1996-12-20 03:01:51# 121. lþ. 52.8 fundur 228. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.) frv. 161/1996, KHG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[27:01]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil árétta afstöðu mína sem ég lýsti við 1. umr. málsins um efasemdir í málinu, ekki endilega þær að ég telji að sveitarstjórnir séu ekki færar um að taka þetta verkefni að sér heldur hitt að sveitarstjórnirnar eru ákaflega misjafnar að stærð og getu. Það liggur fyrir, held ég að megi segja að það verður mjög mismunandi hvernig þeim mun farnast að vinna þetta mál og taka það að sér.

Það sem við þurfum ævinlega að hafa í huga í þessu máli er að við erum ekki að breyta vegna sveitarfélaganna heldur vegna fatlaðra, af því að við ætlum að gera breytingu sem er fötluðum til góðs og að breytingin geti búið þeim betra líf en núverandi ástand. Ég leyni því ekki að mér finnst hins vegar framgangur málsins vera með þannig að menn líti svo á að aðalatriðin séu sveitarfélögin og aukaatriðin séu hinir fötluðu. Og ég harma það, virðulegi forseti, að menn skulu gleyma aðalatriðum málsins og horfa á aukaatriðin eins og oft áður í þessari umræðu og vísa ég til hennar eins og hún hefur verið á undanförnum árum. Þar hefur verið horft til þess fyrst og fremst hvort sveitarfélög eins og þau hafa verið skilgreind hafi verið þess bær að sinna eða taka að sér þjónustu o.s.frv. og síðan hafa menn rifist um það hvort menn hafi getað sinnt henni eins og ríkið eða ekki. Með öðrum orðum, aðalatriðið hefur verið hvort sveitarfélögin gætu tekið að sér hlutverk ríkisins eða ekki, ekki hitt hvort breytingin sé til góðs fyrir fatlaða eða ekki. Og ég leyni því ekki, virðulegi forseti, að mér þykir að í þessu máli hafi menn gengið of langt í að huga að áhugamálum einstakra sveitarstjórnarmanna og einstakra sveitarfélaga.

Eins og ég gat um við 1. umr. málsins, þá tel ég, burt séð frá því hvað menn muni halda eða ætla eftir að hafa reynt málið eftir bestu vitund, að stór sveitarfélög, fjölmenn sveitarfélög séu nokkuð vel í stakk búin til að taka þetta að sér. Ég tel t.d. að Reykjavíkurborg muni geta sinnt þessu með miklum sóma. Ég tel líka að önnur stór sveitarfélög eins og t.d. Akureyri, Kópavogur og Hafnarfjörður muni geta gert það. Og ég hef satt að segja ekki áhyggjur af breytingunni hvað varðar fatlaða sem búa í þessum sveitarfélögum. Ég hef hins vegar áhyggjur af stöðu fatlaðra í fámennari sveitarfélögum þar sem augljóst er að sveitarfélögin munu ekki geta tekið þetta verkefni að sér af eigin rammleik og munu þurfa að leita stuðnings hjá öðrum sveitarfélögum og samráðs um það hvernig þau leysa þetta verkefni af hendi. Þá eru menn komnir í þá stöðu að tefla því í tvísýnu sem menn hafa áorkað undir núgildandi lögum, setja það í uppnám og hugsanlega, ef vel til tekst, ná þeirri niðurstöðu að menn sleppi skaðlaust frá breytingunni. Það er ekki ásættanleg niðurstaða fyrir hönd fatlaðra að það takist að afstýra því að breytingin verði til ills. Við hljótum að ætla að breytingin eigi að vera til góðs fyrir þá sem í hlut eiga.

Í þessum fámennari sveitarfélögum hafa menn staðið þannig að málum, af því að ríkið hefur haft þessi mál með höndum, að menn hafa byggt upp þjónustukerfi fyrir heil héruð eða heil kjördæmi. Þannig hafa menn getað búið til skrifstofur með starfsfólk sem hefur haft atvinnu af því og haft verkefni til þess að geta sinnt þessum málum.

