Lánsfjárlög 1997

Fimmtudaginn 19. desember 1996, kl. 21:16:36 (2512)

1996-12-19 21:16:36# 121. lþ. 51.6 fundur 24. mál: #A lánsfjárlög 1997# frv. 160/1996, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[21:16]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég skal verða við þeim tilmælum forseta að halda ræðu, það er alveg sjálfsagt mál. (Gripið fram í: Stutta.) Stutta ræðu.

Í fyrsta lagi það sem hæstv. fjmrh. nefndi um tekjuskatt fyrirtækjanna. Það leyndi sér náttúrlega ekki hverjum hæstv. fjmrh. vorkennir. Hann færði það þeim sérstaklega til málsbóta að þau hefðu nú orðið að taka á sig þó nokkra hækkun frá því að fyrir nokkrum árum hefði tekjuskatturinn ekki verið nema 3 milljarðar. Og hvað með það? Ég hélt satt best að segja að menn væru yfirleitt að gera sér vonir um það að fyrirtækin kæmu nú, með batnandi afkomu, með vaxandi krafti inn í það að leggja til samneyslunnar. Vissulega hafa menn haft skilning á erfiðleikatímabili í atvinnulífinu fyrir og kringum 1990. Þess sá auðvitað verulega stað í skattalegum málum fyrirtækjanna og það er mikið uppsafnað tap sem rúmar frádráttarreglur leyfa þeim að nota inn í framtíðina. En menn voru að vonast til þess að þau væru smátt og smátt að komast út úr þeirri fortíð að það yrði höggvið á þennan gamla taphala og fyrirtækin, gróðafyrirtækin, færu að borga eðlilega skatta af hagnaði sínum. Það má minnast á það í þessu sambandi að búið er að lækka þá prósentu úr 45 niður í 33 á skömmum tíma. Það er ekki eins og verið sé að rífa allan hagnaðinn af á sama tíma og launamennirnir borgar 42% af næstum að segja hverri krónu sem þeir fá í umslagið, að slepptum þessum lága frádrætti. Þá eiga fyrirtækin ekki að taka nema 33 af sínum nettóhagnaði eftir að hafa nýtt alla frádráttarliði. En það kemur á daginn að mörg stöndugustu fyrirtæki landsins með hundruð millj. kr. hagnað ár eftir ár borga ekki krónu til samneyslunnar vegna þess að þau eiga alls konar töp á lager. Að vísu og sem betur fer eru nú dómstólarnir aðeins að setja því skorður þessa dagana eins og kunnugt er þar sem fræg tapkaup ónefndra fyrirtækja hafa nú verið dæmd ólögleg. (Fjmrh.: Hver samþykkti þau?) Já, við skulum nú ekkert fara út í það eða hverjir stóðu fyrir þeim --- hvað skyldu þeir kjósa sem stóðu fyrir þeim?

En ég segi aftur: Það er alvarlegt umhugsunarefni. Það hlýtur að vera fleirum en mér umhugsunarefni, herra forseti, að á sama tíma og tekjuskattar einstaklinga eru að aukast um 4 milljarða króna skuli skuli þeir lækka um hálfan milljarð á hagnaði fyrirtækjanna. Ég þarf ekkert að segja meira en þetta. Þetta er bara svona og menn geta reynt að fara hingað eins margar ferðir og þeir vilja og sannfæra fólkið í landinu um að allt sé bara í himnalagi og eins og það eigi að vera. Þetta þýðir og segir betur en flest annað hvernig þunginn af skattbyrðinni í landinu hefur verið að færast til undanfarin ár, yfir á herðar launamanna, yfir í launaskattana frá hagnaði fyrirtækjanna. Það er mergurinn málsins.

