1996-12-20 04:28:42# 121. lþ. 52.10 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[28:28]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Þetta mál var eitt af fyrstu málunum sem var lagt fyrir þingið í haust og hefur verið lengi til umfjöllunar í iðnn. Ég vil þakka nefndinni fyrir það starf sem hún hefur unnið. Það hafa verið gerðar breytingar á málinu og ekkert það mál er það fullkomið þegar það kemur hingað inn að ekki megi gera betur. Ég ætla ekki að rekja aðdraganda málsins. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur gert það og ég er lýsingu hans á aðdraganda að öllu leyti sammála. Í þeirri lýsingu kemur að því þegar ég tek við sem iðnrh. Það er rétt að þá voru þessi mál í algjörlega óviðunandi ástandi. Ég taldi vera eðlilegt að fá úr því skorið og gekk til þess verks með opnum huga. Ég var óviss um hvaða leið ætti að fara í þessum efnum eftir að hafa setið iðnn. og fylgst á sínum með vinnubrögðunum sem þar áttu sér stað og þeirri óánægju sem var um framkvæmd eftirlitsins.

[28:30]

Ég átti ágætis samráð við núverandi starfsmenn Rafmagnseftirlits ríkisins. Á mörgum ágætum fundum sem ég átti með þeim við upphaf þessa máls var það niðurstaðan að það væri eðlilegt að skipuð yrði nefnd til að fara ofan í þessi mál. Það var talið eðlilegt að í henni sætu hagsmunaaðilar. Hagsmunaaðilarnir voru: Forstjóri Rafmagnseftirlitsins, Bergur Jónsson, fulltrúi Sambands íslenskra rafverktaka, sem var valinn af öllum rafverktökum í landinu og hafði stuðning þeirra allra til að taka þátt í þessu nefndarstarfi, Félag ráðgjafarverkfræðinga og Samband íslenskra rafveitna. Þegar nefndin skilaði sínum tillögum voru allir nefndarmenn sammála um meginefni þessa frv., nema einn, forstjóri Rafmagnseftirlits ríkisins, Bergur Jónsson. Það sem menn hins vegar greindi á um var hvernig ætti að haga gjaldtökunni. Meiri hluti nefndarinnar var þeirrar skoðunar að gjaldtakan ætti að leggjast á eftir því hvar kostnaðurinn yrði til. Eða með öðrum orðum átti ekki að vera jafn kostnaður við rafmagnseftirlit í landinu öllu. Það var síðan mín ákvörðun að kostnaðurinn skyldi verða jafn, honum skyldi dreift á alla landsmenn og þannig kom frv. hér inn.

Um upphaf málsins var haft samráð. Það var mitt mat að það væri útilokað annað en leggja frv. fram með þessum hætti og tryggja framkvæmdina á því eftirliti sem verið hafði við lýði. Þegar ég segi að tryggja framkvæmdina er það vegna þess að það var framkvæmdin sem er óviðunandi. Ef menn lesa mótmæli rafverktaka víða um land, á Austurlandi, Vesturlandi, Norðurlandi eða hvar sem er, þá snúast þau ekki um skipulag kerfisins heldur segja menn: Það er ekki hægt að búa við þetta ástand í rafmagnseftirlitsmálum eins og það er núna. Af hverjum er þetta ástand metið svona slæmt? Jú, það er eftirlit Rafmagnseftirlits ríkisins núna þar sem tilkynningarnar frá rafverktökunum eiga berast inn til Rafmagnseftirlitsins, ég tók dæmi við 1. umr., ég man ekki nákvæmlega hve mörgum, en frá milli 20--30 rafverktökum á Austurlandi, hafði aðeins verið tilkynning um eina eða tvær veitur inn í hús. Á þennan hnút varð að höggva og það var þess vegna mitt mat að það væri nauðsynlegt að leggja frv. svona fram.

Í áliti minni hlutans er ágætis samantekt og hv. þm. Svavar Gestsson fór yfir það um hvað meginágreiningurinn snýst. Það er samantekt úr þeim álitum sem bæði ráðuneytinu og iðnn. hafa borist og mig langar að fá að svara þeim atriðum sem þar koma fram. Ég vonast til að það geti orðið til að greiða frekar fyrir umræðunni á eftir þannig að það sé ekki misskilningur um einstök atriði í þeim efnum. En fyrst aðeins varðandi kostnaðinn.

Því er haldið fram að kostnaðurinn muni tvöfaldast. Það er rangt, því miður. (Gripið fram í: Fjórfaldast.) Hann mun heldur ekki fjórfaldast. Hann mun verða talsvert miklu minni. Vegna þess að það var mat Sambands íslenskra rafveitna að heildarkostnaður við rafmagnseftirlit í landinu væri 200--240 millj. kr. við núverandi kerfi. Því hefur hins vegar verið haldið fram að það sé ekki nema 66 millj. kr. og það er rangt. (ÖJ: Fólk er að borga meira núna.) Hv. þm., ef menn líta á 14. gr. frv. og vilja kynna sér hana þá kostar gjaldtökukaflinn í 1. tölul. 14. gr., 14 millj. kr., 2. tölul. kostar 22,3 millj. kr., 3. tölul. 1,8 millj. kr., 4. tölul. 58,3 millj. og 5. tölul. 15 millj. eða samtals um 112 millj. kr. Með öðrum orðum er heildarkostnaður við rafmagnseftirlit í landinu minni eftir þessa breytingu nái hún fram að ganga. Það er verið að gera breytingar á núverandi kerfi með því frv. sem hér liggur fyrir. Það er verið að skýra verkaskiptinguna sem er óskýr í dag. Það er rétt að það er verið að festa í sessi meginhugmyndina í reglugerð frá 1993 en með þessu er verið að gera hlutina enn þá skýrari.

Ég vonast til að ég hafi skýrt um leið 1. lið þeirrar gagnrýni sem fram kemur í áliti minni hlutans.

Í öðru lagi óttast þingmaðurinn að kostnaður við skoðun húsveitna geti aukist verulega. Ég held að ég hafi svarað því líka að nokkru leyti. Varðandi að þetta verði dýrara á landsbyggðinni þá var sérstaklega á því gripið í þessu frv. Hv. þm. Stefán Guðmundsson hefur skýrt það þannig að ég held að það þurfi ekki frekari skýringa við. Ég tel að ýmsu af þeirri gagnrýni sem kemur fram í áliti minni hlutans á einstaka þætti og hvað megi betur fara sé svarað í áliti meiri hlutans. Um leið tel ég að með því sem ég hef nú sagt varðandi kostnaðinn sé gagnrýninni að langstærstum hluta svarað.