1996-12-20 03:32:23# 121. lþ. 52.10 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, Frsm. meiri hluta StG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[27:32]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir nál. meiri hluta iðnn. um frv. til laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga sem er 73. mál.

Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Svein Þorgrímsson, deildarstjóra í iðnaðarráðuneytinu, Berg Jónsson, forstjóra Rafmagnseftirlits ríkisins, Jóhann Ólafsson, deildarstjóra hjá Rafmagnseftirliti ríkisins, Eirík Bogason, framkvæmdastjóra Samorku, Óskar Jónsson frá Skoðunarstofunni hf., Sigurð Magnússon, löggiltan rafverktaka, Árna Guðmundsson frá Rafmagnseftirliti ríkisins, Agnar Árnason frá Rafveitu Akureyrar, Helga Andrésson frá Akranesveitum og Jens Andrésson, formann Starfsmannafélags ríkisstofnana. Umsagnir bárust frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, BSRB, Rarik, Landsvirkjun, Orkubúi Vestfjarða, Staðlaráði Íslands, Löggildingarstofunni, BHM, Hitaveitu Suðurnesja, Landssambandi íslenskra rafverktaka, Meistarafélagi rafeindavirkja, Skoðunarstofunni hf., Skoðun hf., Kára Einarssyni rafmagnsverkfræðingi, Samorku, Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Rafskoðun ehf., Rafmagnseftirliti ríkisins, Félagi ráðgjafarverkfræðinga og Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandi vestra.

Árið 1993 var framkvæmd rafmagnsöryggismála breytt umtalsvert með reglugerð nr. 543/1993 sem breytti reglugerð nr. 264/1971, um raforkuvirki. Á þeim tíma voru uppi hugmyndir um að fela óháðum skoðunarstofum hluta af þeim verkefnum sem Rafmagnseftirlitinu voru falin með lögum. Var fallið frá þeim eftir að ábending hafði borist um það frá iðnaðarnefnd að til þess skorti lagaheimild. Frumvarp það, sem iðnaðarnefnd hefur nú haft til skoðunar, tengist beint þeim skipulagsbreytingum og er afrakstur endurskoðunar á lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins sem gerð hefur verið m.a. í ljósi reynslu sem fengist hefur af framkvæmd rafmagnsöryggismála frá árinu 1993. Með lögfestingu frumvarpsins er stefnt að tveimur meginmarkmiðum, í fyrsta lagi að stjórnsýsla rafmagnsöryggismála verði skilin frá framkvæmd eftirlits og í öðru lagi að eflingu gæðastjórnunar og innri öryggisstjórnunar þeirra sem fást við rafmagnsöryggismál.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu:

1. Lagt er til að tvær breytingar verði gerðar á 2. gr. Í greininni er gert ráð fyrir því nýmæli að ákvæði laga og reglugerða um rafmagnsöryggismál nái einnig til skipa. Um eftirlit með skipum gilda lög nr. 35/1993 og þykir að svo stöddu ekki rétt að hreyfa við þeirri skipan sem verið hefur, þ.e. að ákvæði um rafmagnsöryggismál nái eingöngu til raforkuvirkja og neysluveitna í landi. Leiðir breytingu á 3. tölul. 1. mgr. 14. gr. af þessari breytingu. Meiri hlutinn beinir því hins vegar til iðnaðarráðuneytis og samgönguráðuneytis að fjalla nánar um tilhögun rafmagnsöryggismála í skipum þar sem enginn grundvallarmismunur er á rafkerfum skipa og rafstöðvum. Rafkerfi skipa eru í auknum mæli tengd við dreifikerfi í landi og þurfa að lúta sömu öryggisfyrirmælum og veitur sem þau eru tengd við. Síðari breytingin, sem lögð er til á greininni, lýtur að því að skýrt verði kveðið á um að einungis eigin virki farartækja séu undanþegin lögunum en ekki tengitæki vélknúinna ökutækja sem eru með rafbúnað fyrir 400/230 V spennu og má tengja við dreifikerfi.

2. Lagt er til að nokkrar breytingar verði gerðar á skilgreiningum í 3. gr.:

a. Orðið einkarafstöð verði skilgreint.

b. Um eftirlitskerfi og kerfisbundnar ráðstafanir til að tryggja að unnið sé í samræmi við lög og reglugerðir verði notuð hugtökin innri öryggisstjórnun og innri öryggisstjórnunarkerfi í stað þess að nota orðin innra eftirlit og innra eftirlitskerfi. Rafveitur nota hugtakið öryggisstjórnun í þessu sambandi og þykir rétt að leggja til að hugtakanotkun frumvarpsins verði í samræmi við það. Vegna þessarar breytingar þarf einnig að breyta ákvæðum í 2. mgr. 5. gr., 2. og 4. tölul. 1. mgr. 9. gr. og 2. og 6. tölul. 1. mgr. 14. gr.

c. Orðið virki verði einungis notað sem samheiti yfir raforkuvirki og neysluveitur en ekki rafföng. Þess í stað verði orðið rafmagnsbúnaður notað sem samheiti yfir raforkuvirki, neysluveitur og rafföng, en ekki er gerð tillaga um sérstaka skilgreiningu heldur stuðst við almenna málhefð. Af þessu leiðir að breyta þarf ákvæðum í 4. og 11. gr.

