1996-12-20 06:41:21# 121. lþ. 52.10 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[30:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að þetta mál og annað því tengt sem er til umfjöllunar á hinu háa Alþingi á sér nokkuð sérkennilegan aðdraganda og bakgrunn þegar betur er að gáð. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég hefði gjarnan getað hugsað mér að ræða þetta mál við aðrar og hentugri aðstæður en hér er boðið upp á, en mér er ljóst að okkur er naumt skammtaður tíminn til fundahalda undir lok þinghaldsins fyrir jólaleyfið og því er ég í sjálfu sér ekki að kvarta undan því að þurfa að koma mínum athugasemdum á framfæri á þessum tíma sólarhrings þó það hljóti að teljast fremur óeðlilegur fundartími, sérstaklega í ljósi þess að það styttist í að við tökum til við fundahaldið á nýjan leik miðað við það sem upplýst var um fundahaldið í gærkvöldi. En ég sé mig knúinn til að koma með nokkrar athugasemdir, herra forseti, við frv. og samhengi þess við annað mál sem liggur fyrir þinginu, þ.e. frv. um svonefnda Löggildingarstofu. En málin eru mjög samhangadi eins og ég þykist vita að hæstv. forseta sé kunnugt.

Svo virðist sem á ferðinni sé annars vegar mál sem er að hluta til af hugmyndafræðilegum toga, tengist breytingum sem hafa dálítið verið í tísku upp á síðkastið og snúa að einkavæðingu og í raun kapítalíseringu og samkeppnisvæðingu svonefnds eftirlitsiðnaðar, sem eins og kunnugt er er sú grein íslensks iðnaðar sem hefur blómstrað mest á síðustu missirum, þ.e. eftirlitsiðnaðurinn. Að hinu leytinu til er verið að því er virðist að lögfesta reglugerð sem hefur gilt um þessi mál við misjafna hrifningu, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þannig er það að þetta mál er að verða eins og einn af gömlum kunningjum þegar það skýtur upp kollinum. Það á sem sagt að búa til yfirstofnun, eftirlitslöggildingaraðila sem hefur eftirlit með hinum eftirlitsaðilunum og þannig er okkur Íslendingum, ekki fjölmennari þjóð en þetta, 270 þúsund manns um þessar mundir, að takast að koma upp lagskiptu eftirlitskerfi á fjölmörgum sviðum og stórkostlegasta dæmið er auðvitað það sem allir þekkja: Fiskistofan okkar og skoðunarstofurnar undir henni. Það var mjög í tísku og þótti afar gott mál og fínt að slá af Ríkismat sjávarafurða og það fyrirkomulag sem við höfðum byggt upp og búið við um áratuga skeið og hafði skilað merkilega góðum árangri. Til dæmis þeim að Íslendingar þóttu framleiða einhverja bestu sjávarvörur í heimi og fengu fyrir það hærra verð heldur en samkeppnisaðilar yfirleitt á öllum mörkuðum, hvort sem í hlut áttu frystar vörur eða saltaðar. En menn voru alveg sannfærðir um að þetta hlyti að vera ómögulegt af því að þetta hét ríkis- eitthvað og lagt var upp í þann leiðangur að slá þetta af, búa til Fiskistofu, skoðunarstofur, eftirlitsmenn og alls konar einkaaðila sem fengu veiðileyfi á kúnnana og úr þessu varð, eins og ég segi, lagskipt eftirlitskerfi sem þegar upp er staðið er náttúrlega búið að draga til sín miklu meira fé og meiri mannafla en þann sem fyrir var. Það getur vel verið að menn trúi því að nú sé eftirlitið fullkomnara og allt það, en ég leyfi mér að halda því fram að þeir sem borga reikningana um þessar mundir hafi vissar efamsemdir um að þeir séu miklu betur settir en þeir voru á meðan Ríkismat sjávarafurða var og hét. Ég spyr mig að því, herra forseti, hvort hugsast geti að sagan sé hér með að endurtaka sig og menn, blindaðir af einhverri tískusveiflu af þessu tagi, séu að lenda á villigötum.

