Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 20:45:37 (2506)

1996-12-19 20:45:37# 121. lþ. 51.6 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv. 160/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[20:45]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara vekja athygli á því að hv. þm. fjallaði ekkert um það sem ég var að segja í mínu andsvari vegna þess að það sem hv. þm. talaði um var það sem kemur til með að gerast á næsta ári. En ég var að gera athugasemdir við það að hv. þm. ruglaði saman fyrir 1996 skattahækkunum og því að sami skatturinn hefði skilað hærri tekjum vegna þess að fólk hefur fengið meiri tekjur og þess vegna borgað meiri skatta. Það er algerlega tvennt ólíkt, hæstv. forseti.

Varðandi það sem hann segir um persónuafsláttinn er því til að svara að að sjálfsögðu er það skynsamlegt að ræða persónuafsláttinn og fjárhæðarmörk í samhengi við jaðarskattana og í samhengi við þá kjarasamninga sem munu koma til á næsta ári. Ég spyr: Væri einhver sérstök skynsemi í því að hækka persónuafsláttinn núna um 2%, til þess að nefna einhverja tölu, áður en menn vita hvernig kjaraþróunin er, fyrst það er svona mikið atriði að hækka persónuafsláttinn í tengslum við kjaraþróunina og þurfa svo að hækka hann kannski aftur eða vera búinn að eyðileggja fyrir sér ákveðna möguleika til þess að fjalla um ákvörðun á tekjuskatti þegar að kjarasamningum kemur? Ég verð að biðja hv. þm. að hugsa aðeins betur um það sem hann er að segja en koma ekki hér upp og vera í einhverju eilífðarfýlukasti út af þessu máli sem er alger óþarfi. Ég held að hv. þm. ætti einmitt að fagna því að tekjurnar eru að aukast í þjóðfélaginu, um 10% milli 1995 og 1996. Þetta skilar hærri tekjum í ríkissjóð og ástæðan fyrir þessu er m.a. sú að þær betrumbætur sem voru gerðar á skattalegu umhverfi fyrirtækjanna eru farnar að skila sér í hærri tekjum einstaklinganna, fyrirtækin geta greitt hærri laun og eru núna farin að fjárfesta.