1996-12-20 02:51:55# 121. lþ. 52.7 fundur 250. mál: #A almannatryggingar og lyfjalög# (kaup á vörum og þjónustu, lyfjaverðsnefnd) frv. 153/1996, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:51]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hér er kominn hefðbundinn skröltormur hæstv. ríkisstjórnar, umfangsminni reyndar en í fyrra, tvær greinar sem lúta að því að gera skýrari þætti varðandi Tryggingastofnun ríkisins. Minni hlutinn hefur ekki neina sérstaka ástæðu til þess að leggjast gegn þeim skýrari lagatexta sem er lagður til í þessum skröltormi. Hins vegar bendir minni hlutinn á að það eru óvönduð vinnubrögð að þurfa hvað eftir annað að leggja bæði fram bandorm með breytingum á mörgum lögum og svo í kjölfarið skröltorm sem er aftur breytingar á mörgum lögum. Þetta sýnir að ríkisstjórnin er nú ekki með stefnumörkun sína eins vel á hreinu og þyrfti að vera til að mál gætu borið hér að með eðlilegum hætti.

Hins vegar, herra forseti, vil ég hér við 1. umr. málsins boða brtt. við málið sem kemur til atkvæðagreiðslu við 2. umr. Þessi brtt. sem ég boða er flutt af mér og hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, Steingrími J. Sigfússyni og Kristínu Ástgeirsdóttur. Þetta eru fulltrúar stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn.

Brtt. gengur út á það að láta bætur úr almannatryggingakerfinu, þ.e. ellilífeyri, örorkulífeyri, tekjutryggingu, barnalífeyri, bætur í fæðingarorlofi, slysatryggingar og sjúkratryggingar taka mið af breytingum sem verða á launum hvers árs. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði því að þetta var afnumið með bandormi, reyndar fyrir ári síðan. Þá ákvað ríkisstjórnin að bætur almannatrygginga skyldu ákveðnar á fjárlögum hverju sinni. Í fyrra var þetta ákveðið á fjárlögum og miðaðist þá við launaþróun. Í ár hefur ríkisstjórnin ákveðið 2% hækkun á næsta ári á bótum úr almannatryggingakerfinu en það er nokkuð líklegt að launaþróun verði eitthvað meiri. Þá er augljóst að þessir aðilar sitja eftir með sárt ennið. Það var fullyrt á síðasta ári að ekki stæði til að nota þessa kerfisbreytingu til að skerða bætur, en annað er að koma á daginn. Þess vegna flytjum við þessa tillögu sem ég er hér að boða. Við teljum þetta vera grundvallaratriði sem skilur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þeir afnámu sjálfvirka tengingu tekjustofnanna til þess að rýra bætur úr almannatryggingakerfinu eins og sést best í fjárlagafrv. Þess vegna er þetta hápólitískt mál sem við leggjum hér fram. Ég vil hins vegar einungis kynna hér tillöguna með nokkrum almennu orðum, ekki fara í þá nauðsynlegu pólitísku umræðu á þessum tíma nætur varðandi þennan þátt, en það gefst tækifæri til þess betur í 2. umr.

Ég vil samt benda á að þetta er sama aðferðafræðin sem við sjáum, hvernig ríkisstjórnin fer fram gagnvart einstaklingunum. Umræða sem við áttum hér fyrr í dag þegar hún hækkar ekki barnabætur og barnabótaauka og aðrar greiðslur tengdar tekuskatti, persónuafslátt og annað slíkt, eins og alltaf hefur verið og sem þessi ríkisstjórn gerði meira að segja í fyrra. Aðferðin er hin sama, þ.e. að nýta sér afnám sjálfvirkninnar til að koma fram skerðingum, bæði á sviði tekjuskatts og einnig hvað varðar almenna bótakerfið. Okkur finnst hins vegar þessi atlaga að ellilífeyrisþegum og örorkuþegum vera mjög alvarleg. Þetta er fólk sem á ekki auðvelt með að bera hönd fyrir höfuð sér. Þess vegna teljum við mjög brýnt að færa þessi lög í sama horf og þau voru, þ.e. að fólk sem nýtur bóta úr almannatryggingakerfinu geti búið við það öryggi að fá bætur í samræmi við launabreytingar hvers árs. Þetta er réttlætismál, þetta er sanngirnismál, þetta er hlutur sem hefur verið sátt um mjög lengi í íslensku þjóðfélagi, allt þar til þessi ríkisstjórn afnam þetta fyrir ári síðan til þess að beita því eins og við sjáum í fjárlagafrv., þ.e. til að skerða kjör þessa fólks. Við í stjórnarandstöðunni erum alfarið á móti þessari stefnubreytingu og munum ræða þessa tillögu ítarlegar við 2. umr. málsins sem fer fram á morgun þegar tillagan kemur til atkvæða ásamt öðrum tillögum tengdum þessum skröltormi.