Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 17:13:07 (2648)

1996-12-20 17:13:07# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[17:13]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla að nefna fjögur atriði og hefði viljað biðja hæstv. forseta að hann gerði hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. viðvart. Ég ætla, meðan ég bíð þeirra, að víkja lauslega að tveimur litlum brtt. sem ég flyt.

Það er í fyrsta lagi tillaga um Kennaraháskóla Íslands þar sem gerð er tillaga um að aukið verði nokkuð við fjármuni til Kennaraháskólans í því skyni að þar verði unnt að hefja svokallað fjögurra ára kennaranám frá og með haustinu 1997. Tilefnið er augljóst, m.a. sú mikla umræða sem hefur verið í gangi um kennaramenntun að undanförnu. Vaxandi athygli hefur beinst að Kennaraháskólanum og ég hygg að t.d. hafi einhverjir forráðamenn Kennaraháskólans snúið sér til hæstv. menntmrh. nýlega út af þessu máli og ég sá ekki betur en einhver frétt væri uppi um það. Mundi ég vilja biðja hæstv. menntmrh. að segja mér í leiðinni, þar sem hann má væntanlega heyra orð mín, hvað hann hugsar sér að gera í því máli. Mér er ljóst að það er ekki inni í fjárlagafrv. fyrir árið 1997 en nauðsynlegt er að vita hvaða hugmyndir menn eru með í þeim efnum.

Í annan stað er lítil brtt. um fornminjarannsóknir að Neðra Ási og Svignaskarði en þannig háttar til að við 2. umr. flutti ég litla tillögu um fornminjarannsóknir í Reykholti. Ég tek síðan eftir því við 3. umr. fjárlaga að fluttar eru vissar tillögur um skuldauppgjör vegna Snorrastofu, að mig minnir. Jafnframt kom fram í umræðum um fornminjarannsóknir fyrir nokkru, í bréfi sem hæstv. menntmrh. las upp frá þjóðminjaverði, að talið var skynsamlegra frá faglegu sjónarmiði séð að hafa áherslurnar á Neðra Ás og Svignaskarð fremur en Reykholt, eins og ég hafði gert tillögu um. Þess vegna hef ég flutt tillögu um fornminjarannsóknir að Neðra Ási og Svignaskarði. Í samræmi við það aflaði ég mér gagna um það mál og verð að segja að ég harma það mjög að geta ekki lesið þau öll fyrir þingheim en enginn tími er til þess. Það er ágætur kafli úr Kristni sögu um Neðra-Ás. Það er sömuleiðis kafli úr biskupasögum sem menn mundu hafa gaman af að heyra. Það er enn fremur nokkuð skemmtilegur þáttur úr ferðahandbók um Svignaskarð alveg sérstaklega. Þar hygg ég að sé um að ræða ferðahandbókartexta eftir Þorstein Þorsteinsson, sýslumann Dalamanna lengi. Síðan er hér alveg skínandi perla úr Þorgilssögu skarða sem ég hvet alla þingmenn til að lesa þegar þeir mega vera að um hátíðarnar. Svo hef ég hér bréf frá þjóðminjaverði um þennan fornleifauppgröft þar sem lögð er nokkuð mikil áhersla á hann, en ég ætla ekki að taka tíma hér með því að lesa það upp.

[17:15]

Ég hef þá mælt fyrir þessum tveimur brtt. mínum og ætla næst að víkja að því sem snertir hæstv. fjmrh. í máli mínu. Og það var reyndar eitt atriði, herra forseti, sem ég ætlaði auk þess að víkja að sem viðkemur hæstv. menntmrh., svo ég ljúki því af. Það er í sambandi við Lánasjóð ísl. námsmanna og er svohljóðandi: Hvernig er ætlunin að verja þessum 100 millj. kr. sem eru aukalega eða er hækkun á lánasjóðnum frá því sem var í fjárlagafrv. í haust? Hvernig er meiningin að skipta því á milli breyttra reglna um endurgreiðslur og samtímagreiðslur og fleira þess háttar? Ég hefði viljað inna eftir því vegna þess að það er óhjákvæmilegt að fá um það upplýsingar.