Í öðru lagi, herra forseti, í sambandi við tekjuaukann sem þarna er að skila sér. Hæstv. ráðherra og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson færa fram þá skýringu, sem vissulega er rétt, að þetta sé nú aldeilis fínt og til marks um það að launin séu að hækka. Og það er alveg rétt. Að sjálfsögðu endurspeglar þetta aukningu í veltu launasummunnar í þjóðfélaginu. Það er ljóst. En þá kemur líka fleira til. Kerfið er þannig að á tímum uppsveiflu í kaupgreiðslum í þjóðfélaginu hirðir ríkissjóður stærstan hlutann af því vegna þess að persónufrádrátturinn er festur um áramótin næstu á undan og þegar launin hækka síðan innan skattaársins þá dugar hann auðvitað minna og minna á móti launum. Skattbyrðin þyngist, það virkar þannig. Það er þetta sem ég var að reyna að ræða hér fyrir kvöldmat við hæstv. fjmrh. Eru ekki allar líkur á því að nákvæmlega það sama gerist líka á næsta ári og alveg sérstaklega vegna þess að hæstv. fjmrh. leggur a.m.k. upp í ferðina þannig að persónufrádrátturinn er frystur? Ég kem aðeins betur að því síðar vegna hinna hörðu orða sem hæstv. fjmrh. hafði í lokin um það og ásakanir sem hann taldi ranglega á sig bornar og enginn hafði nú uppi haft með þeim orðum sem hann notaði.

Þá vil ég aðeins nefna virðisaukaskattinn. Ég tek fyrst og fremst undir það sem hæstv. fjmrh. sagði þar og vil reyndar segja að ræða hans var ágæt á köflum. Það voru góðir sprettir í þessari ræðu þegar hann fór yfir ýmsa próblematík sem við er að glíma í skattamálunum. Það er alls ekki svo að ég sé honum að öllu leyti ósammála. Um ýmis skattatæknileg mál sem hæstv. fjmrh. fór hér yfir get ég tekið undir margt af því sem þar er við að glíma eða þar þarf að skoða t.d. þegar verið er að meta jaðaráhrifin og vænlegar leiðir í því sambandi. Ég þykist hafa reynt af mínu takmarkaða viti og tíma að grúska dálítið í því máli og tek undir að margt af því sem hæstv. ráðherra nefndi kemur vel til greina. Ég viðurkenni fúslega að það getur komið til greina einmitt sem lækning gagnvart þessu vandamáli, til að komast út úr vítahringnum sem við erum þarna föst í. Miðað við engin tekjuáhrif fyrir ríkissjóð þá erum við að tala um að færa skattbyrðina til, að dreifa henni öðruvísi. Ein leið sem auðvitað verður að skoða er að gera grundvallarbreytingar á uppbyggingu skattkerfisins t.d. þannig að við lækkum persónufrádráttinn samhliða lægra skattþrepi á lægri laun og hærra þrepi á hærri laun. Það er hægt að hugsa sér ýmsar slíkar aðgerðir en það er líka hægt að hugsa sér að fara fyrst og fremst í þetta tekjutengingarmegin og jafna þessu öðruvísi þannig. Það sem ég tel í sjálfu sér hvað alvarlegast, vegna þess sem gerst hefur í skattkerfinu undanfarin ár, er að skattalega hagræðið sem barnafólki t.d. átti að vera búið er sokkið í skattkerfinu. Það er horfið að miklu leyti. Þegar tekjur eru komnar upp fyrir viss mörk þá er nánast enginn skattalegur munur gerður t.d. á hjónum með fjögur börn annars vegar og hjónum með engin börn hins vegar. Vegna þess að það er sáralítið eftir af barnabótum, mest allt er þetta tekjutengdur barnabótaauki sem hverfur á tilteknu tekjubili. En það hlýtur að vera þannig að hugsunin hafi verið sú að það ætti að halda sér ákveðið skattalegt hagræði út í gegn gagnvart fjölskyldum sem eru með börn á framfæri annars vegar og þeim sem ekki eru með börn hins vegar burt séð frá því hvort menn hafa í sjálfu sér háar eða lágar tekjur. En ég tek undir að þetta þarf allt saman að skoða.

Varðandi virðisaukaskattinn þá er ég líka sammála því og fagna yfirlýsingu fjmrh. um að þar eigi að fara yfir málin vegna þess að ég er tortrygginn á þessar upplýsingar, þessar vísbendingar sem eru að berast, og að þarna geti verið eitthvað á ferðinni hvort sem það er nú að menn séu alltaf að læra betur og betur á kerfið. Sumir hafa þær kenningar að það þurfi að skipta um svona grundvallarkerfi að meðaltali á 10--20 ára fresti því það taki u.þ.b. þann tíma að læra á þau, þá séu þau orðin ónýt og þá verði að fara í kerfisbreytingu og snúa öllu við og þá taki það stundum nokkur ár hjá mönnum að læra bellibrögðin til þess að koma hlutunum fram hjá skatti. Þá erum við sjálfsagt að nálgast þann tíma með virðisaukaskattinn því hann var jú tekinn hér upp fyrir u.þ.b. 7--8 árum eða hvað það nú var. Alla vega var settur hér söluskattur á mat, eins og frægt er orðið, um áramótin 1987/1988. Auðvitað líka hægt að hugsa sér að það þurfi að fara yfir og laga ýmsa hluti í þessu. Við höfum náttúrlega fengið í andlitið Vatnsberamálið og annað af því tagi sem er svakalegt og sýndi okkur fram á hrikaleg göt sem voru í framkvæmdinni hjá okkur og í kerfinu, að menn gætu skilað inn endalausum innskattsnótum og fengið útborgaðar milljónir og milljónatugi út á gervirekstur sem enginn var til. Þarna var auðvitað um skelfileg göt að ræða sem þarf að fara yfir og annað af því tagi.

