1996-12-20 01:38:28# 121. lþ. 52.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv. 141/1996, EOK
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[25:38]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það frv. sem við höfum verið að ræða hér í nótt er án efa flóknasta, erfiðasta og um leið örlagaríkasta frv. sem hér hefur verið meðhöndlað síðan ég tók sæti á Alþingi. Frá því að þetta mál kom fyrst til umræðu er það á vitund bæði flokkssystkina minna svo og samstarfsmanna í efh.- og viðskn. að ég hef haft um það miklar efasemdir, mjög miklar. Og í nál. sem ég skrifa undir með fyrirvara kemur fram að fyrirvarinn er fólginn í því að ég styð tillögur hv. þm. Péturs H. Blöndals og tel þær reyndar algjöra forsendu fyrir því að það sé hægt að greiða þessu frv. atkvæði. Ég skal koma nánar að því á eftir.

Það hefur verið farið yfir þetta mál hér í nótt á ákaflega skýran hátt, sagður allur aðdragandi að því og sagt frá vinnu efh.- og viðskn. Og það er rétt að byrja á því að skýra frá því að við töldum það skyldu okkar að ganga frá því eins gaumgæfilega og við gætum, að skoða það og sannreyna hvort nokkur ný skuldbinding lægi í þessu frv. miðað við það sem ríkisstarfsmenn höfðu áður. Niðurstaða þeirrar athugunar var sú að svo væri ekki. Að vísu eru þarna vafaatriði sem ekki er svo sem hægt að fullyrða um, en niðurstaða okkar var í stórum dráttum sú, eftir þær breytingar sem nefndin leggur til, að svo væri ekki. Það er mjög nauðsynlegt að hafa þetta í huga þegar við ræðum um þetta mál.

Það hefur líka verið bent á það í þessari umræðu að með þessu frv. væri ríkisstjórnin að koma fram með ákveðna stefnumótun í lífeyrismálum almennt. Ég er nú ekki alveg sammála því að það þurfi að vera stefnumótun í lífeyrismálum almennt, en það er alveg ljóst að með frv. er ríkisstjórnin að koma með stefnumótun í lífeyrismálum opinberra starfsmanna í þá veru að áunnin umsamin réttindi skuli haldast og nýir starfsmenn eigi kost á því að fá sams konar réttindi jafnbær, að vísu í öðrum sjóði þar sem þetta er borgað af öllum launum. Ég þykist líka vita það af 1. umr. hér um þetta mál og svo af starfi okkar í efh.- og viðskn. að þetta sjónarmið á mjög mikinn hljómgrunn hjá Alþingi. Það virðist vera nokkuð þverpólitískur vilji fyrir því að láta þetta ganga svona fram. Ég hef hins vegar um það allar efasemdir, ekki vegna þess að ég sé með neinu móti að halda því fram að það eigi að skerða áunnin réttindi, því heldur enginn maður fram, alls ekki, heldur vegna þess að ég efast um að við stöndum undir því til langframa að vera með eins ríkuleg og mikil lífeyrisréttindi og raun ber vitni. Ég efast stórlega um það. Það er mín skoðun, herra forseti, að hið mikla fylgi við að gera þetta svona, sem sannarlega er á Alþingi, sé vegna þess að menn, alþm. og þjóðin í heild, eru ekki enn þá búnir að horfast í augu við það hvílíkar óskaplegar skuldbindingar þetta eru. Og ég trúi því að það verði ekki fyrr en við færum þetta inn í fjárlögin, og gerum ráð fyrir því við gerð þeirra á hverju ári að við verðum að standa bæði skil á samtímagreiðslunum, svo og að fást við það mál að lækka skuldbindingar sem við erum búin að safna saman í 40--50 ár, að augu manna muni ljúkast upp fyrir því að þetta kerfi er einfaldlega of dýrt og of þungt fyrir þjóðfélagið.