[30:45]

Málið er að því leyti til alvarlegra og kannski viðkvæmara og erfiðara, að hér eiga ekki bara undir viðskiptahagsmunamál eins og þegar um er að ræða útflutning á framleiðsluvörum, sem vissulega skiptir máli að séu gallalaus og standist kröfur, en kannski er ekki nema í undantekningartilvikum þá um líf og heilsu að ræða. En hér er líka á ferðinni öryggismál og það gerir auðvitað kröfu til þess að menn vandi sig enn þá frekar og lendi ekki í þeim ógöngum að láta tískusveiflur, kennisetningar og frasa bera sig ofurliði.

Herra forseti. Ég hef ekki haft mikinn tíma til að setja mig nákvæmlega ofan í hinar tæknilegu og faglegu hliðar málsins þó ég hafi reynt, en verð að notast aðallega við það að líta á þetta sem skipulagsatriði og spurningu um fyrirkomulag hvernig best sé að haga þessu en reyna þó að hafa einhverja nasasjón af því hvað í hlut eigi, þ.e. öryggiseftirlit hvað rafmagn snertir. Mér sýnist í grófum dráttum, ef ég leyfi mér að reyna að einfalda þetta hæfilega, hæstv. forseti, að um sé að ræða að leggja eigi niður opinbert og samræmt eftirlit og hverfa yfir í einhvers konar stikkprufur. Ég fer þá strax að spyrja mig að því hvort þetta sé það sem eigi að byggja á þegar um er að ræða slíka hluti. Við gætum velt fyrir okkur ýmsum sambærilegum eða að einhverju leyti hliðstæðum tilvikum hvort menn væru tilbúnir til þess gagnvart öryggi í samgöngum að fara bara út í hreinar stikkprufur t.d. varðandi sjóhæfni skipa eða ýmislegt því um líkt. Ég held nefnilega að ýmsir hlutir séu þannig vaxnir í eðli sínu að í raun þurfi að tryggja að hver einasta eining, að öll starfsemin uppfylli kröfur. Þar sé ekki nóg að veita aðhald í gegnum einhverjar stikkprufur. Og ég leyfi mér að halda að ástæða sé til að athuga það betur en gert hefur verið, herra forseti, hvort þessi einkavæðingarárátta sé að bera skynsemina ofurliði og góðir menn eins og hv. formaður iðnn. hafi jafnvel flaskað á þessu að einhverju leyti. (Gripið fram í: Um er að ræða stjórnunarkerfi, þú mátt ekki gleyma því.) Jahá. Það er auðvitað mjög mikilvægt og gaman að heyra það, en við hljótum þá líka að spyrja: Ef það heldur í þessu tilviki hlýtur það alveg eins að gera það annars staðar. Má þá ekki alveg eins treysta á innra gæðaeftirlit í flugsamgöngum, á sjó eða raunar hvar sem er þar sem líf og öryggi er einnig í húfi?

Herra forseti. Ég held nefnilega að aðeins þurfi að líta til þess hvers eðlis starfsemin er. Ég hef tekið þátt í umræðum um ríkisrekstur og einkarekstur og allt þar á milli býsna lengi og hef enga sérstaka fyrir fram sannfæringu í þeim efnum, að sumt eigi að vera hjá ríkinu og annað einhvers staðar annars staðar. Ég hef reynt að mynda mér ákveðnar viðmiðanir í þeim efnum og er t.d. þeirrar skoðunar almennt að undirstöðuþættir í velferðarþjónustunni eigi að vera á opinberri ábyrgð. En ég er líka þeirrar skoðunar að vissir þættir sem lúta að öryggi, lögum, reglum og öðrum slíkum þáttum í samfélaginu eigi líka að vera á opinberri ábyrgð. Af því að þrátt fyrir allt vilja menn búa í öruggu samfélagi og menn halla sér að yfirvöldum og hinu opinbera þegar að slíku kemur. Vegna þess að reynslan af hinu er blendin, það er bara staðreynd. Þess vegna er það að þrátt fyrir allar sveiflurnar í hugmyndafræði á liðnum áratugum og öldum hafa vissir hlutir, jafnvel í hákapítalískum ríkjum þar sem einkavæðingin og einkareksturinn er boðorðið, haldist á ábyrgð hins opinbera. Og það eru einmitt hlutir af þessu tagi sem lúta að öryggi þegnanna, lögum, reglu o.s.frv.

