1996-12-20 03:22:23# 121. lþ. 52.9 fundur 237. mál: #A Tryggingasjóður einyrkja# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[27:22]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er á ferð eins og fram hefur komið frv. um Tryggingasjóð einyrkja, en hann er fyrir bændur, vörubifreiðastjóra og smábátaeigendur. Þetta er mjög ítarlegt frv. í allmörgum greinum, einum 30 greinum, og málið tengist tveimur málum sem þegar eru komin til félmn., atvinnuleysistryggingasjóðsfrv. og vinnumarkaðsfrv. Við höfum átt von á þessu frv. Það var boðað í atvinnuleysistryggingafrv.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, núna á þessum tíma sólarhrings að fara í nein efnisatriði frv. Það er mjög mikilvægt að það komist sem fyrst til umsagnar þannig að félmn. geti fjallað faglega um þetta frv. líka þegar hún tekur til við umfjöllun um hin tvö frumvörpin sem eru komin til nefndarinnar. Þess vegna er mjög brýnt að félmn. geti skotið á fundi á morgun og ákveðið að koma þessu máli til nefndar. Ég vil bara greiða fyrir því að málið komist í gegnum 1. umr. og legg áherslu á að félmn. fari í mjög faglega og góða efnisumfjöllun um málið. Því sleppi ég að gera tilraun til þess að setja nokkrar skoðanir fram á þessu frv. Ég vil þó geta þess að mér sýnist að ýmsar þær athugasemdir sem komu fram við atvinnuleysistryggingafrv. þegar það var hér til ítarlegrar umfjöllunar, geti átt við þetta frv. líka, það litla sem ég hef skoðað það. En þetta verður skoðað í félmn.