1996-12-20 02:39:11# 121. lþ. 52.5 fundur 251. mál: #A sérákvæði í nokkrum lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heilsugæslulæknar, prófessorar o.fl.) frv. 150/1996, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:39]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á sérákvæðum í nokkrum lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Þetta frv. er flutt af meiri hluta efh.- og viðskn. Í því felst að tekin eru nokkur atriði úr stjfrv. sama efnis sem var lagt fram hér fyrir skömmu en nær ekki afgreiðslu í heild fyrir jólahlé.

Þetta frv. er flutt í trausti þess að það nái afgreiðslu. Ég vonast til að um það geti orðið gott samkomulag. Þau atriði sem í því eru eru um mál sem þarf að afgreiða fyrir jól og leiðir af öðrum atriðum sem hafa verið að breytast á síðustu mánuðum. Ákvæði þessa frv. þurfa helst að taka gildi um áramót.

Ég mun nú gera grein fyrir þeim helstu atriðum sem í frv. eru.

Í I. kafla frv. er fjallað um breyting á lögum nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, með síðari breytingum. Þar er gert ráð fyrir að Þingvallanefnd ráði framkvæmdastjóra og hann ráði annað starfslið.

Í II. kafla er lagt til að 7. gr. laganna orðast svo:

Þingvallaprestakalli skv. 1. gr. gegnir prestur er ráðherra skipar til fimm ára í senn að fengnum tillögum biskups og Þingvallanefndar.

Þessar breytingar eru nauðsynlegar vegna þess að um þessi mál er verið að fjalla þessa dagana og nauðsynlegt að ljóst sé hvernig þeim skuli háttað.

Í III. kafla frv. er fjallað um breyingu laganna á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, með síðari breytingu. Þar er í 3. gr. verið að breyta tilvísunum. Í a-lið er fyrst og fremst er verið að taka inn í 1. tölul. aðra starfsmanna ríkisins sem heyra undir lög um Kjaradóm og kjaranefnd. Ástæðan er sú að með því að heilsugæslulæknar og prófessorar fara nú undir kjaranefnd þá eru komnir fleiri undir þann hóp heldur en embættismenn og þess vegna er nauðsynlegt að taka þarna á.

Í 5. gr. frv. er kveðið á um hlutverk Félagsdóms í úrskurði í ágreiningsmálum.

Í 6. gr. frv. er verið að taka heilsugæslulækna og prófessora undir Kjaradóm.

Í 7. gr. frv. er ný upptalning á því hverjir teljast vera í hópi embættismanna.

Í 8. gr. er verið að opna möguleika á því að hægt sé að setja mann til reynslu í embætti.

Í 9. gr. laganna er verið að taka inn ákvæði til bráðabirgða sem snertir rannsóknalögreglustjóra og vararannsóknalögreglustjóra en það verða breytingar á þeim embættum 1. júlí og þarna þarf að bæta úr ákvæði til bráðabirgða.

Í IV. kafla frv. er fjallað um menntmrn. Þar eru breytingar á lögum um Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til leiðir fyrst og fremst af því að náðst hefur samkomulag um það að prófessorar falli undir Kjaradóm og kjaranefnd og síðan afleiddar breytingar á stjórnskipun í háskólunum sem tengjast þessum breytingum. Meiri hluta nefndarinnar þótti rétt að taka þessa kafla fyrir í heild. Ég vek sérstaka athygli á því að meiri hluti efh.- og viðskn. breytti því ákvæði sem var í upphaflegu frv. um ráðningamál í Kennaraháskóla Íslands. En í frv. eins og það var upphaflega lagt fram var gert ráð fyrir að það þyrfti að leita heimilda skólanefndarinnar til að ráða húsverði og tækjaverði og annað slíkt starfsfólk. Það væri ekki hægt að ráða það nema að fenginni tillögu skólanefndar. Ég hygg að slíkt ákvæði geti ekki þjónað neinum tilgangi og því var lagt til í frv. meiri hlutans að þetta yrði fellt út.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir frv. þessu. Ég geri ekki tillögu um að því verði vísað til nefndar þar sem meiri hluti nefndarinnar flytur málið og nefndin hefur þegar fjallað um það. En ég geri tillögu um að málinu verði vísað til 2. umr.