1996-12-20 07:19:36# 121. lþ. 52.10 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, GE
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[31:19]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að setja á langa umræðu enda er ég að koma í annað skipti að þessu máli. En ég fór yfir, herra forseti, í fyrri ræðu minni hvernig nefndaskipanin átti sér stað. Út frá þeim hugleiðingum dró ég fram stjórnsýslulögin og ég stend hér með efasemdir um það mál. Ég ætla ekki að tefja að 2. umr. ljúki sem slíkri en ég þarf að fara örlítið yfir þetta.

Ég nefndi að fimmti fulltrúinn, Gunnar Ingi Gunnarsson, er einn af aðaleigendum skoðunarstofunnar Skoðunar hf. og ég nefndi að Ófeigur Sigurðsson væri frá Rafskoðun hf. Þessir menn voru í nefnd sem vann að undirbúningi lagasetningarinnar. Í stjórnsýslulögum segir, með leyfi forseta, að þessi lög gildi ekki um samningu reglugerða né almennra stjórnvaldsfyrirmæla. Ég lít svo á, herra forseti, að hér sé um meira að ræða en almenn stjórnvaldsfyrirmæli. Ég álít að um sé að ræða lagasetningu sem hefur víðtækara gildi en það sem hér er um að ræða.

Ég spurði spurninga í fyrri ræðu minni sem ég hef ekki fengið svör við. Ég vil ítreka þær:

1. Er um hagsmunatengsl einstakra nefndarmanna sem sömdu frv. að ræða?

2. Hvernig verður úrtaksfjöldi til skoðunar á virkjum eða veitum ákveðin?

3. Hvernig ætla menn að deila kostnaði? Eiga allir að borga jafnt eða hvernig verður skiptingin?

4. Eru það sömu aðilar sem eiga að skoða smáar og stórar veitur?

Ég hef, herra forseti, fyllstu ástæðu til að spyrja þessara spurninga út frá þeim svörum sem komu einhvern tímann fyrr í nótt eða fyrr í morgun frá hv. formanni iðnn. varðandi hvernig skoðanir eru framkvæmdar í Danmörku.

5. Hvaða fagaðilar munu annast yfireftirlit?

6. Hvernig á að framkvæma gamalskoðun í landinu?

7. Með hvaða hætti verður það tryggt að allir neytendur sitji við sama borð?

Herra forseti. Ég rakti nákvæmlega aðstæður einstakra nefndarmanna og fer yfir það aftur. Ég vona að ég hafi ekki haft í frammi ómaklegar ábendingar. Ég hef ekki heyrt andmæli við ræðu minni um hagsmunatengsl. Því hlýt ég að telja að ákveðnir einstaklingar hafi verið vanhæfir í nefndinni og þess vegna óska ég eftir að á milli 2. og 3. umr. verði kveðinn upp úrskurður um það hvort um vanhæfni er að ræða. Ef svo er þá tel ég að málið verði að fara samkvæmt vísan minni hluta iðnn. til skoðunar hjá hæstv. ríkisstjórn. Það getur ekki gengið fyrir sig á annan máta. Og ef ég fer aðeins yfir þetta mál þá eru vanhæfisástæður þær, með leyfi forseta, að starfsmaður er vanhæfur til meðferðar máls ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila. Það er meira að segja svo að ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar. Svona er þetta þegar maður fer í gegnum þessi mál. Ég veit að hæstv. iðnrh. mun skoða þetta mál með tilliti til þess sem ég er að segja hér. Af þeirri ástæðu tel ég að það sé kannski ekki ástæða til að fara frekar í gegnum málið en þó er það svo af því að hv. formaður iðnn. er að lýsa því hvernig skoðanir fara fram í Danmörku að þá er ég með bréf, reyndar á dönsku, herra forseti, og ég vona að mér sé heimilt að lesa það upp á dönsku. Ég skal reyna að þýða það jafnóðum, bréfið hljóðar svo:

,,Jeg har lovet Christian at sende dig lidt om hvorledes vi har organiseret vores tilsyn. Vi har opdelt vores tilsyn på højspændingsanlæg, lavspændingsanlæg og markedskontrol.``

Þetta þýðir að þeir hafa skipt eftirlitinu sínu á háspennukerfi, lágspennukerfi og síðan við tækjaeftirlit. Og áfram segir:

,,På højspændingsanlæg som primært er elskabendes anlæg samt anlæg hos større virksomheder foretager vi ikke et egenligt tilsyn.``

Þeir segja að á háspennukerfum eða einföldum kerfum rafveitnanna ásamt kerfum hjá stærri fyrirtækjum fari ekki fram eiginlegt eftirlit. En þeir segja samt:

,,Vi har en medarbejder dersom konsulent besøger selskab\-erne idet vores tidligere erfaringer viser at det sjælden er noget galt med disse institutioner.``

Þeir segja: Við erum með starfsmann sem fulltrúa er heimsækir fyrirtækin þar sem okkar reynsla sýnir að það er sjaldan nokkuð að hjá þessum kerfum. Aftur á móti getur verið um nokkurt óöryggi að ræða um túlkun á þessum ákvörðunum. Síðan er sagt, og ég reyni þá að þýða þetta beint: Á lágspennuvirkjum eða kerfum höfum við fært eftirlitið til rafmagnsfyrirtækjanna þannig að þeir sjá um eftirlit með 10% af nýjum uppsetningum á rafkerfum eða í stærri fyrirtækjum.

Það er því alveg klárt mál, eins og ég hélt fram áðan, að innra eftirlit fer fram í stærri fyrirtækjum og hjá rafveitum þannig að ég velti því fyrir mér: Hvað þýðir þetta? Erum við að fara út í þetta kerfi, sem ég er að lýsa, eða erum við að fara út á þá braut að skoðunarstofur eigi að framkvæma þetta eftirlit? Ég tel að það skipti miklu máli á hvern hátt þetta verður útfært. Það skiptir mjög miklu máli.