3. Lagt er til að heimildir ráðherra til að setja reglugerð, sem eru í lokamálslið 2. mgr. 5. gr. og í síðari málslið 7. gr., og heimild til að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna í 15. gr. verði allar fluttar til í frumvarpinu og teknar óbreyttar upp í 13. gr. sem fjallar um reglugerð um raforkuvirki. Skýrara er að hafa heimildir til að setja reglugerð í afmörkuðum greinum. Ef fallist er á breytinguna verður, auk heimildar 13. gr., heimild í 2. mgr. 14. gr. er lýtur sérstaklega að gjöldum. Vegna þessa er lagt til að umrædd ákvæði 5. og 7. gr. og 15. gr. falli brott en þess í stað verði nýjum málslið bætt við 1. mgr. 13. gr. og tveimur nýjum töluliðum við 2. mgr. 13. gr.

4. Ekki þykir ástæða til að einskorða fræðslu- og upplýsingastarf um hættu á rafmagni við almenning heldur gæti það líka beinst að fagfólki, t.d. í formi endur- eða símenntunar. Breyting á 9. tölul. 2. mgr. 13. gr. snýr að þessu.

5. Í 11. tölul. 2. mgr. 13. gr. er að finna heimild til handa ráðherra að kveða nánar á um heimildir Löggildingarstofu til að gefa út verklagsreglur og verklýsingar sem eru nánari leiðbeiningar eða fyrirmæli, tæknilegs eðlis, til þeirra sem starfa að rafmagnsöryggismálum. Lagt er til að liður þessi verði umorðaður til að kveða skýrt á um að eingöngu sé átt við nánari reglur um tæknilega útfærslu. Ekki þykir ástæða til að veita Löggildingarstofunni ómarkvissa heimild til að setja nánari reglur um starfsemi rafskoðunarstofa, rafveitna og rafverktaka, enda eru, eftir því sem við á, skýr ákvæði í frumvapinu um hana eða ráðherra falið að útfæra nánar slík ákvæði í reglugerð um raforkuvirki.

6. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í 1. tölul. 3. mgr. 13. gr. sé ráðherra fengin heimild til að setja reglugerðarákvæði um að í fasteignaviðskiptum liggi fyrir vottorð um ástand neysluveitu hins selda. Í greinargerð er tekið fram að ákvæðið miðist við þróun neytendaverndar. Ekki er með þessu frumvarpi verið að kveða á um réttarstöðu aðila í fasteignakaupum heldur snýr það að rafmagnsöryggismálum. Meiri hlutinn lítur svo á að í frumvarpinu séu nægilega tryggðar heimildir stjórnsýsluhafa til að kveða á um öryggismál neysluveitna og eftirlit með þeim, sbr. 7. gr., enda er um mikilvægt mál að ræða. Það hlýtur að vera stöðugt verkefni rafmagnseftirlits- og brunavarnamálayfirvalda að meta hvernig öryggi neysluveitna verði best tryggt, m.a. með tilliti til aldurs bygginga. Í ljósi þess sem að framan greinir telur meiri hlutinn ekki rétt að setja ákvæði í þetta frumvarp um neytendasjónarmið í fasteignakaupum þótt slíkar hugmyndir séu góðra gjalda verðar. Þyrfti það frekari undirbúnings við og eðlilegra er að fjalla um slíkar hugmyndir á heildstæðan hátt í tengslum við setningu löggjafar á sviði neytendaverndar. Rétt er að geta þess að almennt má telja að ekki sé nægjanlegt að kveða á um slík ástandsvottorð í viðskiptum í reglugerð heldur þurfi til þess beint lagaákvæði. Því er lagt til að 1. tölul. 3. mgr. 13. gr. falli brott og er málsgreinin umorðuð í samræmi við það.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til á 13. gr. er komið til móts við athugasemd um að í frv. felist of víðtækt valdaframsal til ráðherra og er frekari fullyrðing í þá átt hafnað. Eru heimildir ráðherra gerðar mun skýrari með breytingum og í lögum sem þessum er útilokað að löggjafinn geti sett fyrirmæli um allar tæknilegar útfærslur.

