Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 12:50:04 (2621)

1996-12-20 12:50:04# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[12:50]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil alveg sérstaklega taka undir þau orð hv. 2. þm. Vesturl. að við skulum gefa núverandi borgarstjórnarmeirihluta meiri tíma, miklu meiri tíma. Það sem borgarstjórnarmeirihlutinn hefur verið að gera lofar ákaflega góðu. Hann er að ná tökum á fjármálastjórn borgarinnar eftir langvarandi óstjórn. Ég held að við gætum lært mikið af því að kynna okkur nánar og betur það sem þar hefur verið að gerast.

Það er út af fyrir sig óþarfi að binda þessa umræðu svo mjög við það sem borgarstjórnarmeirihlutinn er að gera. Við ættum líka að líta til þess sem menn hafa verið að gera í sveitarfélögunum í kring og afstöðu þeirra til þeirra hugmynda sem hafa verið að birtast nú undanfarna daga um nauðsyn á frestun framkvæmda og jafnvel að hætta við bráðnauðsynlegar framkvæmdir. Ég hef ekki getað farið yfir gögn sem mér voru að berast í hendur nákvæmlega á því andartaki sem ég fór upp í stólinn en því verður ekki tekið þegjandi að skorið verði niður fé til bráðnauðsynlegra framkvæmda sem varða öryggi fólksins á þessu svæði og landsmanna allra. Þetta er einu sinni höfuðborgin sem við erum að tala um og við sendum ekki fólkið í burtu. Það þarf að veita því þá þjónustu sem það á rétt á.