Þá vildi ég víkja að þeim atriðum sem snúa að hæstv. fjmrh. og þau eru tvö. Það fyrra er það sem ég spurði hann um í gær undir öðru dagskrármál, en hann hafði þá ekki tíma til að svara. Það er varðandi bætur almannatrygginga og hækkanir á þeim. Ég sagði þá við hæstv. fjmrh.: Ef laun hækka á almennum launamarkaði meira en 2%, hvað gerist þá að því er varðar bætur almannatrygginga? Þá svaraði hæstv. fjmrh. efnislega á þá leið að það væri ekki nokkur leið að svara því vegna þess að það geta verið í þessu eingreiðslur og þessar greiðslur og hinar, og það er erfitt að finna prósentutölu og svara því fyrir fram. Það skil ég, auk þess sem ég er þeirrar skoðunar að fjmrh. eigi að vera varkár í svörum af þessu tagi. Ég skil það mjög vel og dettur ekki í hug að ætlast til annars.

En þá spyr ég hann annarrar spurningar sem er kannski gleggri til þess að það sé alveg skýrt við hvað er átt og gef honum kost á því að svara líka skýrt. Hún er þessi: Segjum að laun á almennum launamarkaði hækkuðu í næstu kjarasamningum um t.d. 5% og þetta væri almenn hækkun yfir línuna á alla taxta, sama prósentan alls staðar. Mundi hann þá telja rétt við þær aðstæður að bætur almannatrygginga, Atvinnuleysistryggingasjóðs og aðrar slíkar bætur breyttust á sama hátt? Þetta hygg ég að sé alveg skýr spurning og ég bið hæstv. ráðherra að svara hér á eftir.

Þá er annað atriði sem ég ætla að koma að í sambandi við hæstv. fjmrh. og mér finnst satt að segja vera dálítið umhugsunarvert. Það er sú staðreynd að í fjárlagafrv., sem við ætlum að gera að lögum í kvöld að því er ég best veit, er gert ráð fyrir minni skatttekjum en óbreytt lög mundu tryggja og mismunurinn nemur 800--1000 millj. kr. Hæstv. fjmrh. hefur sagt: Þetta er í lagi, fyrst og fremst vegna þess að ætlunin er að taka þetta í upp í umræðurnar um breytingu á jaðarsköttum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur sagt: Þetta er sprengja á samningaborðið af því að hér eru menn í raun og veru að hækka skatta strax frá og með 1. janúar. Undir það tek ég.

En á þessu máli eru fleiri hliðar. Ég held því fram og ætla að rökstyðja það hér á eftir að sú aðferð að færa ekki allar tekjur ríkissjóðs sé brot á lögum um fjárreiður ríkisins og eftirlit með þeim og þá sérstaklega lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, nr. 52/1966. Hér sé sem sagt hreinlega um lögbrot að ræða og fjmrh. beri þess vegna að ganga þannig frá fjárlögunum að þau sýni í raun og veru allar þær tekjur sem gildandi skattalög skila í þessu sambandi. Ég hnaut um þetta mál í gær þegar hæstv. fjmrh. átti um það orðastað við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og taldi að hér gæti verið um að ræða aðferðir sem færu á skjön við lög um ríkisbókhald. Svo fór ég og fletti þessu upp í dag og vísa þá á eftirfarandi atriði: Í fyrsta lagi vísa ég á 16. gr. laga nr. 52/1966, en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Tekjur skulu færðar á því ári, er þær eru lagðar á eða hæfar til ákvörðunar samkvæmt ákvæðum gildandi laga.`` Gildandi laga. Gildandi skattalög skila fjmrh. þúsund millj. kr. meira á næsta ári í ríkissjóð en fjárlagafrv. gerir eins og það er fært upp nú. Ég tel með öðrum orðum að uppsetningin eins og hún er sé í fyrsta lagi brot á 16. gr. laganna um ríkibókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga.

Í öðru lagi ætla ég hér, hæstv. forseti, að lesa upp úr annarri grein í sömu lögum, en það er 62. gr. laganna um ríkisbókhald. Það er breyting sem var gerð á þeim lögum árið 1985 og ég hygg að við hæstv. fjmrh. þekkjum báðir. Í henni segir svo, með leyfi forseta:

,,Frumvarp til fjárlaga skal samið með tilliti til þjóðhagsáætlunar, svo sem kveðið er á um í 2. gr. l. nr. 13/1979`` og við könnumst við þau lög sumir hér. ,,Skulu áætlanir um tekjur og gjöld í fjárlagafrumvarpi gerðar á sömu meginforsendum og þjóðhagsáætlun og þær spár sem eru hluti hennar, þar á meðal um breytingar verðlags og launa. Á sama hátt skulu þjóðhagsforsendur fjárlaga miðast við endurskoðaða þjóðhagsáætlun fyrir fjárhagsárið sem í hönd fer eins og hún liggur fyrir við afgreiðslu fjárlaga.`` Það að stinga undan þúsund milljónum eins og hæstv. fjmrh. er að gera þó að hann ætli að nota þær með göfugum hætti einhvern tíma á næsta ári, það er fer einnig í bága við þessa grein.