Í stað þessara stóru héraða sem hafa getað staðið undir því að hafa tvo, þrjá eða fjóra starfsmenn í fullri vinnu við að hugsa um hag hinna fötluðu, þá ætla menn nú að láta hvert og eitt sveitarfélag um það hvernig það kemur þessum málum fyrir og kylfu ráða kasti hvernig menn vinna úr því. Og ég segi, það er of mikil áhætta. Menn eiga ekki að gera breytingar nema þeir séu vissir um að breytingarnar séu til góðs. Það er ekki nóg að segja að breytingarnar séu til góðs fyrir suma, kannski til góðs fyrir aðra. Menn verða að vera vissir um að breytingarnar séu til góðs fyrir alla, líka fyrir þá sem búa í fámennari sveitarfélögum. Þeir sem búa í fjölmennum sveitarfélögum og eru í fyrirsvari fyrir þau, verða að hafa hemil á þrá sinni til þess að yfirtaka ný verkefni.

Í þeirri tillögu sem nefndin gerir ráð fyrir er þó viðurkennt að ekki muni allt sem skyldi, a.m.k. ekki hægt að fullyrða um það og því þurfi að gera breytingu á málinu þannig að huga þurfi að réttindagæslu fatlaðs fólks. Gott og vel. Það er viðurkenning á því að málið er ekki fullkomið. En þá spyr ég þá sem málið flytja frá nefndinni: Hvernig ætlið þið að koma breytingunum á þar sem út af bregður? Þegar þið verðið þess áskynja að réttindamála er ekki gætt sem skyldi, hvernig ætlið þið að koma því á að það sem aflaga hefur farið gangi til réttrar brautar? Það er ekki nóg að segja: Við ætlum að vera góðir við alla í þessum skógi. Lögin verða að segja hvernig. Og ég sé ekki, hvorki í lögunum né þessari brtt. nein ákvæði sem tryggja hag þeirra sem ætlað er með þessum málum.

Ég hef lýst afstöðu minni til málsins eins og hún horfir við mér við 1. umr. þess og gert það til fullnustu og þarf ekki að endurtaka það. Ég hef minnt á að menn eru í tilraunaverkefni um málið og menn hafa ákveðið að gera tilraun til fjögurra ára og að lokinni þeirri tilraun ætla menn að taka ákvörðun um það hvort menn geri breytingar eða ekki. Og ég hef sagt: Við skulum halda okkur við þessa leið. En því miður eru aðrir sem vilja hafa hlutina öðruvísi og segja: Þrátt fyrir það að við ákváðum þetta fyrir tveimur árum, þá skulum við hafa annan hátt á í dag, sem er: Við skulum ákveða strax hvað við ætlum að gera og sjá svo til hvernig til tekst. Gott og vel. Það er ákvörðun þeirra sem að málinu standa og tefla málinu í þessa tvísýnu og taka áhættu með þá sem málið á um að fjalla. Ég tel ekki um mikla áhættu að ræða í hinum fjölmennari sveitarfélögum. En ég tel verulega áhættu í hinum fámennari sveitarfélögum. Og ég sé ekki að þeir sem bera málið hér fram láti sig það miklu varða að minnka áhættuna, heldur hafa þeir að leiðarljósi trúna á hina stjórnskipulegu breytingu sem er aðalatriðið, en hagsmunir fólksins sem í hlut á er aukaatriði.

Það verður því miður svo að vera að þingmeirihluti er fyrir hinu að horfa á formið en ekki fólkið. En ég vara við þessari breytingu fyrir hönd þeirra sem búa í tiltölulega fámennum byggðarlögum. Þegar það mun koma á daginn, sem ég býst við og trúi, að með þessari breytingu munu menn eiga fullt í fangi með að halda í það sem menn hafa ef mönnum tekst það þá að brjóta ekki niður það sem menn hafa byggt upp í svæðisstjórnum um málefni fatlaðra, þá bið ég þá að minnast þess sem knýja fram þessa breytingu að það hefði kannski verið betra að fara hægar og vita hvert menn ætluðu að stefna.