Síðan segi ég, herra forseti, að það er alveg ástæðulaust fyrir hæstv. fjmrh. að rjúka upp og tala um það einhver hafi borið hann þeim sökum að hann væri að stela einhverju. Það hefur enginn notað þau orð mér vitanlega í þessari umræðu annar en hæstv. fjmrh. sjálfur. Ekki bar ég það upp á hæstv. fjmrh. að hann væri að stela, aldeilis ekki. Ég bar ekki einu sinni upp á hann að hann væri að reyna að leyna. Ég sagði að vísu að það væri gagnrýni vert að þessar upplýsingar skyldu ekki koma fram fyrr, t.d. á meðan tekjuskattsfrv. voru hér til eðlilegrar umfjöllunar, að þessa óvenjulegu aðgerð ætti að viðhafa. Og hvað sem hæstv. fjmrh. segir og jafnvel þó hann fari aftur til 1988 eða þó hann fari aftur til 1930 þá er ég alveg viss um að hæstv. fjmrh. verður að lokum borinn ofurliði af sögunni og hún mun staðfesta að þetta er afar óvenjuleg aðgerð sem hér er að fara fram, sjaldgæf aðferð, svo ekki sé meira sagt. Að breyta ekki í einni einustu krónu þessum fjárhæðum sem svo lengi sem elstu menn muna hafa verið uppfærðar með einhverjum hætti um áramót. Stundum hafa menn tekið pólitískar ákvarðanir um skattkerfisbreytingar, það er alveg rétt, en þær hafa yfirleitt ekki falið það í sér að menn færðu ekki upp til verðlags helstu kennitölur, bótaliði og annað því um líkt. Þessi ótrúlega aðferð að ætla að halda tekjunum utan við ríkisbókhaldið er að mínu mati stórbrotin. Hæstv. fjmrh. segir að það sé sönnun þess að þeir ætli að skila þessu að þetta er ekki talið fram, að 800 milljónirnar eru ekki taldar fram. Það er þannig, herra forseti. Ég veit að hæstv. fjmrh. finnst neyðarlegt að þurfa að ræða málið eins og það er en þetta er svona. Þarna er búið að lögfesta stærðir í skattafrv. og í væntanlegu fjárlagafrv. sem þýða, að óbreyttum lögum, 800 millj. kr. meiri tekjur en færðar eru í fjárlagafrv. Ég veit auðvitað að t.d. hv. þm. Egill Jónsson á Seljavöllum hefði haft ánægju af því að hafa þessar 800 milljónir til að deila þeim út í þessari ágætu nefnd. En það þurfti ekki að gera. Það var hægt að leyfa þessu að fara yfir í ríkisbókhaldið án þess að nota það, án þess að ráðstafa því. Það var hægt að merkja það aðgerðum í skattamálum. Það var hægt að segja: 800 millj. kr. meiri tekjur með þessum aðferðum og síðan var hægt að segja: Fyrirhugaðar aðgerðir í jaðarskattsmálum mínus 800 milljónir. Þar með var þetta þó a.m.k. komið inn í bókhaldið og hæstv. fjmrh. hefði ekki þurft að sitja uppi með þau ósköp að telja þetta ekki einu sinni fram. Eðlilegast hefði verið að uppfæra þessa hluti t.d. barnabæturnar, því þetta eru ekki bara skattarnir, hér er líka verið að leggja af stað með t.d. barnabætur og barnabótaauka, lægri í krónum en hann ætti að vera miðað við verðlagsuppfærslu, og hafa hlutina þannig þegar menn kæmu hér inn með tillögur um breytingar í skattamálum sem fælu í sér aðgerðir gagnvart jaðarskattinum. Það er afar sérkennileg ráðstöfun að taka þessar 800 milljónir frá með þessum hætti og ég segi, herra forseti, er nema von að menn séu tortryggnir þegar ekkert hefur gengið gagnvart lagfæringum á jaðarsköttum og það er búið að boða aðgerðir áður sem ekkert hefur orðið úr. Það var fyrirhugað að taka frá tekjur fyrir ári síðan sem áttu að mæta ráðstöfunum af þessu tagi sem þá var lofað að yrði reynt að vinna hratt og markvisst og vel að. Síðan líður tíminn og nefndin mallar og mallar og ekkert gerist. Þannig að menn eru orðnir tortryggnir, hæstv. fjmrh., og það er eðlilegt og það er ekki nema von. En það hefur hins vegar enginn notað svo gróft orðafar nema ráðherrann sjálfur að þessum peningum eigi að stela. (Fjmrh.: Það var...) Já, já, auðvitað liggur málið þannig, hæstv. fjmrh. Það þýðir ekkert að horfa fram hjá því, þetta byrjar að tikka núna strax um áramótin. Það gerir það. Það er auðvelt að reikna það út að skattleysismörkin, sem eru undir 61 þús. kr. núna, hefðu átt að vera talsvert yfir 62 þús. kr. strax í janúar. Það fer því meira en þúsundkall úr launaumslagi hvers einasta manns sem borgar skatta miðað við það að þessar breytingar hefðu þó ekki orðið nema 2% strax í janúar. Og á að skila honum eða hvernig ætlar hæstv. ráðherra að fara að þessu? Hann fer alla vega ekki til sömu aðila sjálfkrafa. Og hann verður tekinn af í janúar. (Gripið fram í: Það er verið að hafa þetta af fólki.) Ég kalla það í raun og veru að hafa af með þessari breytingu.