Í þriðja lagi ætla ég að halda því fram að þessi vinnubrögð fjmrh. að stinga undan milljarði kr. á næsta ári eða ákveða það, stríði gegn 66. gr. sömu laga, en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Fjárlagaárið skal afmarka eftir reglum sem um ræðir í II. kafla og allar sömu meginreglur skulu gilda um efnisskipun og sundurliðun fjárlaga og þær er gilda um ríkisreikning, að svo miklu leyti sem við á. Þó má sundurliðun í fjárlögum vera minni en í ríkisreikningi.``

Anda þessa ákvæðis tel ég að hæstv. fjmrh. sé að brjóta með því að fara eins að við færslu á fjárlagafrv. og ætlun hans er. Út af fyrir sig kunna einhverjir að halda því fram að hér sé ekki stórmál á ferðinni. En það er það vegna þess að vinnubrögðin og uppsetning fjárlaga lýtur tilteknum öðrum lögum og það skiptir mjög miklu máli að mínu mati, herra forseti, að menn vandi umgengni sína við önnur lög. Þess vegna hvet ég fjmrh. til þess að sýna réttar tölur og ekki stunda bókhaldsbrellur við afgreiðslu fjárlaganna fyrir árið 1997, hreinar bókhaldsbrellur.

Ég gæti út af fyrir sig nefnt dæmi til samjöfnuðar. Segjum t.d. að ríkisstjórnin ætlaði sér á árinu 1997 að breyta lögum um tekjuskatt og eignarskatt og hún hygðist á árinu spara verulega greiðslur til landbúnaðar, segjum upp á 5 milljarða kr. Eða hún sparaði greiðslur til Lánasjóðs ísl. námsmanna upp á einn milljarð eða hvað það nú er. Segjum að þetta væru 5 milljarðar kr. Segjum að ríkisstjórnin hefði komist að þessari niðurstöðu: Hér ætla ég að öngla saman 5 milljörðum kr. og breyta hlutunum upp á 5 milljarða og skera niður ríkissjóðsdæmið upp á þessa tölu eða breyta því á næsta ári.

Samkvæmt aðferð hæstv. fjmrh. núna mundi hann væntanlega segja: Ef ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um þetta allt, þá gæti ég komið fjárlagafrv. þannig saman að hafa þetta næstum eins og mér sýnist í samræmi við þessar reglur, af því að ríkisstjórnin ætlar að breyta þessu kannski á næsta ári. Þetta minnir mig auðvitað strax á lagagreinina sem hæstv. félmrh. lét samþykkja nýlega, sem gekk nokkurn veginn út á það að ef samþykkt verða lög um eitthvað einhvern tíma á næsta ári, þá geti eitthvað orðið svona en ekki hinsegin, afskaplega athyglisverð nýmæli í lagasetningu. Og ég held því fram að þessi aðferð sem hæstv. fjmrh. er hér að brydda upp á sé ólögleg, hún brjóti í bága við lögin um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Ég hvet til þess að hann breyti þessu vegna þess að ég tel að þetta standist alls ekki.

Þetta var það tvennt sem ég vildi segja við hæstv. fjmrh. Annars vegar varðandi elli- og örorkulífeyrinn, bætur almannatrygginga. Hvað munu bætur hækka ef laun hækka tiltekið? Gerir hann ekki ráð fyrir því að þessar bætur almannatrygginga hækki hlutfallslega eins og annað í samræmi við kjarasamninga þegar þeir hafa verið gerðir? Hins vegar spyr ég hann: Hvaða rök hefur hann fyrir því að þetta séu ekki bókhaldsbrellur sem hann ætlar að iðka þarna með því að stinga undan 1000 millj. kr. með þeim hætti sem ég vitnaði til?

