna jaðarskattanna. Hvernig er safnað í sarpinn? Það er safnað í sarpinn núna með því að lækka skattleysismörkin sem auðvitað bitnar mjög þungt á nákvæmlega sömu hópum og bera óréttlætið af jaðarsköttunum. Að vísu mest á lágtekjufólkinu, því það er næmast fyrir breytingum á skattleysismörkunum að sjálfsögðu, en auðvitað er það þannig engu að síður að lágtekjufólk og miðlungstekjufólk situr fast hlið við hlið í þessari gildru.

Herra forseti. Ég átel og gagnrýni mjög harðlega hvernig ríkisstjórnin er að loka þessum málum. Ég tel það líka lúalega framkomu að tilkynna þessa ákvörðun ekki fyrr en hér á allra síðustu klukkustundum sem verið er að vinna þessi mál í þinginu. Þetta stórbreytir þeim forsendum sem við t.d. í efh.- og viðskn. höfum verið að vinna með gagnvart heildardæminu á næsta ári. Þetta hefur mikil áhrif á dreifingu skattbyrði gagnvart þeim sem í hlut eiga, gagnvart lágtekjufólki, öldruðum og öðrum slíkum, sem eru mjög næmir fyrir breytingum á þessum mörkum. Þegar maður setur þetta svo í samhengi við það að hæstv. ríkisstjórn er á hina hliðina búin að ákveða að hækka lífeyrisbætur einungis um 2% á næsta ári og er búin að aftengja atvinnuleysisbætur og elli- og örorkulífeyri þeirri launaviðmiðun sem áður var í gildi, með þeim svardögum að vísu í fyrra að það yrði ekki notað til að skerða bæturnar sem það gerir svo að sjálfsögðu nú með því að hækka þær eingöngu um 2% í stað þess að þær hefðu átt að fylgja launaþróuninni miðað við fyrri forsendur og hækka um 3,5% ef menn hefðu ætlað að standa við orð sín, þá finnst mér ríkisstjórnin vera að ganga fram af ótrúlegri ósvífni gagnvart þessu hvoru tveggja. Á aðra hliðina er persónufrádrátturinn frystur, bótafjárhæðirnar frystar, þar með talið barnabætur og barnabótaauki. Ætli það sé nú ekki barnafólkið með tekjutengingarnar á herðunum sem lendir hvað verst í vítahring jaðarskattanna þannig að ekki er þetta aðgerð sérstaklega til að hjálpa þeim. Hinum megin eru elli- og örorkulífeyrir og atvinnuleysisbæturnar í raun skertar á sama hátt.

Herra forseti. Ég hef undir höndum tölur um það hvernig t.d. barnabæturnar og barnabótaaukinn skerðast af þessum sökum í krónum og aurum. Ég veit að það eru tölur sem ýmsa varðar um, en tímans vegna ætla ég að sleppa því að lesa þær upp þótt fróðlegt hefði verið. Það er alveg ljóst að þarna eru á ferðinni umtalsverðar fjárhæðir. Ef við tökum t.d. bætur með börnum einstæðra foreldra þar sem hæstu tölur eru á ferð þá eru bætur með börnum einstæðra foreldra umfram eitt 74.000 kr. nú en færu í 77.700 ef þær hækkuðu um 5%, 76.000 kr. ef þær fylgdu launaþróuninni og hækkuðu um 3,5% og 75.500 þó hækkunin væri aðeins þau 2% sem lífeyririnn er þó hækkaður um, jafnskammarlegt og það er.