Mig langar til þess að koma hérna aðeins að máli sem hefur verið heilmikið rætt en það eru fyrirvarar þeirra félaga, hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar og Ágústar Einarssonar. Og eins og hv. þm. Jón Baldvin orðaði það hér í ræðu sinni, að með því að gera þessi réttindi opinberra starfsmanna sýnileg væri það algjörlega siðferðislega óhjákvæmilegt, minnir mig að hann hafi orðað þetta, að aðrir sem ynnu hjá ríkinu og hefðu ekki notið þessara ríkulegu lífeyrisréttinda yrðu að fá þetta. Þeir yrðu að fá þetta og það væri algjörlega siðferðislega óhjákvæmilegt. Nú er þetta dálítið athyglisvert því á þessu megum við sjá hvenær vor samviska sefur. Mér sýnist það vera alveg skýrt að það er svona: ef við vitum um misréttið en það sést ekki, þá sefur vor samviska, en ef misréttið sést, þá vaknar hún. Það gerist svona.

[25:45]

Það má enginn, herra forseti, líta á orð mín þannig að ég sé á nokkurn hátt að gera lítið úr þessu sjónarmiði. Þetta er bara svona. Og ég trúi því að mjög margir, fleiri en þeir félagar, líti þannig á. Við höfum líka séð það í efh.- og viðskn. af umræðum okkar við viðmælendur okkar úr verkalýðshreyfingunni að þeir segjast ætla að líta svona á. Þeirra samviska svaf líka þó að þeir vissu þetta allt því að þetta eru engin tíðindi. Allir sem hafa verið að fást við vinnumarkaðsmál hafa vitað þetta. Þeir vissu það alveg eins og við höfum allir vitað þetta. Samviska forustu verkalýðshreyfingarinnar gat sofið þó að hún vissi það meðan það sást ekki. Það er þannig.

Nú kann það að vera að þetta sjónarmið sé gegnumgangandi og mjög almennt og þá komum við að þessu. Vegna réttlætisins, vegna þess að það er óumflýjanlegt siðferðislega, vegna réttlætisins, ættum við, eða a.m.k. meiri hlutinn, að segja sem svo: Nú færum við þessi ríkulegu réttindi yfir til fleiri aðila. Um það bil 20% af vinnumarkaðinum, sem sagt ríkisstarfsmennirnir, hafa um mjög langan aldur haft miklu betri lífeyriskjör en aðrir. Þetta hafa allir vitað. 80% hafa haft mun lakari. Við það að gera þetta sýnilegt, þá telja menn sig tilneydda að láta hin miklu lífeyrisréttindi fara yfir að mér skilst allan vinnumarkaðinn í nafni réttlætisins, var það ekki? Jú, það var í nafni réttlætisins.

Horfum nú aðeins á vinnumarkaðinn. Ég er ekki alveg ókunnugur honum og ég veit að þó að það sé ætíð og alltaf þegar menn ræða um laun sín og afkomu að menn tala í nafni sanngirni og réttlætis, þá er það þó þannig að það er viðmiðunin, það er viðmiðunarfræðin sem er hreyfiafl kröfugerðar í öllum samfélögum. Ég tek mjög alvarlega þau ummæli sem forusta Alþýðusambandsins hefur viðhaft við okkur í efh.- og viðskn. Ég tek það mjög alvarlega.

Ég veit líka að krafan um sama lífeyrisrétt er ekki eina krafan. Hún hefur komið fram mjög skýrt hjá öllum sem um þetta hafa rætt við okkur. Í dag er það knýjandi fyrir verkalýðshreyfinguna að sækja þar að auki mjög aukinn kaupmátt í nafni réttlætisins líka, munið það. Í nafni réttlætisins. Hvar stöndum við þá? Ekki ósvipað því sem við höfum oft staðið áður á Íslandi. Í nafni réttlætisins teljum við að það verði að hækka verulega kaupgreiðslur allra, munið eftir, krafan er um það. (Gripið fram í: Næstum því.) Allra. Og enn þá einu sinni minni ég á að á árunum frá 1970 til ársins 1990 hækkuðu laun á Íslandi meira en í nokkru öðru ríki Vestur-Evrópu. (Gripið fram í: Hverjir mest?) Heildarlaunasumman á Íslandi, við erum bara að tala um heildina hérna, við skulum ekki vera að gera neitt grín að þessu, þetta er ekki til að spaugast um. (Gripið fram í: Þetta er full alvara.) Heildarlaunin hækkuðu mest á Íslandi en kaupmátturinn minnst. Hvernig mátti þetta vera? Vita ekki allir enn hverjir það voru sem töpuðu mestu þegar verðbólgubálið brann hér hvað heitast? Eru menn búnir að gleyma því? Eru menn búnir að gleyma því að þeir sem töpuðu mest á verðbólgubálinu var fátækt fólk? Fátækt fólk tapaði mestu. (Gripið fram í: Og því hefur fjölgað.) Fátækt fólk tapaði mestu. Ég spyr því núna: Hvað er það í veruleika dagsins í dag sem er öðruvísi en fyrir 10 árum, fyrir 15 árum? Ég spyr: Hvað er það? Jú, það er ýmislegt annað. Við erum með opnara samfélag, til allrar hamingju. Nú er ekki hægt að falsa gengi eins og var hægt áður. Peningarnir taka til fótanna, gengið bara hleypur og fer. Við erum með miklu frjálsari viðskipti þannig að öll efnahagsóráðsía og della er miklu fljótari að ganga yfir.