Þá hef ég lagt fyrir hæstv. menntmrh. spurningar varðandi 3--4 atriði sem mér þætti vænt um að hann svaraði. Síðan ætlaði ég kannski að bæta því við, en get ekki vegna þess að hæstv. umhvrh. er fjarri, tepptur og á ekki heimangengt eins og sakir standa hingað, að hún er satt að segja alveg ótrúleg þessi sambúð umhvrh. og landbrh., í einum og sama manninum eins og segir í frægu ljóði, sem birtist í hæstv. umhv.- og landbrh. Guðmundi Bjarnasyni. Hún kemur mér liggur við að segja átakanlega fram í þeim ákvörðunum sem nú eru teknar um að eyða 75 millj. í landgræðslu og skógrækt og 450 millj. á nokkrum árum, sem er sérstakt fagnaðarefni, en landbrh. tekur þessa ákvörðun án þess að tala við umhvrh. að því er best verður séð. Ég hef grun um að engin stofnun umhvrn. hafi komið nálægt þessari ákvörðun. Það er mjög skrýtið. Ég veit ekki til þess að umhvrn. hafi komið nálægt þessari ákvörðun, ég þekki það ekki en ég held ekki. Það er ekki talað við umhvn. Alþingis vegna þess að það er aldrei talað við þessar nefndir þingsins nema þegar þeir þurfa sérstaklega á því að halda, hæstv. ráðherrar. Ég veit ekki til þess að það hafi verið rætt við landbn., heldur eru hlutirnir tilkynntir á blaðamannafundi úti í bæ á sama tíma og verið er að afgreiða fjárlagafrv. Það er ekki smekklegt að standa þannig að málum. Það er heldur lítið gert úr Alþingi, finnst mér, með þessu.

[17:30]

Það er sagt að verið sé að ganga frá og tryggja það að Ísland standi við samninginn frá Ríó um loftslagsbreytingar. Mér er ekki kunnugt um að nokkuð liggi fyrir um að það sé hægt að uppfylla ákvæði samningsins með landgræðslu af því tagi sem hér er gert ráð fyrir, ekki neitt. Mér segir svo hugur, að ef menn ætla að nota erlendar plöntutegundir eins og lúpínur í stórum stíl til að uppfylla þessi skilyrði, þá geti farið þannig að um leið og þeir eru að uppfylla koldíoxíðsamninginn, þá brjóti þeir samninginn um það sem kallað er líffræðilegur fjölbreytileiki. En samkvæmt ráðstefnum sem ég hef lesið um í erlendum blöðum að undanförnu er talið að flutningur framandi plantna í nýtt umhverfi sé ein sú mesta vá sem steðjar að lífríki jarðar um þessar mundir. Þar á meðal það að leysa þessi uppgræðsluvandamál hér á landi, þ.e. landgræðsluna fyrir 75 millj. með því að planta hér lúpínu eða öðrum erlendum tegundum í stórum stíl. Þess vegna spyr maður: Var haft samband við umhvrh. þegar landbrh. tók þessa ákvörðun? Ég held að hann hafi ekki gert það, ég veit ekki til þess. (Félmrh.: Skógrækt og landgræðsla heyra undir landbrh.) Það er nefnilega nákvæmlega hárrétt, en samt er það þannig, og þarna var Framsfl. lifandi kominn, að landbrh. tekur nákvæmlega þær ákvarðanir sem hann tekur sem landbrh., en hann á í þessu tilviki að hafa samráð við stofnanir umhvrn. og ráðuneytið. Það er alveg augljóst mál og mér er ekki kunnugt um eftir vissa könnun sem ég hef gert á því máli að það hafi verið gert. Það er þetta sem ég er að gagnrýna og þessi sérkennilega staða kemur t.d. upp í sambandi við uppgræðsluna á Hólasandi þar sem menn ákveða að fara í allmyndarlegt átak sem betur fer, en það verður auðvitað að fara í umhverfismat. Niðurstöður skipulagsstjóra ríkisins í þeim efnum liggja fyrir. Þegar þær liggja fyrir, þá kærir landbrh. þær --- til hvers? Til umhvrh. sem er í einum og sama manninum eins og segir í ljóðinu. Þetta er erfið sambúð, hún er flókin, herra forseti. Ég segi alveg eins og er að mér finnst að í rauninni hafi menn að einhverju leyti látið blekkjast, sem er skiljanlegt kannski vegna þess fyrst og fremst að þjóðin vill styðja landgræðslu og skógrækt, guði sé lof, og leggja mikið á sig í þeim efnum. En vandinn er bara sá að það er ekki sama hvernig að því máli er staðið eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson rakti hér áðan. Það er ekki sama hvernig að því er staðið. Það er liðin tíð að menn geti tekið slíkar ákvarðanir á tiltölulega losaralegum faglegum grundvelli. Þar verða hlutirnir að vera nákvæmir.

Ég get lokið máli mínu, sem samanstendur aðallega af tveimur, þremur spurningum til hæstv. menntmrh. og tveimur spurningum til hæstv. fjmrh., með því að spyrja hv. formann fjárln. þessarar spurningar: Hvaða úttektir lágu fyrir af hálfu stofnana umhvrn. á því landgræðsluátaki sem landbrn. kynnti hér í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum?