1996-12-20 07:35:40# 121. lþ. 52.10 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[31:35]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Frá því að ég talaði í fyrra sinn hafa komið nokkrar spurningar og í örfáum orðum skal ég reyna að svara þeim og hafa það eins skýrt og nokkur kostur er.

Fyrst er spurt hvort það fyrirkomulag sem hér hefur að nokkru leyti verið við lýði en á að betrumbæta og byggja enn frekar upp sé nokkurs staðar annars staðar við lýði í löndunum í kringum okkur. Það er ljóst og menn þurfa ekki fara í grafgötur með það að forstjóri Rafmagnseftirlits ríkisins og einstakir menn þar innan dyra hafa verið andsnúnir því að þetta kerfi væri tekið upp. Þá um leið reyni ég að svara spurningu hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Þessir menn hafa fengið að vera með sínar skoðanir alveg í friði fyrir stjórnvaldinu þrátt fyrir það að við höfum vitað hver þeirra afstaða væri. Við höfum ekki verið að gera athugasemdir við það að þessir starfsmenn Rafmagnseftirlitsins hefðu aðra skoðun en þá meginstefnu sem stjórnvaldið hefur í að koma þessu á. En á vegum þessara manna og Rafmagnseftirlitsins var tekin saman skýrsla um fyrirkomulag rafmagnsöryggismála á Norðurlöndum og má ég þá vitna til nokkurra landa:

Danmörk. Í Danmörku eru 10% allra nýrra neysluveitna skoðaðar og eru það starfsmenn rafveitna sem framkvæma slíkt eftirlit í umboði rafmagnseftirlitsins þar. Þar er engin skoðun á neysluveitum í rekstri, þ.e. engin skoðun fer fram á gömlum veitum

Noregur. Þar er vitnað í fulltrúa sem þeir áttu tal við og sagt að fyrir dyrum standi að breyta eftirliti með nýjum neysluveitum og neysluveitum í rekstri í úrtaksskoðanir ásamt því að auka ábyrgð rafverktaka með eigin verkum, m.a. með aukinni áherslu á yfirferð eigin verka. Framkvæma tilskildar mælingar og tilkynna verkin til rafveitna. Hvað er þetta? Það fyrirkomulag sem þarna er verið að tala um að byggja upp í Noregi í byrjun janúar 1995 er fyrirkomulagið sem við erum að byggja upp hér hjá okkur. Sama gildir um háspenntu raforkuvirkin.

Finnland. Fyrirkomulag rafmagnseftirlits í Finnlandi mun á næstunni breytast, og þetta er sagt í byrjun janúar 1995, í þá veru að SETI, það er sjálfsagt hið opinbera rafmagnseftirlitsfyrirtæki þar, hættir framkvæmd eftirlits og verður fyrst og fremst stjórnvald sem mun setja reglur um rafmagnsöryggismál, fella úrskurði og hafa yfireftirlit með fagmönnum og þeim aðilum sem í framtíðinni munu sjá um framkvæmd rafmagnseftirlits. Rafveitur munu alfarið hætta framkvæmd rafmagnseftirlits en fela það einkaaðilum með tilskilin réttindi. Rafmagnseftirlit mun verða í formi úrtaksskoðana. Hvað þýðir þetta? Þetta skiljum við allir sem höfum tekið þátt í þessari þungu umræðu í kvöld. (Gripið fram í.) Ekki rétt? (Gripið fram í: Engin vandamál.) Engin vandamál.

