Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 21:12:52 (2510)

1996-12-19 21:12:52# 121. lþ. 51.6 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv. 160/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[21:12]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig kannski litlu að svara. Ég held að hv. þm. hafi sagt hlutina þannig að það er tæplega ástæða til að svara því. En ég vil þó leiðrétta eitt.

Um svipað leyti í fyrra stóðum við hér í þinginu við að afgreiða fjárlög og skattafrv. Það voru engir kjarasamningar fram undan því að kjarasamningarnir voru gerðir til tveggja ára. Voru einhverjar breytingar gerðar á skattinum? Muna menn það? Jú, tekjuskatturinn var lækkaður um það sem nam 500 millj. kr. með því að taka niður jaðaráhrifin hjá barnafólki með nokkur börn. Það kostaði 500 millj. Var verið að gera það í tengslum við kjarasamninga? Það var ekki. Menn voru þar að taka fyrsta skrefið í þá átt að reyna að laga jaðaráhrifin. Ég vil segja það hér að mér finnst koma mjög sterklega til greina að menn hugsi það, og ég bið hv. þingmenn um að hugsa það, að við ættum kannski ekki í framtíðinni að leggja aðaláhersluna á að hækka persónuafsláttinn heldur fyrst og fremst að beina sjónum okkar að því fólki sem á kannski hvað erfiðast, fólki sem skuldar námslán, fólki sem skuldar vegna íbúðarbygginga eða íbúðarkaupa og fólki er með mikil útgjöld vegna þess að það er með börn. Það kann að vera betri nýting á fjármununum, sem eru dregnir frá skatti, að beina þeim til þessa fólks í stað þess að láta alla hafa litlar upphæðir, hvort sem þeir þurfa á því að halda eða ekki eins og persónuafslátturinn vissulega gerir.