Síðan verðum við náttúrlega að horfa á það, herra forseti, hvað reynslan kennir okkur í sambærilegum tilvikum, hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig. Ég var að skoða þessi mál í gær og í dag og velti fyrir mér undir vissum áhrifum af reynslunni af Bifreiðaskoðun Íslands hf. og rifjaðist upp fyrir mér að einhver glæsilegasta einkavæðing, starfsemi af þessu tagi, sem við Íslendingar a.m.k. fram að þeim tíma höfðum upplifað, var þegar Bifreiðaeftirlit ríkisins, sem var ákaflega í tísku að skamma og agnúast út í, var einkavætt. Að vísu var þar um einokunarstarfsemi að ræða. Það var einkavætt eigi að síður og það voru einmitt hagsmunaaðilarnir í málinu sem tóku þann rekstur að sér. Það vill svo skemmtilega til að þegar ég fór að glugga í fylgiskjöl rakst ég allt í einu á þetta nafn, Bifreiðaskoðun Íslands hf., áður Bifreiðaskoðun ríkisins. Og ég fór að velta því fyrir mér: Getur að einhverju leyti hugsast að þarna sé verið að sækja reynslu í smiðju þess máls? Hafa hugsanlega að einhverju leyti sömu menn um vélað?

Hvað sem því líður er ástæða til að fara einmitt yfir og rifja upp hvernig þetta tókst. Hver var dómur reynslunnar, mér liggur við að segja dómur þjóðarinnar? Hann var sá að þetta hefði allt meira og minna versnað. Það hefði í raun gerst, svo merkilegt sem það nú var, að þegar einkaframtakið tók við því að skoða bifreiðar, þá náttúrlega snarhækkuðu gjaldskrárnar, því það varð að reka fyrirtækið með miklum hagnaði og þjónustan versnaði til mikilla muna. Mér er það mjög minnisstætt t.d. þegar góðir menn sem ég þekki til á Norðurlandi urðu allt í einu að fara að aka hundruð kílómetra til að láta endurskoða bifreiðar ef þær höfðu ekki verið í standi á réttum skoðunardegi eða eitthvað hafði komið upp á. Það var þjónustan sem þá tók við. Af þessu spruttu deilur, blaðaskrif og læti sem ég veit að menn muna. Ég er því ekki viss, herra forseti, um að það sé málinu endilega til framdráttar að menn rifji upp og setji í samhengi hvernig þetta hefur tekist til. Nú ætla ég ekkert að fara að tala meiðandi um fyrirtæki og stofnanir sem auðvitað eru að reyna að gera sitt, hvort sem þær liggja í eftirlitsiðnaði tengdum sjávarútvegi, landbúnaði, umferð eða öðru slíku. En mér sýnist það liggja þannig, herra forseti, því miður, að reynslan sé ekkert allt of góð af þessu, a.m.k. ekki á Íslandi. Þess vegna er ég ekkert viss um að það séu sannfærandi rök þó að menn telji sig hafa vísbendingar um að sums staðar úti í heimi sé þróunin í þessa átt. Ég held að við Íslendingar hljótum að þurfa að skoða þessi mál fyrst og fremst út frá okkar aðstæðum og hagsmunum og spyrja okkur að því, a.m.k. á meðan við höfum vald, sjálfstæði og fullveldi til að ákveða hlutina sjálfir, hvernig við viljum hafa þetta. Hvað sé líklegast til að þjóna okkar hagsmunum best.

Ég held eðli sínu samkvæmt að í einkarekstri, í starfsemi af þessu tagi, hljóti a.m.k. að þurfa að setja skorður og búa um hana þannig að hún snúist ekki upp í andhverfu sína gagnvart þeim markmiðum um þjónustu, verkefni og starfsemi sem við erum að leita eftir og keppa að. Það er t.d. alveg nauðsynlegt að svara því hvort við teljum að hagnaður, arðsemi í einkarekstri eigi heima í starfsemi af þessu tagi. Það væri fróðlegt að heyra hv. formann iðnn. fara aðeins yfir það t.d. hugmyndafræðilega, hvort hann telji að eftirlit varðandi öryggi, líf og heilsu fólks sé starfsemi af því tagi í samfélaginu að eðlilegt sé að menn stundi þar atvinnurekstur í einkaágóðaskyni, græði á því. Kannski komi menn hér og segja: Það verði bara að láta sig hafa það, því að þetta sé besta kerfið, að láta einkaaðila sjá um þetta, græða á því og þegar upp sé staðið sé það öllum til góðs. En hvað erum við þá orðnir, herra forseti? Þá erum við orðnir alveg 100% frjálshyggjumarkaðssamkeppnissinnar. Við erum komnir býsna langt, held ég, ef við teljum að samkeppnin og markaðurinn eigi að ráða lögum og lofum jafnvel á sviðum eins og þessum. Þá er orðið örstutt í það að einkavæða restina af starfseminni í landinu. Það er orðið örstutt í það ef öryggisþættir af þessu tagi eru seldir undir þau lögmál.

Við þurfum líka að hafa það í huga hvernig aðstæður verða a.m.k. fyrst um sinn á meðan slíkar breytingar væru að ganga í gegn. Er ekki næsta víst að menn hefðu tiltölulega sterka aðstöðu sem fyrstir færu af stað með starfsemi af þessu tagi, hefðu nánast a.m.k. veiðileyfi, svo ekki sé sagt einkaleyfi á kúnnann. Þannig upplifa margir sig sem þolendur gagnvart þeim eftirlitsiðnaði sem hefur verið hleypt af stokkunum á fjölmörgum sviðum á undanförnum árum og sér stað í gjaldskrám og útgjöldum fyrirtækja atvinnulífs og heimila í stórum stíl. Það er fróðlegt fyrir menn að kynna sér það, fara í heimsóknir í fyrirtæki og sjá vottorðin sem t.d. útflytjendur á sjávarafurðum, eldisfiski eða ýmsum slíkum vörum þurfa að greiða allt upp í fjórfalt áður en þeir koma vörum úr landi til að fullnægja öllu eftirlitsfarganinu. Af hverju þarf þetta að vera svona flókið, lagskipt og mikið? Jú, það er vegna þess m.a., herra forseti, að þegar upp er staðið treysta menn yfirleitt ekki að lokum neinum í þessum efnum nema hinum opinbera aðila. Hver var hinn beiski lærdómur einkavæðingarsinnanna og frjálshyggjuliðisins í sambandi við einkavæðingu Ríkismats sjávarafurða? Jú, hann var sá að kerfið sem frjálshyggjumennirnir ætluðu að setja upp fékk falleinkunn hjá Evrópusambandinu. Af hverju var það? Af því að menn ætluðu að framselja eftirlitsvald ríkisins í hendur einkaaðilum. Þá sagði Evrópusambandið: Nei, kemur ekki til greina. Við treystum engum stimplum nema þeim sem eru á ábyrgð eða á vegum hins opinbera. Og ef einhverjir aðilar eru að annast gæðaeftirlit, vottun, gera úttekt á húsnæði eða aðstöðu, þá skulu þeir veskú vera löggiltir af opinberum eftirlitsaðila til að við tökum mark á því. Í gegnum þetta allt saman gengum við á síðasta kjörtímabili og niðurstaðan varð sú að hafa varð opinbera eftirlitsstofnun ofan á öllu saman til að hinn merki aðili, Evrópusambandið, tæki mark á vottorðunum. Hér eru menn í raun að fara út á svipaðar brautur. Það er verið að búa til lagskipt eftirlitskerfi með alls konar fíneríi í toppinn, stofnun með stjórn, forstjóra og fíneríi, sem sagt silkihúfum ofan á öllu saman. Mér er sagt meira að segja að stjórnin sé þegar til í Löggildingarstofunni og þar sé í formennsku mæt framsóknarkona af Suðurnesjum. Herra forseti. Þetta er auðvitað mikið umhugsunarefni.