7. Auk áðurgreindra breytinga á 14. gr. leggur meiri hlutinn til að við undanþáguákvæði 1. og 4. tölul. 14. gr. frá greiðslu gjalds vegna yfireftirlits Löggildingarstofu bætist nýtt ákvæði til að taka af allan vafa um að önnur stóriðjuver en þau sem talin eru upp í þeim liðum kunni að verða undanþegin þessari skyldu með ákvæðum í sérlögum. Þá er rafveitum í 4. tölul. 14. gr. falið að greiða gjald vegna yfireftirlits og úrtaksskoðana neysluveitna. Meiri hlutinn leggur til að þetta gjald verði innheimt þrátt fyrir ýmis ákvæði í lögum um rafveitur er kveða á um undanþágur frá opinberum gjöldum. Hér er um sérlög að ræða sem ganga framar almennum ákvæðum í þessu efni.

8. Að lokum er lagt til að breyting verði gerð á 17. gr. er varðar dómsupptöku þannig að greinin verði ítarlegri.

Sighvatur Björgvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á þskj. 380.

[27:45]

Undir nefndarálitið rita Stefán Guðmundsson, Guðjón Guðmundsson, Árni R. Árnason, Sigríður A. Þórðardóttir, Hjálmar Árnason og Pétur H. Blöndal.

Tvær alvarlegustu athugasemdirnar sem þeir sem andmælt hafa þessu frv. gera er að það muni leiða til mikillar kostnaðarhækkunar og það dragi úr öryggi. Ég tek skýrt fram að frv. er ekki ætlað að auka kostnað. Eftirlit með neysluveitum, t.d. rafföngum húsa, færist frá rafveitum og verður á hendi skoðunarstofa en gjald í 4. tölul. 14. gr. frv. er nýtt til að greiða kostnað af úrtaksskoðunum vegna neysluveitna þannig að kostnaður neytenda er sá sami á öllu landinu. Með öðrum orðum mun kostnaður neytenda ekki hækka þótt skoðunarstofur sinni úrtaksskoðunum. Sumir telja að taka beri út allar nýjar neysluveitur, þ.e. 100% skoðun. Ekki eru allir sérfræðingar sammála um hvort 100% skoðun tryggi 100% öryggi. Úrtaksskoðun nær til allra rafverktaka. Þeir verða að sæta skoðun en ekki allar veitur sem þeir gera nema úrtaksskoðun gefi tilefni til nánari athugunar. Ef þörf er á nánari skoðun hjá þeim aðilum sem standast ekki kröfur, þá verða þeir hinir sömu krafðir um kostnaðinn, ekki neytandinn. Því er mikilvægt að allir, bæði rafverktakar og rafveitur, komi sér upp innra öryggisstjórnunarkerfi, eins og frv. gerir ráð fyrir, til að yfirfara eigin vinnubrögð. Það er besta trygging okkar fyrir öryggi raforkuvirkja og neysluveitna. Eftirlitið er aðeins í öðru sæti hvað það varðar.

Varðandi kostnað rafveitna og rafverktaka af úrtaksskoðunum á búnaði og innra öryggisstjórnarkerfi þeirra er rétt að benda á að í frv. er að finna heimild til þess að rafveitur og rafverktakar semji beint við rafskoðunarstofur. Það er rétt að ég ítreki að heimild er að finna til þess að rafveitur og rafverktakar semji beint við rafskoðunarstofur. Það er trú mín að rafskoðunarstofum eigi eftir að fjölga, ekki eingöngu eins og haldið hefur verið fram að muni gerast á höfuðborgarsvæðinu. Samkeppni þeirra á milli leiðir til þess að rafveitur og rafverktakar nái hagstæðum samningum um skoðun án þess að slakað sé á öryggiskröfum, enda hefur Löggildingarstofan eftirlit með störfum rafskoðunarstofa.

Að lokum vil ég taka fram að eftir að hafa skoðað þetta mál gaumgæfilega og hlustað á með- og mótrök í þessu máli hef ég sannfærst um að þessi löggjöf kemur til með að bæta það ástand sem nú er í rafmagnsöryggismálum landsmanna og leggur góðan grunn að framtíðarskipulagi málaflokksins.

Það er rétt að rifja það upp að frv. þetta er flutt til að laga lagaákvæði um rafmagnsöryggismál að breyttum tímum og lögfesta tiltekin ákvæði um framkvæmd þeirra. Fyrst og fremst er hér um að ræða tvö atriði: Annars vegar aðskilnað stjórnsýsluþáttar rafmagnsöryggismála frá framkvæmd eftirlits og hins vegar eflingu gæðastjórnunar og innra eftirlits þeirra sem rafmagnsöryggismálin snerta í þeim tilgangi að auka öryggi eigenda og umráðamanna svo að unnt sé að minnka eftirlit hins opinbera. Einnig er í frv. gert ráð fyrir því að Rafmagnseftirlit ríkisins og Löggildingarstofan verði sameinaðar í nýja stofnun, Löggildingarstofuna, er taki við hlutverki þeirra og verkefnum.

