1996-12-20 02:59:21# 121. lþ. 52.8 fundur 228. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.) frv. 161/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[26:59]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þótt þetta mál láti ekki mikið yfir sér þá er það afar stórt og það er mjög ánægjulegt að svo góð eining varð um það í félmn. sem raun ber vitni, líka það að bæta við með brtt. setningu um réttindagæslu fatlaðra, en það kom fram í nefndinni að mjög mikilvægt væri að huga að réttindagæslu fatlaðra á landsvísu og hvernig hún yrði sem best tryggð.

Þetta mál á rætur í setningu laga um málefni fatlaðra sem tóku gildi árið 1992, en í þeim lögum var það markmið að stefna að því að málaflokkurinn yrði fluttur til sveitarfélaganna. Hér hefur því verið fylgt eftir. Ég fagna því að ráðherra hefur flutt þetta mál og ég fagna því að félmn. var unnt á þessum skamma tíma frá því að mælt var fyrir því að fjalla um það og leita eftir sjónarmiðum úr ólíkum áttum til þess að fá mynd af stöðunni í þessu máli. Það er alveg ljóst að einhverjir eru þeir sem hafa áhyggjur af að þessi tími til undirbúnings sé e.t.v. ekki nægur, að tvö ár dugi ekki, en við hljótum að bera það traust til verkefnisstjórnanna að þær leggi mat á það hvernig staðan er þegar þær fara að vinna með málið. Og ég minni á það að þegar þeirri verkefnisstjórn sem vann að flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna sýndist að þörf væri á lengri tíma, þá var sá tími lengdur. Það var það sem við höfðum m.a. að leiðarljósi við umfjöllun um þetta mál.

Eins og fram kemur á nefndaráliti styð ég þetta mál og vona að þau lög sem hér eru sett verði málaflokknum til framdráttar og að vel takist til með verkefnisstjórnirnar og undirbúninginn og árétta það að nefndin taldi mikilvægt að auk fulltrúa af hálfu ríkisins mundu fulltrúar frá Sambandi sveitarfélaga og hagsmunasamtökum og stéttarfélögum koma að verkefnisstjórnunum.