[31:00]

Það er sömuleiðis umhugsunarefni að í reynd er hér verið að stórauka miðstýringu í þessu máli. Það er verið að flytja störf, næsta örugglega, af landsbyggðinni og í þéttbýlið með því að þessum rekstri verður stýrt héðan og hann verður gerður út héðan. Það er næsta ljóst. En í hinu opinbera eftirlitskerfi í einu lagi er hægt að byggja starfsemina upp þar sem hún þarf og á að vera og fara fram með starfsmönnum í héraði. En með þessu frv. er verið að stíga risaskref í áttina til aukinnar miðstýringar. Og það er auðvitað mikið umhugsunarefni að jafnágætur byggðapólitíkus og hv. þm. Stefán Guðmundsson skuli vera ein af helstu jarðýtunum á bak við þetta mál. Það er nokkuð merkilegt.

Síðan neyðist ég, herra forseti, til að gera athugasemdir vegna hluta sem mér hafa verið að verða betur ljósir á allra síðustu sólarhringum. Það er því miður það sem oft áður hefur gerst, þ.e. framkoman við starfsfólk í þessu sambandi. Í raun og veru er það heldur ljót saga sem ég hlýt að segja af því máli vegna þess að okkur sem höfum fjallað um mál þessu tengd í efh.- og viðskn. var sagt að um þessar breytingar væri hin besta samstaða. Þá kem ég að því, herra forseti, sem ég hlýt fá að gera að umtalsefni í bland, að í efh.- og viðskn. hefur verið til umfjöllunar mál þessu tengt, frv. um svonefnda Löggildingarstofu. Þegar gestir komu til okkar og upplýsingar voru reiddar fram um það mál var fullyrt að um þetta mál væri meira og minna hið besta samkomulag þangað til við sumir einstakir nefndarmenn fórum að leggja okkur eftir upplýsingum úr fleiri áttum um þetta mál. Þá fór ýmislegt, því miður, að koma í ljós. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef í grundvallaratriðum breytt um afstöðu til þess máls. Mér sýnist það vera allt hið furðulegasta eftir því sem ég fæ um það meiri upplýsingar og það má svo sem koma fram hér, sem hvort sem er mun gera, að ég mun kalla aftur stuðning minn við það mál, herra forseti, og leggja fram frhnál. við 3. umr. um frv. til laga um breytingu á lögum um Löggildingarstofu, ósköp einfaldlega í ljósi nýrra upplýsinga sem hafa verið að koma fram og þá ekki síst það að þessar breytingar virðast vera gerðar án nokkurs samráðs við starfsfólk, bæði starfsfólk Rafmagnseftirlits og Löggildingarstofu, kokkaðar einhvers staðar úti í bæ á grundvelli einhverrar hugmyndafræði sem er þessu ágæta fólki sem þar vinnur afar framandi.

Það hefur síðan, herra forseti, verið að verða öllum ljóst sem með þessu hafa fylgst að það hefur gosið upp mikill ágreiningur um þetta mál. Allir fagaðilar í heilu landshlutunum meira og minna hringinn í kringum landið virðist vera algerlega á móti þessu máli. Það er nokkuð sérkennilegt ef það er eins og það skipti engu máli. Ég veit ekki hversu mikil mótmæli hafa borist af Suðurlandi, en hæstv. forseti er kannski fær um að upplýsa okkur um það. Hér hefur verið vitnað í samþykktir og ályktanir bæði fagaðila og samtaka um austanvert, norðanvert og vestanvert landið og þá eru menn langleiðina komnir hringinn eins og kunnugt er. Þá spyr maður sig að því, herra forseti: Bíddu nú við, er einhver slík knýjandi nauðsyn til að afgreiða þessi mál þegar slíkir hlutir koma upp og nýjar upplýsingar koma fram, forsendur undir málum breytast á síðustu sólarhringum í þinghaldinu, að það þurfi að hamast með offorsi, með næturfundum og morgunfundum, á slíkum málum?

