1996-12-20 02:45:26# 121. lþ. 52.5 fundur 251. mál: #A sérákvæði í nokkrum lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heilsugæslulæknar, prófessorar o.fl.) frv. 150/1996, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:45]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem hv. formaður efh.- og viðskn. var að gera grein fyrir er útdráttur úr stóra bandormsfrv. Það kom skýrt fram í 1. umr. af hálfu okkar stjórnarandstæðinga að þetta bandormsfrv. er í raun og veru fylgifrv. löggjafar frá því í vor um starfsmenn ríkisins og að mörgu leyti eðlilegt framhald á því. Við vorum andsnúnir löggjöfinni þá en það er ekkert hægt að segja við því þótt hér komi inn frv. sem útfærir það frv. sem ríkisstjórnin hefur gert að sinni stefnu.

Það eru ýmsar greinar í stóra frv. sem þarf að skoða betur. Við sendum málið fagnefndum þingsins til umsagnar og höfum fengið umsagnir til baka. Sums staðar eru gerðar athugasemdir eða ábendingar. Hins vegar var nauðsynlegt að mati meiri hlutans að lögfesta nokkur atriði úr þessum bandormi fyrir áramót. Minni hlutinn getur fallist á það sjónarmið að það hefði þurft að taka nokkur atriði út úr bandorminum eins og gert eru í frv. Okkur sýnist svona í fljótu bragði að það séu teknir þeir þættir sem er nauðsynlegt að lögfesta núna og hefur ekki ríkt ágreiningur um í fagnefndunum. Við styðjum ekki málið eins og það kemur frá meiri hluta efh.- og viðskn. vegna þess að það er liður í stefnumörkun ríkisstjórnar sem við berum ekki ábyrgð á. Hins vegar verður ekki séð að þetta kalli á þá umræðu sem er nauðsynleg þegar bandormurinn sjálfur í heilu lagi verður afgreiddur, eða það sem eftir er af honum. Hér er um að ræða þau ákvæði sem er einungis nauðsynlegt að fái lögfestingu núna fyrir áramót. Ég sé ekki ástæðu til að lengja umræðuna og tel rétt að málið nái fram að ganga. Það er vitaskuld á ábyrgð ríkisstjórnarinnar en það er ástæðulaust fyrir stjórnarandstöðuna að leggjast gegn því. Hin faglega umræða um meginmálið bíður þá næsta árs.