1996-12-20 07:54:42# 121. lþ. 52.10 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[31:54]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að allt sem þarf að greiða fyrir, allt sem er kostnaður og fyrir þann kostnað þarf að greiða eru peningar sem koma einhvers staðar frá. Það er áætlað og ég fór yfir það fyrr í kvöld að heildarkostnaður við rafmagnseftirlitið í því formi sem það er rekið núna séu 200--260 millj. kr. Í 14. gr. frv. er nákvæmlega rakið lið fyrir lið hvað hver liður kostar. Þar erum við að tala um 120 millj. kr. heildarkostnað. Það er sparnaður sem af þessu hlýst. Ég svara kannski eins og ég svaraði hv. þm. Gísla S. Einarssyni áðan því ég veit að við viljum allir vinna að því að styrkja rafmagnseftirlitsmálin í landinu. Spurningin er um leiðina. Það kemur fram í öllum samþykktum og ályktunum frá öllum þeim aðilum sem hafa haft samband við okkur, hvort sem það er ráðuneytið eða nefndin, að við þetta ástand er ekki búandi lengur. Sú leið sem við erum nú að fara --- ég var efasemdamaður eins og ég sagði áðan á fyrra kjörtímabili eftir því hvaða upplýsingar ég hafði um hvernig málið var uppbyggt. Ég var ekki sannfærður um að þetta væri rétta leiðin. En eftir að hafa farið mjög nákvæmlega í málið, eftir að hafa fengið ráðgjöf hjá mönnum sem ég treysti mjög vel, eftir að hafa séð nefndarstarfið og hvernig það þróaðist, þá er ég sannfærður um að við erum á réttri leið. Verði það niðurstaðan að þetta frv. verði samþykkt áður en þing fer heim fyrir jól þá er ég sannfærður um að eftir eitt ár búum við við betri stöðu í þessum málum heldur en við gerum í dag.