1996-12-20 01:25:24# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[25:25]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. veit að það er margbúið að bjóða upp á að skerða lífeyrisréttindin og hækka laun. Það er margbúið að bjóta BHMR og BSRB upp á þetta. Við í þingnefndinni sendum þetta mál til umsagnar til gífurlegs fjölda hinna og þessara félaga opinberra starfsmanna. Og af svörum þessara félaga gæti ég ímyndað mér að þau hafi komið frá hátt í eitt þúsund manns. Það var ekki ein einasta rödd sem lagði til að það ætti að fara þá leið að skerða réttindin og hækka launin á móti sem hefur alltaf staðið til boða. Þess vegna nefndi ég þetta að berja réttindin niður með illu eða að hækka alla upp með góðu. Ég held hins vegar að þetta sé ekki rétt skilgreining, það séu til fleiri leiðir.

Annað er ég vildi gera að umtalsefni er spurningin um annars vegar breytilegt iðgjald og bundin réttindi eða breytileg réttindi og bundið iðgjald og þann mun sem hv. þm. gerði á þessu tvennu. Þarna er munurinn miklu meiri til skemmri tíma en til lengri tíma. Það sem skiptir fyrst og fremst máli eru þær væntingar sem menn horfa á þegar menn greiða í lífeyrissjóð og hvað menn fá svo út úr honum í lokin. Við höfum séð t.d. á hinum almenna vinnumarkaði að menn hafa verið að skerða þar réttindi. En menn hafa líka verið að auka iðgjald, greiða í lífeyrissjóði af öllum launum þegar menn hafa talið sig sjá fram á það að iðgjaldið væri of lágt fyrir þau réttindi sem menn vildu fá. Það er alltaf þetta samhengi, bæði á hinum almenna vinnumarkaði og hjá opinberum starfsmönnum, um hvor leiðin er farin. Við munum sjá það í framtíðinni að menn eru alltaf að stilla af þessar væntingar miðað við það sem verið er að borga inn í sjóðina á hverjum tíma.