1996-12-20 01:35:48# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[25:35]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. lýsti ágætlega efnahagsstefnu núv. ríkisstjórnar. Í þessum orðum hans koma fram áhyggjur af þessum auknu álögum sem atvinnulífið yrði fyrir ef það þyrfti að borga hærri lífeyrissjóðsiðgjöld eða tryggingagjald. Því stefna hv. þm. og ríkisstjórnarinnar er að slá skjaldborg um lág laun á Íslandi. Það er þannig sem þeir ætla að mæta samkeppni á heimsmarkaði og þeir verja öllum sínum ráðum og öllum sínum styrkleika til að halda við þessari skjaldborg. Í þessu er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar fólgin. Við erum ekki samkeppnishæfir á erlendum mörkuðum nema með því að vinna hér yfir 30% lengri vinnudag en aðrir. Það er þannig sem við getum náð árangri á heimsmarkaði. Okkar launatengdu gjöld eru miklu lægri en erlendis. Vandamál okkar liggur ekki í þessu. Vandamál okkar liggur í íslenskum fyrirtækjum, fákeppnisfyrirtækjum mjög mörgum og lakri stjórnun mjög víða. Hlutirnir hafa batnað sums staðar en þeir eru enn mjög slakir. Þetta byggist á menntun, þetta byggist á rannsóknum. Það eru mjög margir þættir sem móta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. En íslensk fyrirtæki sjá aldrei neitt að hjá sjálfum sér. Það eina sem Vinnuveitendasambandið, fulltrúi fákeppnisaðilanna, hefur gert undanfarin 3--4 missiri er að reyna að sjá til þess að þessari skjaldborg um lágu launin sé viðhaldið. Við viljum ekki þessa efnahagsstefnu. En hv. þm. talaði frá hjartanu og ég veit að þetta er sannfæring hans, en hann var líka að lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar.