1996-12-20 03:58:27# 121. lþ. 52.10 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, Frsm. minni hluta SvG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[27:58]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv. sem kemur nú til 2. umr. á þessari morgunstund á sér nokkuð merkilega sögu. Aðdragandinn er orðinn langur og má rekja hann allt aftur til ársins 1991, tel ég vera, þegar þáv. hæstv. iðnrh., Jón Sigurðsson, skipaði mann til þess að vinna tillögur um nýja skipan rafmagnseftirlitsmála, Hagsýsla ríkisins kom að málinu, skýrsla var gefin út, ég hygg á árinu 1992, og á grundvelli hennar var svo sett reglugerð á árinu 1993 sem breytti umhverfi þessara mála mikið.

Þessi reglugerð var unnin í iðnrn. undir forustu þáv. ráðuneytisstjóra, Björns Friðfinnssonar, og má segja að það komi vel á vondan að þessa dagana er sagt að hann sé að koma heim til Íslands á nýjan leik eftir langa fjarvist í utanríkisþjónustunni og hans nafn er nefnt í kringum þessa sömu Löggildingarstofu og við erum nú að ræða sem hann kom af stað ásamt samstarfsmönnum sínum í iðnrn. Sannast hér hið fornkveðna að miklu veldur sá sem upphafinu veldur þó að ég geri ekki ráð fyrir því að hann hafi kannski séð það fyrir að það gæti þróast með þeim hætti sem blasir við núna í býtið á þessum morgni á Alþingi Íslendinga.

[28:00]

Sannleikurinn er sá að þegar þessi reglugerð var sett 1993 vakti hún strax mjög mikla úlfúð, gríðarlega óánægju og áhyggjur um allt land. Reglugerðin gerði ráð fyrir að leggja svo að segja Rafmagnseftirlitið niður eins og það var og fela það öðrum aðilum, skoðunarstofum, í veigamiklum atriðum þó svo að engar lagaheimildir væru fyrir því. Þá gerðust þau tíðindi að málið var tekið fyrir í iðnn. Alþingis aftur og aftur. Ég hygg að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi verið formaður í nefndinni fyrst þegar það var þar tekið til meðferðar og síðan var ég þar í formennsku í ein tvö ár og niðurstaðan varð sú að í þessari glímu við ráðuneytið um reglugerðina höfðum við betur. Iðnn. hafði betur og það er afar sjaldgæft að það gerist satt að segja. Ég man eiginlega varla eftir því á mínum ferli hér að það hafi í annan tíma gerst að þingnefnd hafi rekið reglugerð ofan í ráðuneyti, en það gerðist. Það tókst ekki síst vegna þess að mikil samstaða var um málið í hv. iðnn. og áttu þar í hlut allir þingmenn hvort sem þeir voru fyrir stjórn eða stjórnarandstöðu á þeim tíma. Ég nefni þar mann eins og t.d. hv. þm. Gísla Einarsson sem þá var í iðnn. ásamt mér og ég nefni þar einnig hv. þm. og núv. hæstv. ráðherra, Finn Ingólfsson, sem tók þátt á þessum málum af miklum skörungsskap og dugnaði og fjallaði um málin ásamt öðrum forustumönnum Framsfl. á þeim tíma, t.d. hæstv. núv. félmrh., hv. þm. Páli Péturssyni.

Niðurstaðan af þeim umræðum var með öðrum orðum sú að það tókst að snúa ráðuneytið niður, ganga frá málum þannig að ráðuneytið gaf út endurnýjaða reglugerð og engu að síður var það viðurkennt að kerfið var meingallað. Núv. hæstv. iðnrh. fékk þetta kerfi í arf og þeir sem unnu að málinu bundu miklar vonir við hann og húsbóndavald hans í iðnrn. Það yrði ef til vill til þess að breyta þeim málum á nýjan leik í veigamiklum atriðum í þá átt sem starfsmenn Rafmagnseftirlitsins og fleiri höfðu gert sér vonir um.