[21:30]

Það getur vel verið, og vonandi stendur það, að síðan verði snemma á árinu gerðar ráðstafanir sem séu góðar og réttmætar gagnvart ýmsu óréttlæti sem er í skattkerfinu. En menn skulu þá muna að þetta er stærsta breytan af öllum, sem færir til mestu fjárhæðirnar í íslenska skattkerfinu, það er persónufrádrátturinn. Þegar ég var að útfæra tillögur fyrir þingflokk Alþb. fyrir einum þremur árum síðan, þá man ég ekki betur en hver einasti þúsundkall hafi fært til 600--700 millj. kr. Svo dýr er hver breyting á skattfrelsismörkunum vegna þess að allur þorrinn liggur þarna rétt við þessi mörk og það færir til gífurlegar fjárhæðir að hreyfa þau til þó ekki sé um nema þúsundkall eða 1% eða hvað það er. Það er þannig. Þess vegna eru tekjuáhrifin, bæði fyrir ríkissjóð og fyrir alla þessa tugi þúsunda skattgreiðenda gífurlega mikil. (Gripið fram í.) Er það svo að hæstv. fjmrh. ætli að hjóla í mig bókstaflega eða bara í umræðunum?

(Forseti: (ÓE): Hann var að tala við forseta.)

Já, ég þarf ekkert að passa bakið á mér, er það?

(Forseti: (ÓE): Nei, nei.)

Nei, nei, ég veit að forseti ver það. Þá er þetta í góðu lagi, herra forseti.

Um þetta getum við að sjálfsögðu rætt við betra tækifæri, ég og hæstv. fjmrh. og við öll. Mér sýnist nauðsynlegt að gera það í og með vegna þess að þessi umræða fór ekki fram þar sem eðlilegast hefði verið í málunum sem tengdust álagningu tekjuskatts á næsta ári. Af hverju var það? Það var vegna þess að hæstv. ríkisstjórn var ekki svo vinsamleg að skila okkur niðurstöðu sinni í þessu máli fyrr en þau frumvörp voru farin héðan. Við sátum uppi með það að fá endanlega afstöðu og tillögur um þetta á elleftu stundu eða klukkan að verða hálftólf eða hvaða orðalag sem við viljum nota í þeim efnum. En einu get ég lofað, herra forseti. Ég mun halda hæstv. fjmrh. við efnið og gera mitt til þess að þessar 800 millj. komi einhvers staðar í góðar þarfir fyrr en seinna.