Þetta frv. var samið af allstórri nefnd. Ég held að ég muni það rétt að það hafi verið einir níu aðilar frá hinum ýmsu fagfélögum sem komu að því að taka saman drög að því frv. sem hér liggur fyrir. Í nefndinni sem fjallaði um undirbúning þessa máls sátu Ásgeir Einarsson frá iðn.- og viðskrn., Bergur Jónsson frá Rafmagnseftirliti ríkisins, Gísli Þór Gíslason frá Landssambandi ísl. rafverktaka, Gunnar Ingi Gunnarsson frá Félagi ráðgjafarverkfræðinga, Ófeigur S. Sigurðsson rafmagnstæknifræðingur, Steinar Friðgeirsson frá Sambandi ísl. rafveitna, Sveinn Þorgrímsson frá iðn.- og viðskrn., sem var formaður nefndarinnar, og Þorleifur Finnsson frá Rafmagnseitu Reykjavíkur. Með nefndinni starfaði einnig Eiríkur Þorbjörnsson framkvæmdastjóri Sambands ísl. rafveitna.

Þessi nefnd komst að sameiginlegri niðurstöðu um þetta mál og styrkir það mjög trú mína á því að menn séu hér að feta sig inn á betri braut en þessi mál hafa verið á fram til þessa.

Það fyrirkomulag sem hér er verið að festa í sessi, þ.e. úrtaksskoðun, um kröfur innra eftirlits hjá rafveitum og rafverktökum ásamt því að færa ábyrgðina á neysluveitum og raforkuvirkjum til þeirra sem eiga eða vinna við neysluveiturnar og raforkuvirkin er í samræmi við það sem verið er að gera eða búið er að gera í nánast öllum nágrannalöndum okkar.

Það var athyglisvert að nær allir sem komu á fund nefndarinnar töldu að nauðsynlegt væri að breyta frá núverandi kerfi sem virkaði ekki eins og vænst hafði verið í upphafi. Ég held að það sé ekki ofsagt þó að ég segi það hér að svo hafi verið.

Ég vil líka taka fram að gefnu tilefni að allir sem þess óskuðu að fá viðtal við iðnn. vegna þessa máls var boðið það. Engum sem þess óskaði var synjað um að mæta á fundi nefndarinnar og koma sjónarmiðum sínum þannig á framfæri. Það er kannski rétt að segja það vegna þeirrar umræðu sem verið hefur í fjölmiðlum um málið og skýrir það aðeins að ljóst er að rafveitur og rafverktakar hafa heimild til þess að semja beint við rafskoðunarstofur og kostnaður vegna úrtaksskoðunar neysluveitna er sá sami á öllu landinu og er greiddur og jafnaður út eins og kemur fram í 14. gr. frv. og má þar benda á tölul. 4.

Ég vil einnig undirstrika það að Löggildingarstofan getur boðið út til faggiltra skoðunarstofa ákveðnar skoðanir, enda er það almenn stefna ríkisstjórnarinnar um innkaup að útboð fari almennt fram. Sá málflutningur manna stenst því ekki að halda því fram að það muni vera ógerningur að reka skoðunarstofur annars staðar en hér í Reykjavík. Þetta er veigamikið mál í mínum huga og mér finnst að þetta ætti einmitt að tryggja að skoðunarstofur ættu að hafa fulla burði til þess að geta starfað annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu.

Það er einnig rétt að skýra að það er ekkert því til fyrirstöðu að rafverktakar skoði minni veitur ef þær geta sýnt fram á hæfni og hluteysi til að gera það. Til þess þurfa þær faggildingu sem ætti ekki að vera neinum óyfirstíganlegt ef vilji viðkomandi aðila stendur til þess. Menn hafa heyrt í þessari umræðu mjög háar og villandi tölur um kostnað við slíkt. Því höfum við reynt að glöggva okkur á kostnaði til slíkra skoðunarstofa og er talið að slíkt muni kosta 250 þús. kr. eða 300 þús. kr. auk árlegs kostnaðar við að viðhalda faggildingu sem mun trúlega vera eitthvað um helmingur af þessum kostnaði. Mér finnst að menn hafi skotið nokkuð yfir markið í þessum efnum þar sem þeir hafa verið að reyna að dæma það úr leik að þessar stofur yrðu annars staðar en hér á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt hefur sú umræða verið mjög villandi sem hefur af því leitt að menn teldu að um verulegan kostnaðarmun væri að ræða fyrir þá sem á þessari þjónustu þyrftu að halda miðað við það hvar búsetan væri. Á því er eins og ég hef áður sagt tekið í 4. tölul. 14. gr. frv. þar sem tekið er fram um jöfnun á þessum kostnaði.