Þetta, herra forseti, tel ég óhjákvæmilegt að gagnrýna og að það sé eðlilegt að hæstv. fjmrh. svari fyrir þessar ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar við þær umræður sem eftir eru um lánsfjárlög og fjárlög. Ég spái því að þetta muni mælast gríðarlega illa fyrir úti í þjóðfélaginu, að þetta muni þykja fáheyrð fólska gagnvart almenningi. Og ég held að hæstv. fjmrh. sé að reisa sér hér alveg einstaka níðstöng í sögunni, að verða fyrsti fjmrh. sem frystir persónuafslátt og lætur hann ekki taka neinum breytingum milli ára og skerðir hann eða þyngir skattbyrðina með þeim aðferðum. Og ég tel að þegar verkalýðshreyfingin áttar sig á því hvers konar níðingsgaffal hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin er að setja á hana með þessum hætti þá geti menn varla talið annað en að ríkisstjórnin kasti stríðshanskanum með því að ætla verkalýðshreyfingunni að fara inn í kjarasamninga á móti þessum gaffli. Það liggur nú þannig.

[19:15]

Auðvitað er það alveg morgunljóst að fyrirslátturinn um jaðarskattana er orðinn beinlínis grátlegur, í besta falli grátbroslegur, í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur ekkert gert í þeim málum í eitt og hálft ár. Hún þvælir þeim áfram í nefnd einhvers staðar út í bæ og ber fyrir sig aftur og aftur við fjárlagaafgreiðslu eftir fjárlagaafgreiðslu að ekkert sé hægt að gera í því máli af því að það sé nefnd að störfum. Nefnd að störfum, heyr á endemi! Það var tveggja tíma verk að útfæra tillögur um bráðabirgðaaðgerðir að minnsta kosti til að taka á því óréttlæti.

Herra forseti. Með vísan til aðstæðna í þinghaldinu á síðustu klukkustundunum þá hef ég ekki fleiri orð um þetta en ég hefði svo sannarlega getað hugsað mér að ræða nokkuð rækilegar yfir hausamótunum á hæstv. ráðherrum til að reyna að stuðla að því fyrir mitt leyti að reyna að koma þessu út í þjóðfélagið því ég er alveg viss um að hér er mikil sprengja í farangrinum.

Þá er ég kominn að þeim efnisþáttum sjálfs lánsfjárlagafrv. sem ég ætlaði að gera sérstaklega að umtalsefni. Ég nefni þar í fyrsta lagi Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það er að sjálfsögðu mál sem er alþekkt úr umræðunni hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur staðið þar að málum. Þar hafa stjórnarflokkarnir deilt. Þar hafa kosningaloforðin verið gjörsvikin og efndirnar eru þær að sögn að það eigi að láta lánasjóðinn hafa 100 millj. kr. sem hann átti ekki að fá ella upp í eitthvert samkomulag sem enginn veit um hvað er, nema hæstv. forsrh. segir: ,,Ja, það felur í sér einhvers konar samtímagreiðslur á námslánum og þær verða eitthvað skoðaðar þessar óskir námsmanna um lagfæringar.`` En þá bregður svo sérkennilega við að breytingartillaga gagnvart Lánasjóði íslenskra námsmanna í þessu máli er til lækkunar upp á 170 millj. kr. Við höfum satt best að segja litlar skýringar fengið á því hvernig þetta samkomulag rímar við þessa breytingu. Hér er talað um að vísu að tekjuáætlun sjóðsins hafi verið endurskoðuð og komi skár út, þ.e. bæði meiri endurgreiðslur og minni þörf. En það er óhjákvæmilegt við þessar aðstæður nú að kalla eftir hvar samkomulag stjórnarflokkanna um Lánasjóð íslenskra námsmanna sé. Hvernig er það? Hvers konar samtímagreiðslur er þar verið að tala um? Er ekki alveg ljóst að það er hreint málamyndasamkomulag, það er ekki neitt ef það á einungis að þýða 100 millj. kr. breytingu á útgjöldum lánasjóðsins eða fjárhagsstöðu hans. Ég held, herra forseti, að það liggi í hlutarins eðli að úr því að þar er ekki verið að tala um meira en slíkt, hreina smáaura, þá hlýtur þar að vera á ferðinni minni háttar breyting.

Í öðru lagi, herra forseti, flytur meiri hlutinn breytingartillögu um að lækka lántökuheimild til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar um 530 millj. kr. Það skýrist af því að það á að fresta framkvæmdum við flugstöðina sem áður höfðu verið fyrirhugaðar strax á næsta ári m.a. og sérstaklega í tengslum við svonefnt Schengen-samkomulag. Nú er að vísu blessunarlega svo að þetta Schengen-samkomulag sem hæstv. utanrrh. hefur tekið einstakt ástfóstur við --- hann telur það með sínum allra merkustu verkum að koma á þessari Schengen-aðild --- mun sem betur fer frestast. Það frestast um að minnsta kosti ár. Þarf þar af leiðandi ekki að ráðast í þessar framkvæmdir þess vegna á flugstöðinni. Ef hæstv. ráðherra vildi aðeins staldra við í þingsalnum af því að ég er að ræða alveg sérstakt óskabarn allra utanrrh. eins og kunnugt er, þ.e. Flugstöð Leifs sáluga Eiríkssonar í Keflavík. (Samgrh.: Blessuð sé minning hans.) Blessuð sé minning hans. Ég veit ekki hvers hann á að gjalda blessaður karlinn að þetta skuli hafa verið skírt í höfuðið á honum. Það verð ég nú að segja.

Það á sem sagt að hætta við þessar framkvæmdir. Eftir stendur hins vegar að skuldasúpan, óráðsían sem hefur fylgt þessu mannvirki frá byrjun, allt frá því að því var prangað inn á þjóðina af helmingaskiptastjórn Framsóknar og íhaldsins á árunum 1983--1987 og spreðað í það mörg hundruð millj. kr. til að ná að opna það fyrir kosningarnar 1987 svo hægt væri að taka framboðsmyndir af vissum mönnum framan við flugstöðina. En svo kom reikningurinn, óráðsíureikningur upp á marga milljarða kr. sem þetta mannvirki varð dýrara heldur en nokkurn tímann hefði þurft að vera. Þannig að nú er svo komið, herra forseti, að þarna rúlla menn á undan sér snjóbolta vegna flugstöðvarinnar sem er stækkandi á fimmta milljarði kr., þ.e. óráðsíboltinn vegna flugstöðvarinnar. (Samgrh.: Flugstöðin er allt of lítil.) Það er nú það versta, hæstv. samgrh., að ofan í kaupið sitja menn uppi með einhverja dýrustu flugstöð í heimi og hún er þegar orðin of lítil. Hún er meira að segja svo illa hönnuð að það er ekki nokkur leið að byggja við hana. Það var ekki hægt að koma þar við innanlandsflugi því hún er kassi sem ekki er nokkur leið að breyta að neinu viti, enda hönnuð að hluta til sem hernaðarmannvirki með niðurfallsbrunnum sem þola engisprettur og guð má vita hvað af því að hún varð að standast staðla bandaríska hersins ef hann skyldi þurfa að grípa til hennar á válegum tímum eins og kunnugt er. Það mætti segja margar ótrúlegar sögur af því hvernig hönnunarvitleysan og óráðsían var þegar verið var að byggja þetta mannvirki. En það versta er, herra forseti, að flugstöðin er orðin of lítil og það þarf að stækka hana hvort sem er vegna samgönguþarfa Íslendinga sjálfra. Ég verð að segja alveg eins og er þó ég hafi vissa samúð með þessu aðhaldssjónarmiði og þessari þensluhræðslu hæstv. ríkisstjórnar, þenslufóbíunni sem hefur rænt þá svefni í stórum stíl, þá tel ég út af fyrir sig alvarlegt að menn skuli ekki komast í að undirbúa að minnsta kosti þær framkvæmdir sem eru augljóslega fram undan og verður að grípa til hvað sem líður öllum Schengen-samningum hæstv. utanrrh. Það á að vísu að bæta eitthvað úr því neyðarástandi sem ríkir í innritunarsalnum á næsta ári en þar er eins og kunnugt er biðröð langt út úr dyrum alla morgna á sumrin þannig að það er eiginlega ekki nokkur lífsins leið að leggja á sig að fara með flugvél að morgunlagi í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar yfir sumartímann. En það þarf líka að stækka flugvélahlöðin og koma þar við afgreiðslumöguleikum fyrir fleiri flugvélar. En það sem verst er þó er að hæstv. ríkisstjórn kemst ekki lönd né strönd með skuldaóráðsíuna. Enn einu sinni er verið að afgreiða lánsfárlög með viðbótarlántöku eða skuldbreytingaheimildum sem að vísu lækkar úr 1.950 millj. niður í 1.400 og eitthvað vegna þessa niðurskurðar. Eftir stendur að ríkisstjórnin hefur ekki frekar en fyrri ríkisstjórn komist áfram með að klára þetta mál. Það verður fróðlegt að vita hvort hæstv. núv. utanrrh. ætlar að verða sami sleðinn og forveri hans og velta þessu máli á undan sér árum saman, ár eftir ár og hafa það í fullkominni óráðsíu. Hæstv. utanrrh., sem er hér afar sjaldan eins og kunnugt er, hefur örugglega hina mestu ánægju af því að koma í ræðustólinn á eftir og gera okkur grein fyrir stöðunni í þessu máli. (Utanrrh.: Stöðuna í?) Stöðuna í flugstöðvarmálinu, hæstv. utanrrh. (VS: Ég var að trufla hann. Ég biðst afsökunar.) Það er illa gert að trufla hæstv. utanrrh., alveg sérstaklega illa gert.

Ég hef þá tillögu fram að færa til hæstv. utanrrh. að hann afhendi hæstv. samgrh. mannvirkið og láti á það reyna hvort samgönguráðherrar séu yfirleitt ekki betur til þess fallnir að leysa svona hluti heldur en utanríkisráðherrar (Utanrrh.: Hernaðarmannvirki?) því að það hefur gengið afar illa að ... Þetta á náttúrlega að vera samgöngumannvirki, hæstv. utanrrh. og er auðvitað stjórnskipulegt hneyksli að þessi hluti samgöngukerfisins skuli heyra undir utanrrn. sem hefur ekkert vit á samgöngumálum nema þá bara eigin ferðalögum eins og kunnugt er. (Utanrrh.: Það er nú dálítið.) Já, það er að vísu þó nokkuð, það er rétt.

Í þriðja lagi, herra forseti, ætla ég að ræða sérstaklega málefni Landsvirkjunar og stóriðjuframkvæmdir og má þá hæstv. utanrrh. slappa af í bili. En ég fagna því að hér er kominn hæstv. iðn.- og viðskrh. Þar er á ferðinni langstærsti pakkinn í þessu og sá sem við í minni hlutanum gerum alvarlegastar athugasemdir við. Við erum ekki einir um það því í raun og veru getum við að miklu leyti látið nægja að taka undir varnaðarorð meiri hlutans hvað varðar stöðuna í þessu máli. Ég er þá að sjálfsögðu að vísa til fyrirhugaðra samninga við fyrirtækið Columbia Ventures Corporation um byggingu álbræðslu á Grundartanga og tilheyrandi fjárfestingar Landsvirkjunar og fleiri aðila. Það er nokkuð óvenjulegt hvernig vinnan hefur þróast að því máli á vettvangi hv. efh.- og viðskn. og hvernig samskipti um það mál hafa verið við ýmsa aðila.

Ég ætla af ýmsum ástæðum, bæði tímans vegna en líka til að hlífa mönnum við því sem þar eiga hlut að máli, ekki að fara alveg ofan í saumana á því máli en láta nægja að segja (Samgrh.: Það væri nú samt fróðlegt.) að mér finnst sérkennilegt, hæstv. samgrh., þegar ein þingnefnd er að reyna að vinna vinnuna sína, fara ofan í saumana á hlutum þar sem milljarða ríkisábyrgðir eiga í hlut og draga að sem víðast upplýsingar um það mál, skuli hún fá kveðjur af því tagi sem hún hefur fengið. Ég er m.a. að vísa til þess að efh.- og viðskn. reyndi víða að afla sér upplýsinga um þennan samstarfsaðila og samningsaðila okkar Íslendinga. Ég endurtek að ég tel það falla undir hennar verksvið að gera einmitt nákvæmlega það. Ég vona að það sem við höfum upplifað í þessu máli verði okkur frekar hvatning til þess að gera meira af því að ástunda sjálfstæðari vinnubrögð gagnvart mati á stórum og dýrum fjárfestingum eða ríkisábyrgðum sem verið er að veita. Það er full þörf á að þingið reyni að gerast sjálfstæðara í slíkum vinnubrögðum. Hvað er hér á ferðinni, herra forseti? Það er verið að bæta við lánsfjárlögin samkvæmt beiðni tæpum 5 milljörðum kr. út af þessu eina máli, 4.200 millj. kr. viðbótarlánsheimild til Landsvirkjunar sem ríkið ábyrgist, 500 millj. kr. lántökuheimild vegna fyrirhugaðra lóðarframkvæmda á Grundartanga og 200 millj. kr. lántökuheimild vegna fyrirhugaðra hafnarframkvæmda. Þetta er samkvæmt því sem við kunnum best að leggja saman 4.900 millj. kr. eða tæpir 5 milljarðar. Er þá eitthvað skrýtið þótt efh.- og viðskn. vilji skoða það mál og hafa traustar forsendur fyrir ákvarðanatöku um það mál? Svo er ekki enda hefur meiri hluti efh.- og viðskn. í sínu nefndaráliti í raun og veru skilyrt þessar lántökuheimildir. Það er alveg nauðsynlegt að það komi skýrt fram herra forseti, af því að hv. þm. Villhjálmur Egilsson eyddi tiltölulega litlum tíma í að fara yfir það mál, að í nefndaráliti meiri hluta efh.- og viðskn. eru lánsheimildir Landsvirkjunar og þessara tengdu aðila vegna lóðarframkvæmda og hafnarframkvæmda skilyrtar. Þær eru skilyrtar þannig að þær verði ekki nýttar fyrr en endanlegir samningar liggja fyrir, fyrr en allar upplýsingar liggja fyrir í efh.- og viðskn., fyrr en að fjármögnunarsamningar liggja fyrir milli fyrirtækisins og þeirra aðila sem það er að ræða við um þau mál og ekki fyrr en efh.- og viðskn. hefur tekið málið fyrir á nýjan leik. Þetta stendur í nefndaráliti meiri hlutans og undir það tekur minni hlutinn. Það liggur því fyrir að öll efh.- og viðskn. afgreiðir málið frá sér með þessum hætti. Þá er það í raun og veru eingöngu að formi til sem lánsheimildirnar koma nú inn í lögin, en þær verða ekki nýttar fyrr en þessum forsendum hefur verið fullnægt. Ég hefði út af fyrir sig talið að eðlilegra hefði verið að geyma málið í heild sinni og efh.- og viðskn. hefði flutt eða tekið við lánsfjáraukalagafrv. í febrúar, mars eða nær það verður sem þessar forsendur allar liggja fyrir.

Ég undirstrika það, herra forseti, að með okkar vinnu var ekki á ferðinni neitt annað en að afla sem traustastra upplýsinga í þessu máli og byggja ákvarðanatöku og meðmæli eða ráðgjöf til þingsins í nefndarálitum eða framsöguræðum á sem traustustum forsendum. Að halda einhverju öðru fram er ómaklegt með öllu. (Samgrh.: Hver sagði?) Og ég mótmæli því að það hafi verið í okkar huga að rýra álit væntanlegra viðsemjenda eða samstarfsaðila Íslendinga.

