Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 20:30:41 (2503)

1996-12-19 20:30:41# 121. lþ. 51.6 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv. 160/1996, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[20:30]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þau sjónarmið sem við í stjórnarandstöðunni leggjum til grundvallar frv. til lánsfjárlaga sem er til umræðu hafa verið skýrð nokkuð í framsögu minni hluta. Ég mun því ekki fara mjög ítarlega yfir málið, enda hefur það verið í umræðu í tengslum við önnur frumvörp einnig á hinu háa Alþingi. Meginatriði málsins er það að þetta frv. endurspeglar stefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er nauðsynlegt fylgifrv. við efnahagsstefnu hennar og ber að skoðast í því samhengi. Við í stjórnarandstöðunni höfum lýst yfir andstöðu við þessa efnahagsstefnu.

Það sem okkur finnst athugavert við frv., þ.e. þær heimildir sem verið er að leita eftir, varðar nokkur atriði. Til að mynda er ekki tekið á vanda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eins og fyrirhugað var upphaflega þegar menn komu að því dæmi. Því var frestað hjá ríkisstjórninni og var það miður, en það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem það gerist að menn ná ekki tökum á því máli. Við gagnrýnum og finnst sérkennilegt að heimild sem áður var óskað eftir til Lánasjóðs ísl. námsmanna er færð niður um 170 millj., að sögn vegna endurreiknings. Okkur finnst ekki vera mikið samræmi í því vegna þess að við teljum að einmitt sú fjárveiting sem veitt var til lánasjóðsins á fjárlögum og með þeirri hækkun sem var ákveðin við 2. umr. sé síður en svo nægjanleg til að standa skil á þeim skuldbindingum og þeim æskilegu breytingum í þeim málaflokki sem við höfum talað fyrir á hinu háa Alþingi.

Eitt meginatriðið í lánsfjárfrv. er vitaskuld allt sem viðvíkur Landsvirkjun og fyrirhuguðum álversframkvæmdum. Áhyggjur ekki einungis minnihlutamanna í efh.- og viðskn. heldur einnig meiri hlutans hafa komið skýrt fram í umræðunni. Það var talin ástæða til að leita allra upplýsinga varðandi það efni, ekki einungis frá íslenskum aðilum. Það má e.t.v. segja að einmitt sú aðferð hafi markað óvissu málsins og vissan kvíða sem menn hafa varðandi það mál þó að nýjustu fréttir bendi til þess núna að allt horfi í rétta átt og hafi svo sem gert það. Þetta tekur sinn tíma. Hins vegar hefðum við í stjórnarandstöðunni kosið að ríkisstjórnin hefði ekki lagt fram lánsfjárlögin og breytingarnar við lánsfjárfrv. eins og hún gerði, þ.e. að taka inn Columbia-pakkann við þessa afgreiðslu. Við hefðum talið eðlilegt af því að menn vita ekki hvað af þessu verður, vonandi verður af þessum framkvæmdum að ríkisstjórnin eftir áramót, kannski í febrúar, mars apríl eða hvenær sem það hefði verið nauðsynlegt, hefði aflað sér heimilda á hinu háa Alþingi til að tryggja fjármögnun á þeim þáttum sem nauðsynlegir eru. Vitaskuld verða þessar heimildir ekki nýttar núna strax eftir áramót. Þær verða ekki nýttar fyrr en það liggur fyrir að samningar nást um þetta mál. Þetta hefðum við talið betri vinnubrögð og heppilegri með tilliti til stöðu málsins. Hins vegar er hægt að segja að það er líka nokkuð óheppilegt, úr því að þetta er komið fram í stjfrv. af hálfu ríkisstjórnarinnar, að draga það til baka til framlagningar síðar. Það má segja að úr því að það var lagt fram er ekki annað hægt en að láta heimildirnar ná fram að ganga. Við í minni hlutanum höfum sett ýmsa varnagla við framkvæmd þess máls og viljum fylgjast vel með því og erum að því leytinu til sammála meiri hluta efh.- og viðskn.

Það eru nokkur atriði sem tengjast þessu frv. sem við höfum gagnrýnt og ber að ræða í þessu samhengi. Við höfum bent á að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir einungis 2% hækkun úr almannatryggingakerfinu á næsta ári. Áður fyrr voru þessar hækkanir miðaðar við breytingar á launum. Við munum flytja við annað þingmál brtt. um að færa þetta í fyrra horf vegna þess að við teljum að hér sé ranglega að farið gagnvart þeim einstaklingum sem njóta bóta úr almannatryggingakerfinu. Það er ekki sá hópur sem breiðust hefur bökin í þjóðlífinu.

