Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 17:33:43 (2649)

1996-12-20 17:33:43# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[17:33]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi spurningu hv. þm. um fjögurra ára nám við Kennaraháskóla Íslands þá er það að segja að samkvæmt lögum ber að taka ákvarðanir um það mál í síðasta lagi árið 1998. Ég hyggst láta skoðanir mínar koma fram í frv. til laga um uppeldisháskóla sem verið er að undirbúa. Mér finnast rök hníga til þess að taka upp fjögurra ára nám við Kennaraháskólann, en menn verða einnig að velta fyrir sér hvernig sá tími er best nýttur og það er mjög mikilvægt að hugað sé að hvernig náminu er skipað, hvort þarna verði um fjögurra ára skyldunám að ræða eða tækifæri til þess að stunda fjögurra ára nám ef menn kjósa svo til þess að sérhæfa sig með einum eða öðrum hætti.

Ég tel að það skynsamlegt sem kom fram hjá hv. þm. um Neðra Ás og Svignaskarð, ég tel að það sé skynsamleg forgangsröðun varðandi fornleifarannsóknir.

Um Lánasjóð ísl. námsmanna er spurningin hvernig ætlunin sé að verja þeim fjármunum sem gert er ráð fyrir að setja í lánasjóðinn, 100 millj. kr. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég telji skynsamlegt að auka fjárveitingar til lánasjóðsins og það hefur komið fram í umræðum á þingi áður. Ég hef einnig lýst þeirri skoðun minni að ég telji skynsamlegt að létta endurgreiðslubyrðina en eins og fram kom í máli hv. þm. eru önnur sjónarmið einnig um nýtingu á þessum fjármunum. Ég tel að þeir munu nýtast best með því að létta endurgreiðslubyrðina en engar ákvarðanir verða teknar um ráðstöfun fjárins án þess að bera þær undir Alþingi því það þarf að breyta lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna til þess að þessir fjármunir nýtist í þeim tilgangi sem um hefur verið rætt. Þingmenn munu fá tækifæri til þess að taka afstöðu til málsins, væntanlega á vorþinginu.