1996-12-20 04:24:12# 121. lþ. 52.10 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[28:24]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að þeir sem mótmæltu þessu voru að miklu leyti að mótmæla núverandi kerfi. En það er kannski fyrst og fremst vegna þess að þeir höfðu það á tilfinningunni, og ég held að það sé rétt hjá þeim að miklu leyti, að það er verið að staðfesta hið breytta og gallaða kerfi með þessu frv. Það er verið að gera reglugerð Björns Friðfinnssonar frá árinu 1993 að lögum. Það er sérkennileg upplifun að það skuli akkúrat gerast á þessum sólarhringum, verð ég að segja, herra forseti. Og ég held að reynslan af því máli sé ekki sú að ástæða sé til að taka undir það. Ég segi alveg eins og er og viðurkenni það alveg að það er flókið fyrir leikmann að vinna sig í gegnum mál af þessu tagi, leikmann eins og mig, sem hef lagt margt annað fyrir mig um ævina en að setja mig inn í raforkuöryggismál í smáatriðum. Ég viðurkenni það fúslega. Þess vegna neyðist ég til að hlusta á þá sem hafa haft með þessi mál að gera og þekkja þau, hafa t.d. unnið við þau sjálfir. Og mér finnst að ábendingar þeirra að austan og norðan og vestan og sunnan séu þannig að ég geti ekki annað en hlustað á þá því hérna erum við eins og kunnugt er ekki til þess að vinna eins og vélar heldur til að hlusta á fólk eins og ég veit að hv. formaður iðnn. vill gera.