1996-12-20 02:37:36# 121. lþ. 52.11 fundur 225. mál: #A eignarhald afurðastöðva í mjólkuriðnaði# þál., Flm. GL
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:37]

Flm. (Guðmundur Lárusson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um eignarhald afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hlutast til um að skorið verði úr um eignarhald afurðastöðva í mjólkuriðnaði.``

Í greinargerð segir:

,,Á undanförnum árum hefur krafa neytenda verið sú að hagræða beri í auknum mæli í mjólkuriðnaði þannig að kostnaður á vinnslu- og heildsölustigi verði hliðstæður því sem gerist í nálægum löndum. Nokkuð hefur áunnist í þeim efnum og hefur mjólkurvinnslu m.a. verið hætt á ýmsum svæðum. En betur má ef duga skal. Það hamlar t.d. frekari hagræðingu að í mörgum mjólkursamlögum er engan veginn ljóst hver hefur eignarhald á viðkomandi afurðastöð. Þetta á við um þau samlög sem eru talin í eigu samvinnufélaga í blönduðum rekstri þar sem fleiri aðilar en bændur standa fyrir rekstrinum. Brýna nauðsyn ber til að fá úr því skorið hvaða aðili fer með eignarhald afurðastöðva í mjólkuriðnaði þannig að vafi um eignarhaldið standi ekki í vegi fyrir nauðsynlegri hagræðingu. Því er tillaga þessi flutt.``