Sama gildir um Svíþjóð þannig að ég þarf ekki að vera að lesa meira upp úr þessari skýrslu. (Gripið fram í: En á Nýja-Sjálandi?) Ég var ekki spurður um Nýja-Sjáland, hv. þm., og vegna þess að ég var ekki spurður og hef ekki dýpri þekkingu á málinu en það þá hef ég ekki svör á reiðum höndum hérna úr ræðustólnum. Ég er ekkert viss um að þetta fyrirkomulag sé í Nýja-Sjálandi þó þar sé margt til fyrirmyndar eins og við þekkjum báðir og ríkisstjórnin hefur verið að fá fyrirlesara og BSRB hefur verið að fá fyrirlesara til landsins til að kynna sér ástand mála þar og þá nýju hugsun sem þar er verið að innleiða. (ÖJ: Sem víti til varnaðar.) Þar sýnist mönnum reyndar sitt hvað í þeim efnum. Þá held ég að ég hafi svarað þeirri spurningu hvernig þetta er í löndunum í kringum okkur sem við viljum helst spyrða okkur saman við.

Hv. þm. Gísli Einarsson spurði um gamlar veitur. Þær eru margar, það er alveg hárrétt. Sennilega þúsundir, það er rétt hjá hv. þm. Þær eru ekki bara í Reykjavík, þær eru um allt land. En það sem er þó gleðilegt við Reykjavík er þetta: Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur verið að gera átak í þessum efnum að undanförnu og náð árangri. En til þess að búa ekki lengur við það ástand að þar sé ekkert skoðað þá gefst með þessum lögum það tækifæri að Rafmagnseftirlit ríkisins bjóði út eftirlitið á gömlu veitunum. Þá er spurt: Hvernig verður það kostað? Þá vitna ég til 4. tölul. 14. gr. frv. sem er sameiginlega greiðslan. Eða ef við viljum nefna það því fína nafni, félagslega greiðslan.

Hv. þm. spurði einnig: Hvað segja tryggingafélögin? Það er eðlilegt að spurt sé því þeirra hagsmunir ættu að vera þarna að einhverju leyti í húfi. Þeim hefur verið boðin þátttaka í þessu starfi. Það var afþakkað. Þetta er svarið.

Hver borgar úttektirnar þegar um úrtaksskoðun er að ræða? Þessu svaraði hv. formaður iðnn. ágætlega áðan og þarf ekki að endurtaka það. En menn kunna líka að spyrja: Hver greiðir þetta? Þetta er greitt af félagslega liðnum, 4. tölul. 14. gr. frv. Hvernig er útakinu háttað? Hv. formaður iðnn. svaraði því áðan líka.

Hv. þm. Gísli Einarsson og Ögmundur Jónasson spurðu báðir: Hvað verður um fyrrverandi, sem enn eru nú ekki orðnir, starfsmenn Rafmagnseftirlits ríkisins? Í frv. um Löggildingarstofuna er ákvæði um að starfsmenn skuli að öðru jöfnu sitja fyrir um sambærileg störf hjá hinni nýju stofnun. Þeir starfsmenn sem verða ráðnir til starfa hjá hinni nýju stofnun, að undangenginni auglýsingu, eins og skylt er samkvæmt lögum, munu halda fyrri réttindum sínum samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þessi lög þekkir enginn betur en hv. þm. Ögmundur Jónasson. Þetta varðar t.d. fyrirframgreiðslu launa, biðlaunarétt, makalaun, og lausnarlaun vegna heilsubrests --- tekur á öllum þessum þáttum. Af þessu leiðir að yfirleitt verður engin breyting á réttarstöðu starfsmanna sem kunna að ráðast til starfa hjá hinni nýju stofnun og í frv. eru gerðar ráðstafanir, sem meginreglur laga heimila, til að tryggja að réttarstaða starfsmanna verði óbreytt. Við höfum búist við því að þetta frv. gæti orðið að lögum nú fyrir jól. Til þess að vera sem best undirbúnir og aflétta sem allra fyrst því óvissuástandi sem er í rafmagnseftirlitsmálum og öryggismálunum þá erum við auðvitað farnir að undirbúa það að þessi sameinaða stofnun, geti tekið til starfa. Þar hefur ekki verið ákveðið að ráða einstaka starfsmenn á þessu stigi enda væri það óeðlilegt. En ég segi: Við viljum reyna eftir megni að skapa öllum þessum starfsmönnum störf við þessa nýju stofnun.

[31:45]

Það er hins vegar alveg rétt, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson vitnaði til, að í umsögn fjmrn. um Löggildingarstofuna er gert ráð fyrir því að spara tiltekna upphæð því það þurfi að ná fram hagræðingu. Það getur þýtt að menn þurfi að fækka starfsmönnum ef menn horfa á heildarsummuna af núverandi starfsmannafjölda beggja þessara stofnana. En við munum leggja okkur fram í þessum efnum eftir því sem nokkur kostur er. Það getur líka vel farið svo, og það verða menn að hafa í huga, að þegar verið er að slá saman tveimur ríkisstofnunum þá gerist það ekki á einni nóttu. Það tekur ákveðinn tíma. Það er mikilvægt að það gangi hægt og rólega fyrir sig og í góðri sátt þannig að því miður er ég ekki viss um að þessi sparnaður muni nást árið 1997 eins og stefnt er að. En náist hann ekki akkúrat þarna þá verður iðnrn. að bera þann sparnað af öðrum liðum hjá sér þannig að þetta verður innan heildarramma iðnrn. Þetta þýðir ekki að hægt sé að fresta þessari ákvörðun um að ráðast í þessa aðgerð, alls ekki, vegna þess að það er alveg sama hvenær í hana verður ráðist, það mun taka tíma og það mun kosta nokkra peninga að koma þessum stofnunum saman

Menn hafa dálítið gert úr því og velt því fyrir sér, bæði hv. þm. Gísli S. Einarsson og hv. þm. Ögmundur Jónasson, að hugsanlega sé þarna um hagsmunatengsl á milli aðila að ræða, þ.e. þeirra aðila sem voru skipaðir í nefndina. Ég hafna því algjörlega. Þegar ég segi þetta þá ætla ég samt að láta skoða það ákvæði lagalega nú milli umræðna sem hv. þm. Gísli S. Einarsson vitnaði til og fá úr því skorið. En ég hafna þessu á þeirri forsendu að þarna er verið að undirbúa mál. Það er verið að vinna að undirbúningi máls. Það er fyrst framkvæmdarvaldsins, sem ákveður að leggja málið fyrir þingið, og síðan löggjafans að taka ákvörðunina. Þarna er ekki verið að taka ákvörðun, stjórnsýslulögin taka til þess þegar verið er að taka ákvörðun. Þarna verður einhver breyting á. En þetta mun ég láta skoða.

Ég held, virðulegi forseti, að ég hafi svarað öllum þeim spurningum sem til mín hefur verið beint. Fyrir utan það að ég tel að þetta mál liggi fyrir þinginu alveg skýrt. Það er ekki um kostnaðarauka að ræða fyrir fólkið í landinu, heldur mun frv. leiða til sparnaðar verði það að lögum. Það er ekki um misrétti að ræða. Það er ljóst hvernig kostnaður fellur á, hver mun greiða hann. Það er ekki um misrétti milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis að ræða heldur segi ég að það eru meiri möguleikar nú en nokkru sinni fyrr til að færa að miklu leyti eftirlitið út á land, í heimahéruðin, með því að faggilda þar aðila til að sjá um þessa hluti, með því að Rafmagnseftirlitið bjóði þessa hluti út til faggiltra stofa á ákveðnum stöðum og þá eru heimammenn í miklu betri aðstöðu til að ná slíkum útboðum ef vilji er fyrir því hjá heimamönnum að leita eftir slíku. Þannig að á allan hátt þá er þetta frv., verði það að lögum, til þess að styrkja rafmagnsöryggismál í landinu, til að koma á skýrri verkaskiptingu innan málaflokksins og treysta stöðu landsbyggðarinnar, ekki síst, í þessum efnum.