Sömuleiðis höfum við vakið athygli á, og tengist þessu frv. að hluta, þeirri sérkennilegu stöðu hvað tekjuskattur einstaklinga hefur aukist í þjóðfélaginu og langt umfram áætlanir vegna þess að í síðasta fjárlagafrv. var gert ráð fyrir 17 millj. í tekjuskatt einstaklinga. Niðurstaðan varð 21 og núna fyrir 2--3 dögum urðum við að endurmeta tekjuáætlunina fyrir næsta ár fyrir fjárlagafrv. og þar var gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga mundi hækka um 1 milljarð. Þetta gerist á sama tíma og tekjuskattur fyrirtækja minnkar og staðfestir það sem við höfum haldið fram frá því að þessi ríkisstjórn tók við, sem hefur verið lykilatriði í efnahagsstefnu hennar, að það eru einstaklingarnir sem eru látnir bera meira og meira af sköttum til ríkisins. Á sama tíma og skattar þeirra hækka hafa skattar á fyrirtæki lækkað. Þetta er ekki góð efnahagsstefna að okkar mati og þessi forgangsröðun kemur mjög skýrt fram í þessum tölum.

Síðasta snilldarverk ríkisstjórnarinnar var kynnt í efh.- og viðskn. í gær. Það er að hreyfa ekki til bætur í sambandi við tekju- og eignarskatt sem hefur verið breytt einu sinni á ári hin síðari ár, þ.e. barnabætur, barnabótaauki, vaxtabætur, sjómannaafsláttur og persónuafsláttur. Þetta er látið standa óbreytt til að safna upp í mögulegar skattalækkanir í kjölfar jaðarskattabreytingar eins og fjmrh. hefur boðað. Þetta teljum við vera aðferðafræði sem er satt best að segja til vansa, að menn skuli ætla sér að mæta við samningsgerð núna eftir áramót með 800 millj., sem eðlilegt hefði verið að létta af einstaklingum hér á landi, og ætla að leika jólasvein í janúar eða febrúar með gjöfum sem þetta sama fólk hefur greitt. Við teljum það vera mjög ámælisverða stefnumörkun sem kemur fram í þessari útfærslu hæstv. ríkisstjórnar. Vafalítið á þessi gagnrýni eftir að heyrast í umræðu um fleiri mál hvort sem er í kvöld eða á morgun.

Það fór mikið fyrir umræðu í sambandi við lánsfjárlögin um þensluáhrif vegna álversframkvæmdanna. Sérfræðingar boðuðu að það væri nauðsynlegt að skera mjög niður og tilgreint sérstaklega í samgöngumálum og í skólabyggingum. Það varð minna úr því af hálfu ríkisstjórnarinnar heldur en upprunalega var rætt um. Hins vegar er augljóst ef litið er í kringum sig í þessu umhverfi, og það er ekki úr vegi að minna einmitt á þegar verið er að ganga frá síðustu lögum tengdum efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, að rifja upp þær fréttir sem bárust frá mæðrastyrksnefnd þar sem beiðnir um aðstoð hafa aldrei verið meiri. Þetta segir okkur mikið um það umhverfi sem við búum núna í því að nú er hægt að segja að ríkisstjórnin sé komin yfir sinn reynslutíma. Hún hefur starfað í eitt og hálft ár. Ég fullyrði að fjölmargir einstaklingar í þessu þjóðfélagi hafa það betra en þeir höfðu fyrir einu og hálfu ári. Hins vegar fullyrði ég að í mjög mörgum tilfellum séu það einmitt þeir einstaklingar sem höfðu það ágætt áður en það eru fjölmargir einstaklingar í þjóðfélaginu sem minna mega sín sem hafa ekki haft það gott og ég tel að staða þeirra hafi versnað. Það er hægt að benda á fjölmargar tölur því til sanninda, til að mynda skuldaaukningu heimilanna. Í lok þessa ári verða skuldir heimilanna komnar upp í 350 milljarða og hafa aukist á þessu ári um marga milljarða. Það er þannig, herra forseti, að það góðæri sem stundum má lesa í hagtölum fyrir þetta ár og síðasta ár, góðæri hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, eins og það hefur oft verið nefnt, hefur komið sumum vel, e.t.v. þeim sem voru í ágætri stöðu fyrir. En þetta góðæri hæstv. ríkisstjórnar hefur farið fram hjá mjög mörgum einstaklingum í okkar þjóðfélagi.