Ég neyðist, herra forseti, til að láta þessi orð falla hér og láta þau fara inn í þingtíðindin vegna fjölmiðlaumræðu um aðra hluti á undanförnum sólarhringum og læt svo lokið að ræða um það mál.

[19:30]

En hér er alveg ljóst, herra forseti, að miklir fjármunir eru á ferð og það er líka ljóst að það skiptir ákaflega miklu máli um þróun ríkisfjármálanna og lánsfjármálanna á næsta ári hvort af þessum fjárfestingum verður. Þá er ég að vitna til málsins í heild, virkjanaframkvæmdanna, stóriðjuframkvæmdanna, bæði fyrirhugaðs álvers og fyrirhugaðrar stækkunar Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Það er hins vegar ekki reiknað inn í tekjuforsendur fjárlaga og ekki reiknað inn í lánsfjárlagarammann, ekki frekar en 800 millj. sem eru ekki taldar fram af hæstv. fjmrh. og er hann nú fyrsti fjmrh. sem mér er kunnugt um sem opinberlega og frammi fyrir þjóðinni er ber að því að telja ekki fram nema hluta af tekjum sínum. En það á að geyma utan við fjárlögin og ríkisbókhaldið eitthvað fram á næsta ár, væntanlegan tekjuauka sem leiðir af því að frysta fastan persónufrádrátt eins og ég vék hér að áðan. (Gripið fram í.) Það væri fróðlegt ef menn vel að sér um þá hluti, t.d. menn sem sátu löngum í endurskoðunarnefnd ríkisreiknings eða yfirskoðunarnefnd eða hvað það nú hét, kíktu á það mál að menn skuli frammi fyrir alþjóð loka fjárlögunum án þess að láta hluta af tekjum sem leiðir af lögfestingu laga um áramótin koma fram. Það er afar sérkennilegt og ég vakti athygli á þessu hér áðan og hæstv. fjmrh. spýttist á dyr þegar ég fór að ræða þetta frekar við hann.

Það er ljóst að stóra dæmið hér, sem ekki er inni í tekjuforsendum, ekki inni í veltutölum, ekki inni í áætlunum um þá hluti sem hér er verið að afgreiða, er stóriðjumálin. Þau eru ekki reiknuð inn, þau eru ekki talin fram. Þau eru þarna fyrir utan. Eru menn þó að segja að allt bendi til þess að þetta verði. Það er kannski ástæða til að fara varlega eftir sem áður í því að telja slíkt fram. Ég er ekki að gagnrýna það í sjálfu sér sem niðurstöðu. Ég er fyrst og fremst að vekja athygli á því og ég geri það m.a. vegna þess að það er ekki ýkjagömul en mjög slæm reynsla af því að menn fagni sigrum of snemma, að menn haldi sigurhátíðir og fari að reikna sér til tekna gróðann af stóriðjuframkvæmdum. Þeir þekkja það m.a. vel í Reykjaneskjördæmmi, er það ekki, herra forseti? Það var heldur svona snautlegt að þurfa að horfast í augu við það að hin glæstu plön um mikil álver sem þar átti að rísa og menn töldu vera algerlega í hendi og menn slógu um sig með í kosningabaráttu og guð má vita hvað runnu út í sandinn sem og auðvitað að aldrei komu af þeim neinar tekjur. Þá er kannski betra að hafa geymt sér það að telja sér það til tekna heldur en gera það fyrir fram. Að því leyti til er ég ekki að gagnrýna í sjálfu sér að lánsfjárlögin og tekjugrein fjárlagafrv. tekur ekki mið af þeim breytingum sem gætu orðið og óumdeilanlega verða umtalsverðar ef álver rís, virkjanir fara á fulla ferð o.s.frv. En það mun hins vegar ekki gerast, herra forseti. Það verður ekki ýtt á ræsihnappinn, hvorki hjá Landsvirkjun né annars staðar fyrr en þeim forsendum sem efh.- og viðskn. hefur kosið að skilyrða þessar heimildir er fullnægt.