Ég hygg, hæstv. forseti, að ekki sé of mikið sagt hins vegar að þeir hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum. Vegna þess að sú nefnd sem skilaði áliti og hafði verið skipuð af núv. hæstv. ráðherra reyndist fara í allt of veigamiklum atriðum í spor hinnar nefndarinnar og ekki er hægt að segja annað en þeir sem höfðu snúið sér til ráðuneytisins með stuðning í málinu hefðu farið bónleiðir til búðar. Það er dálítið umhugsunarefni satt að segja hvernig þessir hlutir þróast og nú geri ég ekki lítið úr þeim mönnum í ráðuneytinu sem með málin hafa farið, en það er dálítið flókið mál að velta því fyrir sér hver staða ráðherra er andspænis sérfræðingum í viðkomandi ráðuneyti. Ég ætla ekki að nota nein orð um það önnur en þau á þessum morgni að mér kemur það í hug að oft sé erfitt fyrir ráðherra að takast á við sérfræðileg úrlausnarefni eins og rafmagnseftirlitsmál og að styðjast þar við sömu sérfræðinga og fyrrv. ráðherrar hafa haft. Ég verð að segja að ég tel að þetta mál gefi tilefni til hugleiðinga um sjálfstæði ráðherra og möguleika ráðherra til þess að hafa sjálfstæði andspænis sterkum sérfræðingum.

Hæstv. ríkisstjórn lagði þetta mál fyrir Alþingi núna á haustdögum og það fór til meðferðar í hv. iðnn. Satt að segja áttaði ég mig ekki á því fyrr en komið var undir jól að mönnum lægi svo mikið á að jafnvel yrði reynt að þrýsta á um afgreiðslu málsins á fundartíma eins og þessum. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef engin rök heyrt fyrir því að það þurfi endilega að kýla þetta mál í gegnum þingið núna. Ég hef engin rök heyrt fyrir því. Það hafa að vísu borist fréttir um aðalhöfund málsins en ég hef ekki áttað mig á því að þær væru beinlínis viðkomandi meðferð þess í þinginu. Ég hef engin rök heyrt fyrir því að nauðsynlegt sé endilega að kýla þetta í gegn og ég segi eins og er, hæstv. forseti, ég mótmæli því. Mér finnst það ekki leggjandi á þingið að vinna mál á þennan hátt um hánótt og ég sé engin rök fyrir því af neinu tagi.

Í umfjöllun hv. menntmn. gerðist það að mjög margir komu á fund nefndarinnar og létu frá sér fara ýmsar athugasemdir við frv., mjög alvarlegar athugasemdir og ég vil bera lof á formann nefndarinnar fyrir að hann reyndi sem hann gat að koma til móts við þá gagnrýni og á hann þakkir skildar fyrir það. Ég vil í þessu sambandi þó taka fram, sem ég held að sé óhjákvæmilegt, að þessi tilraun og viðleitni hv. formanns nefndarinnar er auðvitað ekki nægileg til þess að við séum sátt við málið og þess vegna skilar minni hlutinn nefndaráliti á þskj. 402 sem er undirritað af mér og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir, sem sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi, samþykk áliti þessu. Í niðurstöðu okkar á þskj. 402 segir svo, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Fyrir því eru eftirfarandi rök:

kostnaður af eftirliti virðist aukast með því kerfi sem gert er ráð fyrir að taka upp samkvæmt frumvarpinu sem gæti leitt til hærra rafmagnsverðs fyrir neytendur;

kostnaður við skoðun húsveitna getur aukist verulega;

kostnaður eykst mest á landsbyggðinni nái breytingarnar fram að ganga;

kerfisbreytingin byggist á því að flytja tugi starfa frá dreifbýli til þéttbýlis;

ekki er ljóst að rafmagnseftirlit aukist og því er haldið fram að úr því geti dregið;

ekki hefur verið gengið frá því hvernig breytingin kemur við starfsmenn Rafmagnseftirlitsins;

frumvarpið felur í sér víðtækt valdframsal til ráðherra og það virðist almennt illa undirbúið.``

Á þessum forsendum, herra forseti, leggjum við til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar á ný til frekari vinnslu. Í grg. okkar og nál. förum við rækilega yfir málið og gerum grein fyrir nokkrum þeirra umsagna sem okkur bárust. Ég ætla ekki að fara yfir þær á þessari morgunstund. En það verður að segjast eins og er að ýmsir aðilar eins og t.d. Meistarafélag rafeindavirkja mæltu heldur með málinu og skoðunarstofurnar mæltu auðvitað með málinu. Það kom náttúrlega engum á óvart. Skoðunarstofan hf. t.d. mælti heldur með málinu, Rafskoðun ehf. gerði það sömuleiðis, Skoðun hf. sömuleiðis og fleiri slíkir aðilar, t.d. hinir opinberu aðilar, og sumir voru jákvæðir í málinu, t.d. að nokkru leyti Rafmagnsveita Reykjavíkur, en flestir höfðu þeir þó athugasemdir að gera eins og Hitaveita Suðurnesja t.d. við gjaldtökuna sem í frv. er gert ráð fyrir. Þar er bent á, með leyfi forseta, að sérstök áhersla er lögð á að raforkusala til hersins á Keflavíkurflugvelli, samkvæmt varnarsamningnum og samningi ríkisstjórnar Íslands og varnarliðsins 2. ágúst 1960, er undanskilin öllum sköttum og gjöldum. Það er því óhjákvæmilegt að sala til hersins sé einnig í slíkri upptalningu sé hún talin nauðsynleg. Það er verið að vitna í 14. gr. frv. Þar eru gerðar athugasemdir við þetta.

Það eru líka gerðar athugasemdir við stóriðjuna í þessu samhengi. Orkubú Vestfjarða mótmælir skattlagningu á rafveitur og Landsvirkjun mótmælir því gjaldi sem ætlunin er að leggja á fyrirtæki samkvæmt 4. tölul. 14. gr. frv. sem gerir ráð fyrir því að lagt sé 0,6% gjald á heildartekjur fyrirtækisins af raforkusölu og leigu mælitækja að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku og virðisaukaskatti.

Sömuleiðis bendir Landsvirkjun á fleiri þætti, m.a. valdaframsalið sem sem ég nefndi áðan í 2. mgr. 13. gr. frv. og bent er á að illa sé samþýðanlegt annars vegar ákvæði frv. og hins vegar þeir samningar um raforkusölu til stóriðjufyrirtækja sem þegar hafa verið gerðar. Hérna taldi ég upp, hæstv. forseti, þær ábendingar sem eru í raun jákvæðar í þeim skilningi að menn mæla svo að segja með að þetta frv. verði samþykkt.

Síðan koma fjöldamargir aðrir aðilar. Ég nefni t.d. Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Ég ætla ekkert að fara að lesa það hér. Það er enginn tími til þess, hæstv. forseti, að lesa það. Það er skrifað og staðfest fyrir 8. des. 1996. Þar eru lagðar fram mjög alvarlegar ábendingar um þetta mál, t.d. um að öryggið verði kannski ekki nógu tryggt með þessu. Það er talað um gjaldtökuna sem gagnrýnivert atriði og fleiri slíka þætti.

Hér er ályktun frá Sambandi sveitarfélaga í Norðurl. v. sem einnig gagnrýnir þessi mál. Hér er heit áskorun og löng og ítarleg frá rafverktökum á Vesturlandi. Mér er sagt að þeir hafi haft svo mikið við að þeir hafi leitað uppi þingmenn sína sem voru á fundi í Búðardal til að leggja sérstaklega fram þetta skjal. Hér er áskorun frá rafverktökum á Norðurlandi sem er rituð hæstv. iðnrh. 25. okt. 1996. Hér er áskorun frá rafverktökum á Austurlandi sem send var þingmönnum Austurl., iðnn. Alþingis og rafmagnseftirlitsstjóra, eins og það er orðað. Hún er dagsett 25. sept. 1996. Hér er bréf sem er dagsett í Búðardal 24. nóv. 1996 til iðnrh. frá Félagi rafverktaka á Vesturlandi undir forustu Einars Stefánssonar í Búðardal. Hér er ítarlegt bréf frá Landssambandi ísl. rafverktaka þar sem þetta mál er gagnrýnt mjög harðlega í bréfi sem er dagsett 25. nóv. 1996. Hér er síðan ítarlegra bréf frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og fleiri og fleiri og fleiri bréf mætti nefna. Ég ætla ekki að fara að lesa upp úr ályktun t.d. Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem tekur sérstaklega á réttindamálum starfsfólksins og öryggisleysinu sem menn óttast að geti fylgt þessu. BSRB telur, eins og segir, með leyfi forseta, að ,,eftirlit með öryggi borgaranna eigi að vera á höndum hins opinbera en ekki á vegum einkaaðila. Á hinum Norðurlöndunum er rafmagnseftirlitið almennt á vegum opinberra aðila,`` segir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.

Við fengum mjög fróðlegar umsagnir um þessi mál frá fyrrverandi og núverandi rafmagnseftirlitsmönnum eins og t.d. Sigurði Magnússyni, Árna Guðmundssyni og fleirum sem komu til fundar í nefndinni. Við lásum auðvitað eins og við er að búast fjöldann allan af blaðagreinum um þessi mál. Það sem við segjum um öryggið, um kostnaðinn, um vanda landsbyggðarinnar og allt þetta --- þetta er ekki uppfinning okkar, svo er ekki. Þetta er eitthvað sem okkur sýndist að væri eins og við segjum hér. Kostnaður virðist aukast. Það var viðurkennt af fulltrúum skoðunarstofanna að kostnaður mundi aukast. Það var algerlega viðurkennt. Þeir sögðu að vísu að þegar fram í sækti gæti kostnaður minnkað en til að byrja með mundi kostnaður aukast.

[28:15]

Þeir viðurkenndu líka að kostnaður við skoðun húsveitna mundi aukast og við heyrðum um það dæmi frá Akureyri, alveg ótrúleg dæmi, þar sem annars vegar var um það að ræða að kostnaður við skoðun húsveitu í gamla kerfinu hefði verið 10 þúsund kr. en í nýja kerfinu 50 þúsund kr., í einu og sama húsinu eða íbúðinni. Við heyrðum dæmi um að kostnaður mundi aukast mest á landsbyggðinni vegna þess að það var fullyrt, eins og hv. þm. Stefán Guðmundsson gat um áðan, að ekki yrði hægt að reka faggiltar skoðunarstofur á landsbyggðinni og þess vegna yrði að fá menn að langar leiðir og borga mikinn ferðakostnað og annað til þess að skoða úti á landi. Þess vegna yrðu faggiltu skoðunarstofurnar hér af því þær eru svo dýrar. Og þess vegna sögðu menn að kostnaður mundi aukast mest á landsbyggðinni. Það var fullyrt að með þessu móti væri verið að flytja störf úr rafmagnseftirliti utan af landi til Reykjavíkur. Það er dálítið skrýtið að horfa upp á það að menn eru hér að skrifa lofgreinar um sjálfa sig í blöðin fyrir það að flytja Landmælingar upp á Akranes og svo eru þeir að húrra 20 störfum alls staðar að af landinu hingað til Reykjavíkur í rafmagnseftirliti. Ég segi það alveg eins og er, hæstv. forseti, mér finnst það duga skammt til að bjarga æru manna í þessu máli að þvo sér með Landmælingum af og til eða viðlíka sjoppum, ég segi það alveg eins og er. Manni dettur í hug orðið hræsni. Mér finnst að menn séu að beygja sig fyrir markaðslögmálum, einhverjum tískulögmálum, að nokkru leyti í staðinn fyrir að reyna að rísa upp og standa í fæturna fyrir m.a. dreifbýlið af því ég er viss um að það er líka ódýrara fyrir þjóðfélagið. Því þegar menn vinna þannig að þessum málum að verið er að flytja fólk til Reykjavíkur, fólk neyðist til að fara hingað í stórum stíl og yfirgefa kannski íbúðir sínar, skóla og heilsugæslustöðvar úti á landi, þá þarf auðvitað að byggja það sama aftur upp hér og vegi, þ.e. sem kallað er infrastrúktúr. Niðurstaðan verður sú að það þarf eiginlega að byggja tvöfalt sett á ævina fyrir meðalmann af þessu sem allir þurfa af því jafnvægisleysið í byggðamálum er eins og það er. Okkur er sagt og það hefur ekki verið hægt að sannfæra okkur um annað að rafmagnseftirlitið minnki með þessu. Út af fyrir sig er það held ég alveg rétt hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að 100% skoðanir eru ekki 100% öryggi, það er nú einu sinni veruleikinn. Hún á nú við um fleira en rafmagnsskoðanir sú fullyrðing. Hins vegar er spurning hvort það er ekki of langt gengið að ætla sér að dæma alla hluti eins og hér er gert ráð fyrir með tiltölulega takmörkuðum úrtaksskoðunum á tíundu hverja íbúð eða svo.