Síðan vakir það, herra forseti, í þessu máli að það á að sameina Löggildingarstofuna og Rafmagnseftirlitið. Það virðist líka vera á góðri leið með að verða hið furðulegasta mál þegar betur er að gáð. Í fyrsta lagi er ekkert endilega sjálfgefið að faglega sé það rakið að þetta heyri saman. Í öðru lagi hvernig að því er staðið og hvernig að því er unnið. Og enn furðulegast sýnist mér, herra forseti, að áður en þessi nýja stofnun verður til hefur hæstv. ráðherra falboðið forstöðumannsstarfið manni sem reyndar er í annarri stöðu og það er allt að verða hið skrýtnasta mál, leyfi ég mér að segja, herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að nefna það aðeins hér af því að það hangir saman við þá stofnun sem við erum hér að ræða, sem sagt Löggildingarstofuna sem á að taka við hlutverki og verkefnum þeirra tveggja stofnana sem fyrir eru.

Þá vaknar sú spurning hvort ekki hafi átt að vera um venjulegt fyrirbæri að ræða í þeim skilningi að störf, ef þau væru laus, væru auglýst. Það væri auglýst eftir umsóknum og mönnum væri gefinn kostur á að sækja um og hæfasti maðurinn valinn eða hvort þarna sé einhver önnur tilhögun ráðgerð. Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, í ljósi blaðafregna og umræðna af þessum sérstaka anga málsins, að hæstv. ráðherra hafi boðið tilteknum opinberum embættismanni þetta starf, að við fáum í umræðuna upplýsingar um það hvernig það mál er vaxið. Nú þekkir ræðumaður til þessa tiltekna manns og vill ekkert nema gott um hann segja og veit mætavel að hann er manna hæfastur til að taka að sér nánast hvaða verkefni sem er af þessu tagi. Mín orð lúta því ekki að því, nema síður sé, að því væri ekki vel skipað þar sem hann er. Hitt er auðvitað nokkuð skondið og sérkennilegt að sömu klukkutímana og verið er að ræða um lagafrumvörp til að koma á þessari sameinuðu stofnun, tvíheilögu stofnun hæstv. ráðherra, þá skuli hann einmitt með bréfum vera að bjóða falt forstöðumannsstarfið manni sem menn héldu og vissu ekki annað en væri fyrir í ágætu starfi, jafnvel frekar tveimur en einu. Ég veit að auðvitað mun hæstv. ráðherra ekki telja það eftir sér að veita okkur allar upplýsingar um þetta mál. Það kann að skipta einhverju þegar menn eru að gera upp afstöðu sína til þessara hluta hvort þegar sé búið að ganga frá því að mjög hæfur maður taki við því að leiða stofnunina fyrstu skrefin á vegferðinni. Einnig væri þá fróðlegt að heyra hvernig því verður við komið, herra forseti, miðað við venjur um ráðningu opinberra starfsmanna, auglýsingu á lausum stöðum og öðru slíku. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra veiti okkur í þessu samhengi upplýsingar um þetta mál.

