Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 20:43:21 (2505)

1996-12-19 20:43:21# 121. lþ. 51.6 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv. 160/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[20:43]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var vægt sagt meiri þvælan sem hv. formaður efh.- og viðskn. var að fara með. Það er alveg augljóst að það sem verið er að gera núna er að láta standa óbreytt persónuafslátt, barnabætur, barnabótaauka, sjómannaafslátt og allar þær stærðir sem tengjast tekjuskattsálagningu. Þessar tölur eru venjulega hækkaðar um áramót vegna þess að það er verðbólga í landinu. Það er 2--3% verðbólga í landinu og menn eru að fá þó menn séu að greiða sama skatt í janúar og þeir gera núna, þá hafa orðið verðlagshækkanir. Það er þess vegna sem menn hafa breytt þessum stærðum ár eftir ár. Þess vegna m.a. er verið að hækka bæturnar úr almannatryggingakerfinu um 2%. Það eru að vísu bara 2%, það er undir þeim launahækkunum sem eru væntanlegar á næsta ári. Þetta veit hv. þm. mætavel. Hér er verið að lauma inn skattahækkunum. Við getum orðað það öðruvísi: Hér er verið að lauma í gegn skattabreytingum gagnvart einstaklingum. Þeir hefðu greitt aðeins minni skatt á næsta ári sem er fullkomlega eðlilegt vegna þess að það er verðbólga í þessu landi og menn hafa alltaf aðlagað þessar stærðir. Menn voru með þær sjálfvirkar á tímabili þannig að þær breyttust oftar en einu sinni á ári. Um þetta snýst málið og það hefur alveg legið ljóst fyrir og fjmrh. hefur sagt það. Þetta er tekjuöflunartæki fyrir jaðarskattanefnd. Það var líka tekjuöflunartæki fyrir jaðarskattanefnd og var í rökstuðningi ríkisstjórnarinnar þegar hlutabréfaafslátturinn átti að vera afnuminn um áramót. Þá var sagt í greinargerð með því frv.: Þetta á að gefa okkur svona 600 millj vegna þess að við þurfum að hafa pening fyrir jaðarskattanefndina. Það er alveg augljóst til hvers á að nota jaðarskattanefndina eftir áramót. Það er alveg augljóst. Það þarf ekki hv. þm. Vilhjálm Egilsson til að segja okkur það. Auðvitað verður það lykilatriði í kjarasamningunum við næstu áramót. Það á að láta launþegana greiða fyrir kjarasamningana með skattahækkunum sem eru lagðar á þá í desember.