Við höfum líka áhyggjur af því, herra forseti, hvernig er komið fram við starfsmenn Rafmagnseftirlits ríkisins. Það er reyndar ekki fjallað um þá neitt í frv. Það er í öðru frv. Það er í frv. um Löggildingarstofu sem liggur hérna einhvers staðar. Þar er gert ráð fyrir því að þessir starfsmenn Rafmagnseftirlitsins verði starfsmenn Löggildingarstofunnar. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að spyrja --- mér nægir út af fyrir sig svar í þeim efnum við 3. umr. málsins ef menn vilja --- og ég vil fá upplýsingar um það hvernig menn sjá þetta fyrir sér með þetta fólk sem er hjá Rafmagnseftirlitinu. Hvað verður um það? Ég held að þetta fólk leggi áherslu á að halda sinni atvinnu og sínu atvinnuöryggi. Það hefur verið greinilegt af því sem frá þessu fólki hefur komið að það hefur fundið fyrir því hver hefur húsbóndavaldið yfir Löggildingarstofunni. Það var ekki fallegt að sjá hvernig einstakir starfsmenn af vettvangi Rafmagnseftirlitsins höfðu verið beygðir þegar þeir komu til fundar hjá okkur.

Þessi atriði eru öll nægilega stór til þess a.m.k., herra forseti, að mér finnst engin ástæða til þess að afgreiða þetta frv. hér um hánótt. Þess vegna fer ég fram á það við hæstv. forseta Alþingis að hann hlutist til um að verja sóma Alþingis þannig að hér verði lokið fundarhöldum og haldið áfram umræðum á morgun, jafnvel í björtu þó það sé nú lítill kostur á slíku í skammdeginu. Það er engin þörf á því að ljúka þessu máli svona núna fyrir jólin, ekki nokkur. Skynsamlegast er almennt að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Það er tillaga okkar í minni hlutanum. Við höfum ekki rekið þetta mál af okkar hálfu á fundum iðnn. af neinu offorsi. Við höfum reynt að halda á þessu málefnalega og leggja okkur fram um að komast að hagfelldri niðurstöðu. Við höfum tekið þátt í því að laga til orðalag á einstökum breytingartillögum og unnið þetta málefnalega eins og við höfum getu og vit til. Okkur finnst ekki að það hafi verið tekið á móti okkur hins vegar eins og við ættum skilið í þessu efni. Það hörmum við og leggjum til að málinu verði vísað héðan frá Alþingi aftur.