Herra forseti. Ég geri þessar athugasemdir við þetta mál, sem lúta bæði, að má segja, hinum skipulagslega þætti þess, hinum pólitíska, og að nokkru leyti hinum faglega, hvað varðar öryggisþáttinn sem hér er á ferðinni. Fyrir því hef ég fyrst og fremst orð viturra manna sem komið hafa að máli við mig og mælt varnaðarorð í mín eyru, jafnvel skrifað í blöð, hvað ég hef lesið að þarna sé verið að ganga afar óvarlega fram gagnvart mikilvægum öryggisþætti sem menn mega ekki sýna neinn glannaskap. Ég tel mig hins vegar geta metið alveg sæmilega hinn stjórnsýslulega og pólitíska þátt málsins og ég verð að segja alveg eins og er að þau rök duga skammt til að sannfæra mig. Ég hef ekki séð að reynslan af sambærilegum æfingum á undanförnum missirum í einkavæðingarfárinu, til þess að einkavæða meira og auka olnbogarýmið fyrir þennan einkavinavædda eftirlitsiðnað til að dafna, hafi gefið mjög fagurt fordæmi. Mér finnst satt best að segja alveg stórfurðulegt að jafnmætur maður og íhugull og hv. 3. þm. Norðurl., Stefán Guðmundsson, gjarnan er, skuli lenda í þessa sporaslóð og trúi að þar séu kannski kringumstæðurnar sem ráði mestu um af því að hv. þm. er náttúrlega trúr sínum arfakóngum, hæstv. ráðherrum, en eins og kunnugt er, herra forseti, eru þeir flokksbræður hæstv. ráðherrann og hv. þm.

Pólitískt liggur málið náttúrlega einnig þannig að það er umhugsunarefni að það skuli nú vera hlutskipti Framsfl., sem var með okkur á síðasta kjörtímabili í því að gagnrýna ýmislegt sem þá var að gerast af þessu tagi, m.a. æfingar á þessu sviði sem stóðu til og voru uppi með reglugerðarsetningum og öðru slíku, að standa fyrir því sem hann varaði gegn á síðasta kjörtímabili. Það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann, segir einhvers staðar og á kannski við hér um Framsfl.

Að lokum, herra forseti, er það mín niðurstaða, sem ég hef verið að reyna að rökstyðja hérna stundarkorn í morgunsárið, að þessi mál séu ekki nógu vel undirbúin. Ég hef ekki sannfærst um það á nokkurn hátt að þau liggi efnislega þannig að þau sé skynsamlegt að afgreiða. Enn síður hef ég sannfærst um að þau liggi þannig í tímanum að nú, akkúrat nú í önnum þinghaldsins á síðustu klukkustundunum áður en þing fer í jólaleyfi, þurfi hæstv. iðnrh. endilega að drífa þetta fram með offorsi. Ég hélt að hæstv. ráðherra teldi sig hafa annað og meira á könnunni en smámál af þessu tagi svo sem eins og álfabrikkur og ýmislegt því um líkt sem er nú í tísku að iðnaðarráðherrar telji vera merkustu bautasteina sem þeir geta reist sér. Þess vegna hef ég haldið að hæstv. ráðherra gæti leyft þessu að jafna sig fram á nýárið og hlíft hv. þm. Stefáni Guðmundssyni við því að vera að puða þetta með málið. (Gripið fram í.) Það er aldrei að vita nema inni í sér sé hv. þm. farinn að vorkenna sér í þessu hlutverki, en hann ber ekki harma sína á torg eins og kunnugt er heldur ber hann harm sinn í hljóði og gerir það karlmannlega. Það er alveg hárrétt.

Herra forseti. Ég hlýt að mælast til þess að menn fari að meta stöðuna í þessari umræðu og hvað varðar meðferð þessara mála. Það hefur legið fyrir að um þessi mál, a.m.k. það sem hér er til umræðu, væri mjög djúpstæður ágreiningur. Það var mönnum ljóst og hefur verið allan tímann í sambandi við lúkningu þinghaldsins að um þetta mál væri ósamið og fjölmargir þingmenn hefðu á þessu máli miklar skoðanir sem ekki yrðu þaggaðar niður. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart. Og þess þá heldur sem málin eru í raun og veru tvö sem eru samsíða til umfjöllunar frá tveimur hv. þingnefndum.

Herra forseti. Að allra síðustu fer ég í allri vinsemd fram á það með tilliti til þess að nú morgnar senn og það er löngu orðið miklu meira en áliðið, eins og forseti sagði fyrr í umræðunni, að forseti fari nú að meta það hvort ekki sé tímabært að gera hlé á þessari umræðu og skoða málin þegar bjart er orðið á ný. En langgáfulegast er að láta þessi mál liggja þar sem þau eru nú stödd.