En ég spyr: Hvernig má það vera og hver trúir því að upp úr slíku báli verði ekki nákvæmlega sama niðurstaða, að það verði fátækt fólk sem tapar? Fátækt fólk. Munum við svo aftur í hvers nafni við ætluðum að gera þetta allt? Jú, í nafni réttlætisins. Ég spyr þá aftur: Getur það ekki verið, herra forseti, að þrátt fyrir allt sé betra að segja: Ég er ósanngjarn, ég er óréttlátur heldur en að segja: Ég er réttlátur. Ég er sanngjarn og þess vegna ætla ég að steypa efnahagslífinu í voða. (Gripið fram í: Hver er að segja það?) Ég er að tala hér og ég hef verið að rekja hvað það mundi kosta þetta samfélag ef við ætluðum að fara þá leið í dag að auka verulega kaupmátt á sama tíma og við ætluðum að auka greiðslur í lífeyrissjóði yfir heilu línuna um 5,5%. Ég er að halda því fram að samfélagið muni koksa á því dæmi. Ég er að halda því fram. Þess vegna hef ég í efh.- og viðskn. verið að halda því fram að það væri mjög nauðsynlegt að vera óréttlátur, vera ósanngjarnt og tryggja það með 3. gr. að það færu ekki aðrir inn í A-deildina en voru þar áður í lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna. Ég hef verið að benda á það æ ofan í æ að það væri lífsnauðsynlegt að vera ósanngjarn, vera óréttlátur.

Ég veit að það er rétt sem menn hafa sagt hér í kvöld. Það að gera réttindin sýnileg mun valda miklum óróa. Ég tek ummæli aðila vinnumarkaðarins, Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og fleiri, sem til okkar hafa komið, mjög alvarlega. Ég held þess vegna, og kem þá aftur að fyrirvara mínum áðan, að eina leiðin til þess að fá Alþingi og þjóðina til að skipta um skoðun á því að við eigum að halda uppi svona ríkulegum lífeyrissjóðum sé það að Alþingi standi frammi fyrir því á hverju ári að það þurfi að greiða alla þessa óskaplegu peninga. Það er einmitt um það sem tillaga Péturs Blöndals fjallar og því ætla ég að styðja hana.

Ég geri mér alveg grein fyrir því miðað við viðbrögð samfélagsins að þau geti orðið svo hörð að það borgi sig að segja hér og nú: Nei, það er betur heima setið en af stað farið með þetta frv. Við höfum verið að segja að við ætluðum að gera þetta sýnilegt. En ef viðbrögð okkar allra eru á þann veg að okkur ofbýður svo að sjá þetta, við gefumst upp á að horfast í augu við mismuninn og ætlum þess vegna að hrópa: Nei, við getum þetta ekki, það verða bara allir að fá þetta, þá er það vegna þess að við treystum okkur ekki til þess að horfast í augu við þennan mismun sem við létum þó eiga sig meðan við bara vissum um hann en meðan við vorum ekki að horfa á hann. Þess vegna gæti borgað sig að stoppa núna, hætta við þetta, setjast niður aftur og reyna að finna aðra sátt í staðinn fyrir að horfa upp á það að kannski muni vinnumarkaðurinn í janúar/febrúar verða eitt logandi haf. Ég geri mér alveg fullkomlega grein fyrir því að það gæti verið réttara.

Það er þess vegna, herra forseti, sem ég hef haft svona óskaplega miklar efasemdir um þetta mál. Ég hef ætlað mér að styðja það ef brtt. Péturs Blöndals ná fram að ganga, að öðrum kosti ekki.