1996-12-20 07:49:49# 121. lþ. 52.10 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[31:49]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að umræða mín og hugsun hefur beinst að því að komið verði á og viðhaldið sem mestu öryggi fólks og húseigna gegn hættu á slysum og tjóni af völdum rafmagns. Að því hefur umræða mín beinst einvörðungu og síðan að halda niðri kostnaði.

Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur verið. Hún hefur verið málefnaleg. Því hefur verið svarað sem um hefur verið spurt, hvað sem mönnum finnst svo um spurningarnar. Ég átti satt að segja von á harðari mótbárum við því sem ég hef verið að segja. Ég er að sjálfsögðu ekki fullsannfærður en ég vona að svo fari sem hæstv. iðnrh. og hv. formaður iðnn. hafa láta að liggja. En ég viðurkenni að ég er ekki fullkomlega sannfærður og það er í ljósi þess, herra forseti, sem ég gat um áðan varðandi þá reikninga sem ég fékk í hendur í upphafi vega þegar þessi mál voru til umfjöllunar. Þegar ég sat sem varaformaður hv. iðnn. komu þessi mál á borðið og voru ansi erfið. En ég ítreka að ég þakka fyrir bæði málefnalega umræðu og góð svör.