Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 21:14:43 (2511)

1996-12-19 21:14:43# 121. lþ. 51.6 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv. 160/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[21:14]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að málið sé aðeins að skýrast. Það sem við erum að gagnrýna er það sem ríkisstjórnin er að gera núna. Hún hækkar ekki barnabæturnar, hún hækkar ekki barnabótaaukann eins og hún gerði í fyrra. Fjmrh. hefur lýst því af hverju hann gerir þetta ekki. Hann ætlar að nota þetta við kjarasamningagerðina núna eftir áramót. Bætur í almannatryggingakerfinu eru hækkaðar um 2% og ég veit að fjmrh. veit alveg af hverju það er. Það er vegna þess að það er nokkur verðbólga í landinu og hann vill ekki skerða hlut þessa fólks meira, jafnvel þó að launin hækkuðu um 3, 4 eða 5%. Fjmrh. gæti kannski svarað því. Ætlar hann þá að hækka bæturnar í almannatryggingakerfinu? Hann getur svarað því við þetta tækifæri eða síðar. Hann verður spurður að því.

Við erum fyrst og fremst að draga fram aðferðafræði ríkisstjórnarinnar við afgreiðslu fjárlaga því það hefði verið eðlilegt að hækka persónuafsláttinn og barnabæturnar og í samræmi við ríkisstjórnarstefnuna að hækka það um 2%. Taka síðan á í kjarasamningum, það skipti ekki máli. En þessi aðferðafræði --- að ætla að gera þetta með þessum hætti og selja síðan hækkun á barnabótum gagnvart fólkinu, sem hann var að vorkenna hér --- barnafólkinu, því það þyrfti fyrst og fremst að gera eitthvað fyrir það. Af hverju hækkaði hann þá ekki barnabæturnar núna? Af því hann vill ekki gera það. Hann vill hækka þær í janúar eða febrúar í tengslum við kjarasamningana þannig að hann sleppi aðeins billegar frá kjarasamningunum. Þetta er svo augljóst. Það sér hver einasti maður hvað fjmrh. er að gera í þessu efni og það er það sem við erum að gagnrýna, herra forseti.