1996-12-20 02:57:12# 121. lþ. 52.8 fundur 228. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.) frv. 161/1996, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:57]

Frsm. félmn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 410 um frv. til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra, nr. 59 frá 1992. Í frv. er annars vegar að finna ákvæði sem lúta að yfirtöku sveitarfélaga á málefnum fatlaðra og hins vegar er að finna ákvæði vegna breytinga á öðrum lögum sem af þeim leiðir. Félmn. rakti sérstaklega skipan verkefnastjórna til að undirbúa yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Í því sambandi er m.a. og ekki síst stuðst við þá reynslu sem hefur þegar fengist við yfirtöku sveitarfélaga á málefum grunnskólans. Það er gert ráð fyrir því, og kemur raunar fram í athugasemdum við frv. sem hér er til umræðu, að í þessum verkefnastjórnum sitji auk fulltrúa af hálfu ríkisins m.a. fulltrúar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, hagsmunasamtökum fatlaðra og stéttarfélögum.

Enn fremur ræddi félmn., m.a. með hliðsjón af athugasemdum sem fram komu hjá gestum á fundum nefndarinnar, hvernig réttindagæsla í málefnum fatlaðra á landsvísu yrði best tryggð. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri að kveða sérstaklega á um það í ákvæði til bráðabirgða að við undirbúning framangreindrar yfirfærslu á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga skuli huga að þeirri réttindagæslu.

Nefndin mælir öll með samþykkt frv. með eftirfarandi breytingu:

Við 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða bætist nýr málsliður svohljóðandi:

,,Við undirbúninginn skal huga að réttindagæslu fatlaðra.``

Kristín Ástgeirsdóttir, formaður félmn., var fjarverandi við afgreiðslu málsins, hafði veikindaforföll en undir þetta nefndarálit skrifa Siv Friðleifsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Magnús Stefánsson, Kristján Pálsson, Pétur H. Blöndal, Arnbjörg Sveinsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir, með fyrirvara.