1996-12-20 07:28:06# 121. lþ. 52.10 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[31:28]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál í þessari umferð. Ég hef farið áður nokkuð rækilega yfir málið, sett fram ýmsar spurningar en þó er eitt atriði sem mig langar til að spyrja hæstv. iðnrh. nánar út í og það snertir mannahald. Reyndar er ýmislegt í frv. sem snertir mannahald þess eðlis sem vert væri að ræða. En eins og kunnugt er er til umfjöllunar að sameina tvær stofnanir, Löggildingarstofuna og Rafmagnseftirlit ríkisins. Yfir þeirri stofnun á að vera forstjóri en þess er sérstaklega getið að hann skuli vera háskólamenntaður. (Iðnrh.: Er Björn það ekki?) Er Björn það ekki? spyr hæstv. iðnrh. kannski fremur í gamni en alvöru. En spurningin er þessi hvaða háskólamenntun er um að ræða sem forstjóri Löggildingarstofu þarf að hafa? Ekki þannig að mér finnist það skipta öllu máli en hitt finnst mér orðið umhugsunarvert þessi háskólamenntunarárátta sem kemur fram í frv. frá löggjafanum nú um stundir. Það má varla skipa nefnd í stjórnsýslunni án þess að þar sitji einstaklingur sem hafi lögfræðipróf upp á vasann og geti rekið mál fyrir dómstólum. Mér finnst löggjafinn vera að ganga of langt í þessa veru. Iðulega er verið að sækjast eftir einstaklingum sem eru góðir stjórnendur og það er ekkert bundið við háskólamenntun að hafa slíka hæfileika. Mér finnst mjög vafasamt að útiloka einstaklinga, sem gætu verið vel til þess fallnir að sinna stjórnsýslunni, hafi þeir ekki háskólapróf upp á vasann. En þetta er efnisatriði sem mig langaði til að koma á framfæri. Mér finnst þetta koma víða fram í lagasmíð frá Alþingi.

[31:30]

Það sem mig langaði til að spyrja hæstv. iðnrh. út í tengist mannahaldi vegna þess að í umsögn um frv. til laga um Löggildingarstofu frá fjmrn. þar sem tekið er fram að hér sé verið að sameina tvær stofnanir segir að það muni koma fram í fækkun starfsliðs. Mig langar til að spyrja hæstv. iðnrh. nánar út í þetta. Verði þessi frv. að lögum kemur það til með að leiða til uppsagna? Munu einstaklingar missa atvinnu sína fyrir vikið? Í því sambandi langaði mig sérstaklega til að vekja athygli á einu atriði. Það er að hér er um mjög umdeilda lagasmíð að ræða þar sem starfsmenn hafa látið talsvert til sín taka. Menn hafa sinnt hlutverki sínu sem trúnaðarmenn, sem ég tel vera mjög mikilvægt, að verja trúnaðarmenn og þeirra réttindi. Það er mjög mikilvægt fyrir lýðræðisþjóðfélagið að búa svo um hnútana að þar geti menn alltaf gengið uppréttir. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann er ekki sammála mér um að það sé mikilvægt fyrir stofnanir, hvort sem þær eru á vegum ríkis, sveitarfélaga eða einkaðaila, að þar innan veggja gangi einstaklingar beinir í baki með sínar skoðanir og geti haldið þeim fram óáreittir jafnvel þótt þær kunni að stríða gegn yfirvaldinu að einhverju leyti. Fleiri ætla ég ekki að hafa orð mín í þessari umræðu, hæstv. forseti.